Fimmtudagur, 8. maí 2008
Ljúft er maíkvöld í Grafarholti
Foreldrar mínir eiga bók, sem ég hef ekki enn orðið af að lesa, sem ber þann seiðandi titil Ljúf er sumarnótt í Færeyjum. Höfundarnafnið man ég því miður ekki. En þessi bókartitill kom upp í hugann nú í kvöld, þegar maíkvöldið í Grafarholti var einfaldlega þannig, að það togaði mann bókstaflega út til sín í kvöldgöngu. Það fara líka að verða síðustu forvöð að njóta gönguferða í Grafarholti fyrir okkur Austurlandsfarana. Rakst á labbi mínu á nokkra drengi, sem ég gerði heiðarlega tilraun í vetur til að kenna um grundvallaratriði kristindómsins. Maíkvöldið hafði einnig lokkað nýfermda töffarana út til sín, og breytt þeim í börn að leik. Það var gott að sjá.
Það verður líka að segjast einkennileg tilfinning - og einkar ljúf - að upplifa próflausan maímánuð, þó að vissulega hafi það kostað mikið basl í verkefnum í apríl. Ég leyfði mér m.a.s. að vera alla síðustu viku í útlöndum, daga í apríl og maí sem vanalega eru undirlagðir af próflestri. Tilefnið var mjög ánægjulegt eða aðalfundur Evrópusambands KFUM í Litomysl í Tékklandi. Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í fundarstörfum í fyrsta skipti, og kynnast starfi bæði Evrópuhreyfingarinnar og því fjölbreytta verksviði, sem KFUM-félögin í álfunni fást við. Víkkar út sjóndeildarhringinn. Og allra best voru þau forréttindi að vera fulltrúi ungs fólks í KFUM & KFUK á Íslandi á stofnfundi ungmennaráðs KFUM, hinum svonefnda YES-hópi (YMCA European Spectrum), sem ég hlakka til að taka áfram þátt í.
Annars skilaði ég síðasta verkefni annarinnar í dag og er þar með búinn með mínar skyldur í Háskólanum þessa önnina, að undanskilinni lokaprédikuninni minni 19. maí næst komandi. Ykkur er öllum boðið í Háskólakapelluna kl. 15 þann dag að hlýða á okkur Stefán Einar flytja ódauðlegar prédikanir, svo er kaffi á eftir í boði okkar (og mæðra okkar og amma...). Verkefnaskilunum fagnaði ég með því að hlýða á vanmáttugar tilraunir borgarstjórans blessaðs í Kastljósi til að verja sig í vandræðalegu ráðningarmáli. Heyrði að fundur stuðningsmanna borgarstjóra til sjávar og sveita hefði verið boðaður í T-stofu Menntaskólans í Reykjavík nú í kvöld, í skjóli nætur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.