Á Búðum

Liðinni helgi (þ.e. frá laugardegi til sunnudags) eyddum við Hlín í faðmi móðurfjölskyldu minnar á Búðum á Snæfellsnesi, en þangað var allri familíunni stefnt til að halda upp á áttræðisafmæli ömmu minnar, Elínar Ingólfsdóttur, á Hótel Búðum, en hún fyllti 80 árin sl. fimmtudag. (Þessi dönskusletta var vel við hæfi, "hun fyldte 80 aaren," þar sem Ella amma mín var dönskukennari alla sína starfsævi.) Var þetta hin skemmtilegasta ferð í alla staði og ánægjuleg samvera með ömmu og allri fjölskyldunni, enda hefði gamla konan helst viljað dvelja lengur á Búðum og gildir það líklega um fleiri. Maturinn á Búðum meig í munni, helst að skammtarnir væru full-mínimaliskir fyrir minn smekk...

Fagurt var um að litast á Snæfellsnesinu þó að ekki hafi verið farið að grænka að ráði. Við notuðum tækifærið til að keyra yfir Fróðárheiðina og kynna okkur sjoppumenningu í Ólafsvík. Stuttar vegalengdir finnast mér á milli staða og vegir góðir, þó að ekki ætli ég að fullyrða um færð á vetrum. Ég reyndi að komast inn í þrjár kirkjur, sem allar reyndust harðlæstar - mikið ofbeldi að þurfa alltaf að hafa kirkjurnar úti á landi læstar, einstaka eru reyndar hafðar opnar og er þetta happdrætti hjá mér að kanna hvort svo sé um kirkjur sem ég rekst á á ferð um landið. 

Kirkjurnar sem ég guðaði á gluggann á voru Búðakirkja, Ólafsvíkurkirkja og Ingjaldshólskirkja. Að þeirri síðastnefndu hygg ég að íbúar Hellissands og Rifs eigi kirkjusókn, en þar er bæði sérstakt og skemmtilegt, að það er líkt og safnaðarheimili þessarar ævagömlu kirkju (las á túristaskilti að hún væri jafnvel talin elsta steinsteypta kirkja heims!), sé grafið inn í hæðina, sem hún stendur upp á. Segið svo að notagildi og klassík geti ekki farið saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband