Fimmtudagur, 14. febrúar 2008
Vorvindar?
Ég þurfti nánast að minna mig á það nú áðan, að ennþá væri þorri og alls ekki komið vor. Ástæðurnar voru tvær.
Í fyrsta lagi er byrjað að hlýna allverulega og komnar miklar leysingar, eins og á vori. Reyndar hafa slíkar leysingar ekki fylgt íslenskum vorum árum saman vegna lítilla snjóa, en engu að síður finnst manni þessar leysingar eftir langa kulda- og snjóatíð býsna vorlegar og í öllu falli kærkomnar. Þær minna á "betri tíð með blóm í haga/ bjarta langa sumardaga." Og það gerir líka dagsbirtan, sem ryður sér lengri og lengri leið á kostnað vetrarmyrkursins með hverjum deginum sem líður. Þetta eru góðir dagar.
Í öðru lagi fannst mér vorlegt nú áðan vegna þess, að ég var að ganga út úr eina prófinu mínu á þessu misseri. Svo undarlega vill til, að allir mínir áfangar nema einn eru próflausir á þessu misseri - svona er kennslufræðin! Og þessi eini prófáfangi minn, Gerð námskrár og námsefnis, er skipulagður þannig, að hann skiptist í tvo hluta: Í fyrri hlutanum felst námsmatið í hópverkefni og prófi (sem fór fram nú í morgun), en í seinni hlutanum í verkefnum, einkum í stóru lokaverkefni þar sem við eigum að glíma við að búa til okkar eigin námsefni til kennslu á okkar sérsviði. Er ég að hugsa um að vinna dálítið námsefni fyrir fermingarbörn, og hlakka til að takast á við það verkefni.
Svo mætti kannski bæta við þessar vorhugrenningar, að fastan er hafin fyrir viku síðan, óvenjusnemma á ferðinni að þessu sinni, og þar með nálgast páskarnir og gleði upprisu og nýs lífs að vori.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.