Þriðjudagur, 11. desember 2007
Próflestur og aðventustúss
Þá er próflesturinn í algleymingi. Reyndar fer ég aðeins í tvö próf í þessum desembermánuði, sem er nokkuð undarlegt miðað við það sem maður á að venjast. Ástæðan er sú að allir áfangarnir mínir þrír í kennslufræðinni í haust hafa verið próflausir, auk þess sem einum af þremur áföngum mínum í guðfræðinni lauk með heimaprófi um mánaðamótin, eins og ég sagði víst frá hér að neðan.
Fyrra prófið mitt verður nú eftir hádegið, í Guðfræði Gamla testamentisins hjá dr. Gunnlaugi A. Jónssyni. Það hefur verið einkar skemmtilegt að geta sökkt sér ofan í kennslubókina, "Theology of the Old Testament," mikinn doðrant eftir Walter Brueggemann, en kennari fullyrðir að hún sé ein af þremur helstu ritum um efnið á 20. öld, og sú nýjasta. Sérstaklega finnst mér gaman að sjá hvernig höfundur setur upp spennuna milli hinnar "hörðu" guðsmyndar Gamla testamentisins (hinn heilagi faðir, konungur, alvaldur, jafnvel hefnigjarn) og svo hinnar "mjúku" (Guð sem móðir og hirðir, ástríðufullur kærleikur Guðs á þjóð sinni og sköpun o.s.frv.). Þetta er merkilegt í ljósi Ritningarinnar allrar, en Brueggemann dregur einmitt enga dul á, að hann er kristinn maður, sem vill lesa Gamla testamentið sem hluta af Biblíunni allri.
Seinna prófið mitt verður svo reyndar ekki fyrr en eftir rúma viku, í áfanganum Trúfræði III þann 19. desember nk. Því bregður svo óvenjulega við, að næstu þrjá daga ætla ég að hvíla mig frá skólanum - sem ekki hefur gerst áður um miðjan desember svo ég muni eftir - áður en ég sný mér að því að lesa trúfræðina. Hef ég á næstu dögum hugsað mér að baka tvær smákökusortir, dunda við jólahreingerningu, sinna ýmsu í tengslum við vinnuna og taka tvær stuttar vaktir á sölubás Kristniboðssambandsins í Kringlunni. (Allir að drífa sig þangað að kaupa jólakort og friðarljós til styrktar kristniboði og hjálparstarfi!) Það er alltaf jólalegt að standa þar á básnum í nokkra tíma og eiginlega orðinn ómissandi hluti aðventunnar hjá mér, þó að áður hafi ég ekki gert það fyrr en eftir próf eða um 20. des.
Jæja, það er best að koma sér að lokasprettinum í lestrinum...
Athugasemdir
Það er eins gott að þú munir eftir afmælisbarninu þegar þú fagnar því að vera búinn með prófin
Þjóðarblómið, 13.12.2007 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.