Ánægjuleg fjölskyldustund í söfnuðinum

Með ánægjulegri verka minna við að halda utan um barnastarf Grafarholtssóknar, er þátttaka í reglulegum fjölskylduguðsþjónustum safnaðarins. Þar mætast messan og sunnudagaskólinn í stórri fjölskylduhátíð, en ein slík var einmitt haldin í Ingunnarskóla nú kl. 11 í morgun. Í skólanum fer barnastarf safnaðarins að mestu fram, en alls er safnaðarstarfið nú dreift á þrjá staði í hverfinu, og mun svo verða uns kirkja hefur verið vígð í Grafarholti. Fjölskyldumessurnar eru skemmtilegar að því leyti til, að þar mætast ýmsir aldurshópar, allt frá alyngstu börnunum til eldra fólksins í hverfinu.

Oft syngur Barnakór Grafarholtssóknar í fjölskyldumessum og var svo einnig í morgun. Raunar voru börnin í kórnum aðeins átta í morgun enda settu veikindi, íþróttamót og fleira strik í reikninginn. Það kom þó ekkert að sök enda sungu börnin undurfallega lög frá ýmsum heimshornum í tilefni af Kristniboðsdegi Þjóðkirkjunnar. Í tilefni af þeim degi sýndi ég einnig myndir frá Keníu og sagði frá lífinu þar og ekki síst kristniboðs- og hjálparstarfinu. Samskot voru tekin til starfsins og hygg ég að nokkur þúsund krónur hafi safnast. Þá var einnig skírn í upphafi messunnar, og var það í fyrsta skipti sem skírt er við fjölskyldumessu í Grafarholtssókn. Kirkjuleysið veldur því, að langflestir foreldrar í Grafarholti kjósa enn um sinn að láta skíra börn sín heima við. En ánægjulegt var, að lítill drengur væri skírður á sjálfan Kristniboðsdaginn. Svo fengu allir kristniboðsblað eða -almanak með sér heim, og djús og kex á leiðinni út.

Aðsóknin í barnastarfið og guðsþjónusturnar er auðvitað upp og ofan í Grafarholtinu eins og annars staðar. En messan í morgun var býsna fjölmenn, og lögðu um 120 manns, börn og fullorðnir samtals, leið sína í kirkju. Höfðum við gert ráð fyrir talsvert færra fólki og máttu ég og meðhjálpararnir tveir hafa hraðar hendur við að bera aukastóla yfir í aðalsal skólans, þar sem messan var haldin. Gleðilegt vandamál!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband