Sunnudagur, 28. október 2007
Óværan
Óværan hefur tekið sig upp að nýju.
Enn einu sinni hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að sala á léttvíni og bjór verði gerð frjáls. Og enn einu sinni getur maður ekki annað en vonað og beðið, að frumvarpið verði fellt á þinginu, og helst aldrei lagt fram aftur.
Hvers vegna skyldi ég vera mótfallinn þessu frumvarpi? Vissulega eru bæði fullgild og skiljanleg meðrök með því: Ríkisvaldið ætti ekki að hafa afskipti af áfengisneyslu sjálfráða þegna, aukið aðgengi að áfengi auðveldar mörgum lífið og hugsanlegt er að samkeppnin skili sér í lægra vöruverði til neytenda.
Ef til vill eru meðrökin fleiri. En þessum rökum hef ég í það minnsta velt fyrir mér, metið þau og léttvæg fundin gegn mótrökunum, sem að mínum dómi eru fern:
1) Miklar líkur eru til þess, að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar áfengisneyslu meðal Íslendinga. Vissulega er hér ekki um að ræða sterk vín. En gleymum því ekki, að vel má verða drukkinn af léttum vínum og bjór, og auðveldlega má ánetjast neyslu þessara drykkja og missa tökin á henni með skelfilegum afleiðingum fyrir eigið líf og manns nánustu. Takmarkað aðgengi að áfengi hefur því óneitanlega forvarnargildi. Og oftar en ekki leiðir unglingadrykkja á bjór og léttvíni til neyslu sterkari drykkja og jafnvel annarra, enn hættulegri vímugjafa.
2) Hvað þá snertir, sem nú þegar hafa orðið drykkjusýki að bráð, hygg ég að neysla þeirra muni síst minnka við aukið aðgengi að áfengum drykkjum. Alkóhólismi hefur nú þegar eyðilagt líf of margra íslenskra fjölskyldna. Ekki mun þeim fækka við þessa breytingu, fremur þar á móti. Áfengi er fíkniefni, af sumum talið með þeim hættulegri, vegna þess hve lymskulegt það er. Bjór er ánetjandi vímugjafi, því skyldi enginn gleyma.
3) Aðeins þeir mega samkvæmt landslögum kaupa áfenga drykki, sem náð hafa 20 ára aldri. Hvort endurskoða eigi þau lög og miða við annað aldursmark er annað mál. En jafnvel þó að áfengiskaupaaldurinn yrði miðaður við sjálfræðisaldurinn, hefði mikill meirihluti afgreiðslufólks í íslenskum matvöruverslunum alls ekki aldur til að kaupa áfengi. Ættu þau börn nú að byrja að afgreiða áfengi til viðskiptavina? Ekki þykir mér líklegt að hægt yrði að fylgja því eftir, að aðeins tvítugir starfsmenn og eldri afgreiddu áfengi - eða þá yrðu matvöruverslanirnar í það minnsta að taka sín starfsmannamál rækilega í gegn. Og þaðan af síður þykir mér líklegt, að 13-14 ára afgreiðslumenn myndu neita jafnöldrum sínum, hvað þá eldri viðskiptavinum, 15-17 ára, um áfengiskaup. Skyldu alþingismennirnir, sem lagt hafa fram umrætt frumvarp, hafa fundið lausn á þessu máli? Þá lausn þætti mér gaman að sjá.
4) Að síðustu má velta því fyrir sér, hvort almennir neytendur, það eru þeir sem bæði hafa áfengiskaupaaldur og fullt vald á áfengisneyslu sinni, væru nokkru bættari með því að geta keypt rauðvínið sitt og bjórinn í Bónusi eða 10-11, fremur en í vínbúðum ÁTVR. Myndi áfengisverðið lækka við það? Í dagblaði á dögunum taldi framkvæmdastjóri Bónuss það ósennilegt, þar sem álögur á áfengi væru þegar svo miklar, að svigrúm til verðstríðs væri lítið sem ekkert. Auðvitað verða verslanirnar að fá eitthvað fyrir sinn snúð, ef það stæði ekki til væru þær væntanlega ekki fremstar í flokki þrýstihópa fyrir þessu frumvarpi. - Jú, vissulega væri auðveldara að hlaupa út í búð á öllum tímum - jafnvel allan sólarhringinn - ef vantaði eina og eina flösku. En eru það mikils verðir hagsmunir á við það, að hætta á aukna drykkjusýki meðal landans? Og yrði þjónustan söm hjá afgreiðslukrökkum Bónuss líkt og hjá sérfræðingum Vínbúðanna?
Ég tel einsýnt, að hér sé meiri hagsmunum kastað fyrir minni. Og ekki er það heilbrigðisráðherranum til sóma, að styðja við bakið á málefninu, þó að vitanlega hafi staða hans verið einkennileg.
ÉG MÓTMÆLI ÞESSU FRUMVARPI - MÓTMÆLI AUKNU AÐGENGI AÐ ÁFENGI Á ÍSLANDI!
ALÞINGISMENN: FELLIÐ ÞETTA LJÓTA FRUMVARP OG KOMIÐ ALDREI MEÐ ÞAÐ AFTUR!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.