Dýralíf á Eiðum

Ég er nú kominn aftur hingað austur á land til að eyða síðustu dögum sumarsins, fram að skólabyrjun, við Eiðavatn. Kirkjumiðstöðin hér hefur verið aðsetur Hlínar seinustu vikurnar þar sem hún hefur starfað á Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum í sumarafleysingum frá því að sumarbúðastarfinu lauk hér í lok júlí, og reyndar einnig áður en sumarbúðirnar hófust í júní. Sjálfur er ég að leggja lokahönd á kjörsviðsritgerðina mína (lokaritgerðina) við guðfræðideild og er reyndar auk þess að byrja að líta í námsbækur haustsins og huga að upphafi vetrarstarfsins í Grafarholtinu.

Þó að ég sitji einn við á skrifstofu Kirkjumiðstöðvarinnar er ekki hægt að segja að ég sé einn hér á lóðinni. Reyndar er ég eina mannskepnan - svo ég viti til í það minnsta - en dýralíf er heilmikið hér í kringum húsið. Fyrst ber þar að nefna rjúpurnar, sem hafa verið duglegar við að gera sér hreiður í grennd við húsið í sumar. Ég leitaði stundum að hreiðrum með áhugasömum börnum í sumar, og nú er gaman að sjá ungana vera orðna stóra og að reyna að fljúga úr hreiðrinu. Það verður þó að gæta vel að bílferðum á afleggjaranum að húsinu, því að rjúpurnar eru býsna margar, fara ekki allar mjög hratt yfir og eiga það til að þvælast fyrir manni á veginum.

Land Kirkjumiðstöðvarinnar er afgirt og ristarhlið á akvegi, en engu að síður er greinilegt að girðingin er ekki fjárheld, og þyrfti að gera bót á því. Töluvert af sauðfé hefur nefnilega slæðst inn fyrir girðingu í sumar, og myndi ég áætla að nú væru á lóðinni a.m.k. 15-20 rollur. Þær fara þó ekki vitund í taugarnar á mér, og getur jarm fyrir utan gluggann bara verið ósköp notalegt. Þó var sárt að sjá eitt svart lambið á harðaspretti við eldhúsgluggann í morgun, þegar ég var að borða morgunmat, greinilega í leit að mömmu sinni. En ég er hræddur um, að ég hefði gert meira ógagn en gagn, hefði ég reynt að koma því til hjálpar!

Að síðustu má nefna lífríki vatnsins. Það hefur komið mér heilmikið á óvart í sumar, hve mikið börnin gátu veitt í Eiðavatni í sumarbúðadvöl sinni, og eiginlega ættum við Hlín að skella okkur út á bát við tækifæri og reyna að veiða okkur til matar! En í morgun sá ég líka talsvert af álftum niðri við vatnið, og hef ég ekki séð það áður í sumar. Það var falleg sjón, ef ekki fallegri heldur en svanirnir á Tjörninni í Reykjavík, sem máfarnir blessaðir eru víst búnir að hrekja flesta í burtu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband