Kvennaguðfræði

Er þörf á sérstakri kvennaguðfræði? Já, segja margar konur úr hópi guðfræðinga, þar sem guðfræðin hefur í gegnum tíðina verið skrifuð af körlum, fyrir og um karla. Biblíuna þarf að túlka í ljósi feðraveldishugsunar samtíma hennar með það fyrir augum að gera boðskap hennar aðgengilegan og frelsandi fyrir konur á öllum tímum. - Og þau síðustu fjögur ár, sem ég hef numið guðfræði við Háskóla Íslands, hefur allnokkur tími farið í að kynna sér þessa hlið guðfræðinnar innan hinna sérstöku fræðigreina hennar, þ.e. á hvern hátt femínistar fara höndum um t.d. trúfræði, siðfræði og kirkjusögu. Sitt sýnist auðvitað hverjum um þessa áherslu, eins og gengur.

Á bókasafninu um daginn rakst ég á rit, sem miklu máli skiptir fyrir kvennaguðfræði á Íslandi, og ákvað að renna í gegnum það. Hér er um að ræða bókina Vináttu Guðs eftir séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Eins og flestir vita braut séra Auður blað í sögu íslenskrar kirkju árið 1974, er hún vígðist fyrst kvenna hér á landi til prests. Hún hefur rannsakað kvennaguðfræði árum saman, er einn stofnenda Kvennakirkjunnar og prestur hennar seinasta áratuginn, en lét af störfum á þessu ári fyrir aldurs sakir.

Vinátta Guðs er á margan hátt heillandi bók. Hún skýrir sjónarmið kvennaguðfræðinnar með mjög aðgengilegum hætti, og reynir að leiða lesendum fyrir sjónir á hvern hátt tal um "hana Guð," femínísk túlkun á biblíutextum og leit að kvenfyrirmyndum í kirkjusögunni, svo nokkur dæmi séu nefnd, geti auðveldað konum leiðina til einlægrar trúar. Mikilvægast er, að þó að séra Auður Eir hafi ýmislegt sagt og gert sem kann að hafa hneykslað, ekki síst sú aðferð hennar að tala um Guð í kvenkyni, víkur hún aldrei frá postullegri hefð kirkjunnar. Hún stendur föstum fótum í trú sinni á þrenninguna, á skaparann Guð, á frelsunarverk Jesú Krists og á mátt Heilags anda. Hún rífur ekkert niður af klassískri kenningu, en hún dýpkar mjög margt og víkkar. Hún bendir á ýmis trúarbrögð, sem konur hafa leitað til í því skyni að styrkja sjálfsmynd sína, svo sem átrúnað norna, en hún mælir ekki með þeim við lesendur sína, heldur gerir þeim fullkomlega ljóst að hún sjálf sé kristin og sæki sér styrk í kristinn trúararf - og umfram allt í vináttu sinni við Guð. Guð Auðar Eirar er Guð Biblíunnar, Guð sem birtist í Jesú Kristi. Það er hún Guð jafnt sem hann Guð, Guð sem er vinkona og vinur, Guð sem huggar, styrkir, frelsar og er alltaf nálægur, Guð sem lætur sér annt um konur jafnt sem karla.

Það er hvorki rangt né óbiblíulegt að tala um Guð í kvenkyni, ekki frekar en karlkyni, þar sem Guð er auðvitað hvorki kona né karl, heldur andi, líf, ljós, kærleikur - en samt persóna, þríein persóna. Það er heldur ekkert rangt - heldur getur það þvert á móti verið mjög jákvætt - að leita að jákvæðum orðum Krists um konur, leita að kvenfyrirmyndum í Biblíunni og kirkjusögunni, sterkum konum sem kristnar konur og karlar í samtímanum geta litið til. Og enn síður er það rangt að leggja áherslu á nálægð og vináttu Guðs við okkur öll. Það sem helst er hægt að gera athugasemd við í guðfræði Auðar Eirar er að mínum dómi það, að hún gerir fulllítið úr því eðli Guðs að hann sé hátt upp hafinn og heilagur Guð. Að mínu viti er það undur kristindómsins, að hinn hái og helgi Guð sé líka sínálægur í anda sínum, að skapari himins og jarðar hafi gerst maður í Jesú Kristi vegna elsku til mannanna.

Hvað sem því líður er kvennaguðfræði í anda Auðar Eirar fullkomlega ásættanleg og rúmlega það fyrir kirkjuna okkar. Það þýðir alls ekki að hún eigi að vera eina guðfræðin okkar, en hún má gjarnan rúmast þar einnig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband