Miðvikudagur, 8. ágúst 2007
Svar við klukki eiginkonunnar
Ekki verður lengur undan því vikist að tína til átta staðreyndir um mig sjálfan, úr því að sjálf eiginkonan er búin að "klukka" mig! Hér koma þær:
1. Ég er kvæntur en bý samt í foreldrahúsum þessa dagana, þar sem Hlín er enn að vinna fyrir austan og við bíðum eftir að fá nýju íbúðina okkar afhenta um mánaðamótin.
2. Ég hef óviðráðanlegan, og að margra dómi afar einkennilegan, áhuga á messunni og helgisiðum kirkjunnar, en reyndar einnig flestu öðru sem tengist guðfræði.
3. Ég er alinn upp í Reykjavík, á Seltjarnarnesi og síðast en ekki síst á Laugum í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu.
4. Ég er þó einkum ættaður úr Árnessýslu, úr Flóanum og Hrunamannahreppi, en einnig af Ströndum og úr Reykhólasveitinni.
5. Minn uppáhaldsmatur er íslenskt lambalæri með kartöflum, brúnni sósu, rauðkáli og grænum baunum.
6. Ég bjó einn vetur í Strasbourg, Frakklandi, og gæti vel hugsað mér að búa aftur erlendis, t.d. í Þýskalandi, Frakklandi eða á Norðurlöndunum.
7. Þegar ég var níu ára heimsótti bekkurinn minn Mjólkursamsöluna, og er sú heimsókn mér enn í fersku minni, þó að ekki hafi ég síðar stigið þar inn fæti, né hafi uppi áform um að gerast mjólkurfræðingur.
8. Ég ákvað 17 ára gamall að læra guðfræði og gerast ef til vill einn daginn prestur. Hef ekki séð eftir guðfræðináminu, hvað síðar verður með prestsskapinn á framtíðin eftir að leiða í ljós.
Þá er það komið. Var ekki svo erfitt og reyndar nokkuð skemmtilegt fyrir mig, en eflaust drepleiðinlegt fyrir lesendur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.