Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Einkennilegar lyfsöluaðferðir
Umfjöllun Blaðsins í síðustu viku um samkeppni, eða öllu heldur fákeppni, á lyfjamarkaðnum, var athyglisverð og á Blaðið þakkir skildar fyrir hana. Þar var það staðfest, sem mig hefur lengi grunað, að fyrirtækin Lyfja annars vegar og Lyf og heilsa hins vegar skipti íslenskum lyfjamarkaði á milli sín, ryðji minni samkeppnisaðilum út úr sínum rekstri og píni svo upp lyfjaverðið.
Tveir lyfsalar af landsbyggðinni sögðu í Blaðinu, að þeir hefðu aðeins átt tvo kosti gagnvart stóru lyfjafyrirtækjunum: að selja þeim rekstur sinn eða eiga á hættu að fara á hausinn í óviðráðanlegri samkeppni, þar sem ýmsum brögðum er beitt. Lyfsalinn á Akranesi sýndi kvittanir, sem sýndu svo ekki verður um villst að annað stóru fyrirtækjanna býður upp á töluvert lægra verð á Akranesi, væntanlega til að ryðja sjálfstæða samkeppnisaðilanum þar út af markaðnum, en í vesturbæ Reykjavíkur.
Lyfsölum er í sjálfsvald sett að haga sér með þessum hætti. En það er líka full ástæða til að reyna að sniðganga fyrirtæki, sem þetta gera. Það er neytendum í sjálfsvald sett. Það er reyndar erfitt að finna apótek á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki tilheyrir stóru keðjunum. Eitt slíkt er þó Rima-apótek í Grafarvoginum. Þar er verðið hóflegt og gott úrval lyfja og annarra apóteksvara.
Í vor vantaði mig lyf, sem ég tek reglulega vegna sjúkdóms míns í nýrnahettum. Brá svo við, að ég uppgötvaði skömmu fyrir utanferð, að lyfið myndi klárast í útlöndum, og vantaði mig því nýjan skammt með stuttum fyrirvara. Í Landspítalaapóteki var mér sagt, að lyfið væri ekki til í landinu, en málið yrði þó athugað betur. Ég ákvað þó, að hringja sjálfur í nokkur apótek og athuga málin. Rima-apótek varð fyrst til svara - og jú, lyfið, sem ekki átti að vera til í landinu, var nú reyndar til þar, vandræðalaust!
Ég, Þorgeir Arason, mæli með Rima-apóteki.
Athugasemdir
KLUKK!
Lutheran Dude, 2.8.2007 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.