Nokkrar línur að austan

Ætli það sé ekki kominn tími á að senda nokkrar línur á netið frá Eiðavatni. Eins og gefur að skilja tekur tölvuletin völdin þegar dvalið er í sumarbúðum. Og ýmislegt hefur verið meira heillandi að gera, svona á milli flokka, en að setjast við tölvuna. Eftir fyrsta flokk nýttum við Hlín dagsfrí til að keyra suður á Djúpavog og taka ferjuna þaðan út í Papey. Þangað var gaman að koma þó að við hefðum akkúrat hitt á fyrsta þokudag sumarsins. Austfjarðaþokan stríddi okkur töluvert þó að létt hefði til þegar leið á heimsóknina í eyjuna. Það er um 45 mínútna sigling út í Papey, og komið við á leiðinni á klettinum Skorbein, þar sem svipast er um eftir selum. Í Papey er gengið um með leiðsögumanni (sem í okkar tilfelli var frá Litháen en talaði góða íslensku), fuglalífið skoðað, einnig kirkjan og umhverfi eyjunnar.

Eftir annan flokk fengum við tveggja daga frí og keyrðum þá alla leið suður í Skaftafell, þar sem við fórum í göngur og nutum lífsins. Skaftafell er fyrirheitna landið hennar Hlínar, þar var hún svo oft með fjölskyldunni sem krakki og vildi ólm komast þangað með mig í sumar. Og gaman var að koma þangað enda fengum við þokkalegasta veður. Náttúran er mjög sérstök á þessum slóðum, jökullinn, hrikalegur sandurinn og svo skógarvinin. Á bakaleiðinni var komið við á Höfn og heilsað upp á hana Tótu, sem þar gegnir læknisstörfum í sumar. Var þetta hin skemmtilegasta ferð.

Nú eftir þriðja flokkinn ákváðum við að taka lífinu með ró en fórum þó enn í bíltúr suður á firði, aðallega til að skoða Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Það verður víst að gera það þegar maður er hér fyrir austan og er það reyndar afar skemmtilegt. Það kemur manni á óvart hve margir steinar eru í safninu og ljóst að gamla konan hefur verið iðin við kolann í steinasöfnuninni. Þá má einnig fullyrða að Suðurfirðir Austfjarða séu sérlega gjöfulir fyrir steinasafnara, því að hið geysistóra safn Petru samanstendur svo til eingöngu af steinum úr hennar nánasta umhverfi, þ.e. úr Stöðvarfirðinum og nærliggjandi fjörðum. Út fyrir landshlutann hefur hún ekki farið til steinatínslu.

Og nú er fjórði flokkur í fullum gangi við Eiðavatn og vel gengur enda rólegur og kátur barnahópur á staðnum. Ég fékk að fara inn í Egilsstaði í morgun og prédika hjá sr. Jóhönnu Sigmars í útimessu í Egilsstaðaskógi, og var það virkilega gaman. Ræðuna á ég víst að flytja aftur í kvöldmessu á Borgarfirði í kvöld og hlakka ég einnig til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband