Miðvikudagur, 13. júní 2007
Veðurblíðan nýtt til útivistar, göngu og árangurslausrar selaskoðunar
Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur Hlín síðan við komum hingað austur á Hérað. Hér hefur verið heiðskírt eða léttskýjað upp á hvern einasta dag, stundum hægur vindur en oftar lygnt og hitinn farið yfir 20 stig.
Veðurblíðuna höfum við reynt að nýta til útivistar þegar tími hefur gefist til. Á sunnudaginn tókum við daginn snemma og skelltum okkur í göngu með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs. Förinni var heitið að eyðibýli skammt norðaustur af Fellabænum, Fjallsseli. Voru það samstarfskonur Hlínar á Félagsþjónustunni sem bentu okkur á þessa ferð og reyndist önnur þeirra svo mikill göngugarpur að hún bar tveggja ára gamlan son sinn á bakinu svo til allan tímann og harðneitaði að fá aðstoð! Fjallselssgangan hafði reyndar verið auglýst sem tveggja tíma ganga, en þegar á hólminn var komið könnuðust forsprakkar göngunnar ekki við þá auglýsingu, reyndust ekki hafa skipulagt gönguleiðina til fulls og tók gangan því að lyktum fjóra tíma! Það var svo sem allt í góðu lagi, gaman að ganga fallega leið í svo góðu veðri. Gallinn var þó sá, að við Hlín vorum ekki nestuð til svo langrar göngu - hafði reyndar ekki dottið í hug að taka annað en vatnsflösku fyrir tveggja tíma göngutúr - og vorum því orðin æðisvöng þegar komið var til byggða. Reyndara ferðafélagsfólkið var hins vegar við öllu búið, vel nestað og fékk sér sumt að borða allt að þrisvar á leiðinni! En við munum bara eftir nestinu í næstu göngu.
Í gær, þriðjudag, var svo förinni heitið eftir vinnu hjá Hlín út í Húsey, en svo nefnist bær, er stendur nærri Héraðsflóa, miðja vegu milli Jökulsár á Brú og Lagarfljótsins. Aftur var það samstarfskona af Féló sem þekkti til og var með í för. Í Húsey er oft töluvert um seli og hafa ábúendur gjarnan tekið að sér umkomulausa kópa. Við höfðum þó ekki heppnina með okkur, enginn kópur var á bænum að þessu sinni og enga sáum við heldur selina þrátt fyrir allmikla göngu um svæðið og niður að sjó. Þetta er þó náttúruparadís engu að síður og hittum við í stað selanna fyrir kjóa, skúm og kríu - og nóg af þeim! Ráðlegt er að hafa með sér prik til að sveifla upp í loft þegar gengið er um þessar slóðir! - Æ, afsakið, við sáum víst einn sel, en hann var hauslaus og dauður.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.