Álvershátíð

Á laugardaginn var för okkar hjóna, líkt og svo margra annarra, sem staddir voru á Austurlandi, að sjálfsögðu heitið á Reyðarfjörð, þar sem "Hátíð í bæ" fór fram til að fagna því, að álframleiðsla er hafin í hinu gríðarstóra álveri Alcoa-Fjarðaáls í firðinum. Ekki ætla ég að gerast svo djarfur að fullyrða að veðurblíðan hafi lýst einhvers konar velþóknun himnaföðurins á stóriðjunni, en víst er, að veðrið lék við hátíðargesti. (Raunar hefur verið einmunablíða hér fyrir austan síðan við komum hingað fyrir viku síðan.)

Mikið var um dýrðir á hátíðinni, leiktæki fyrir börnin, skemmtiatriði um allan bæ með hljóðfæraleik, söng, trúðum etc., ókeypis pylsur, súkkulaðikaka og drykkir eins og hver gat í sig látið. Að sjálfsögðu var álverið nýja kynnt og dásamað. Fékk ég að gjöf glansprentuðu bókina "Álver rís," sem gaman var að lesa, og ekki var síður skemmtilegt að fara í skoðunarferð í rútu um álverslóðina. Ég er ekki viss um, að þeir sem ekki hafa séð með eigin augum nýju mannvirkin í Reyðarfirði, geri sér almennt grein fyrir umfangi þeirra. Kerskálarnir tveir eru meira en kílómetri að lengd hvor um sig, reykháfurinn er nokkrum metrum hærri en Hallgrímskirkjuturn og sílóið sem geymir óunnið súrál er sá alstærsti steypuhlunkur, sem ég hef augum litið!

Hátíðinni lauk með stórtónleikum í nýju Fjarðabyggðarhöllinni á laugardagskvöldið. Þar steig á stokk hver stórstjarnan á fætur annarri og var engu til sparað. Hápunktur kvöldsins þótti mér þó vera atriðið "The Queen Show" þar sem nokkrir hæfileikaríkir piltar frá Norðfirði fluttu lög þessarar vinsælu hljómsveitar. Ég er ekki frá því, að þeir hafi náð að skapa meiri stemmningu í höllinni en stjörnurnar, sem á undan fóru. Tónleikunum lauk með listflugi og fallhlífarstökki, sem gaman var á að horfa. Ekki tókst þó betur til en svo, að við lendingu kviknaði í fæti eins fallhlífarstökkvarans, en sem betur fer var eldurinn fljótt slökktur og virtist hann ekki hafa slasast alvarlega.

Hátíðahöld af þessum toga eru ekki ókeypis og leiða hugann að því gríðarlega fjármagni, sem stórfyrirtæki á borð við Alcoa hafa yfir að ráða. Það er erfitt að giska á kostnaðinn við hátíðina, en ljóst að tónleikarnir einir hafa kostað margar milljónir, jafnvel tugi milljóna. Það má líka endalaust deila um, hvort rétt hafi verið að ráðast í framkvæmdirnar á annað borð. Um það verða menn trúlega seint sáttir. Auðvitað hafa orðið óafturkræf náttúruspjöll af völdum þeirrar raforkuframleiðslu, sem nauðsynleg var fyrir álverið. Engin ástæða er til að draga dul á það. Hér verður þó að hugsa um forgangsröðun. Það er ljóst, að stóriðjan í Reyðarfirði hefur hleypt nýju lífi í byggðarlögin á Austfjörðum, og gefið þúsundum íbúa þeirra nýja von um framtíð landshlutans. Jákvæð áhrif framkvæmdanna hafa náð miklu víðar en til Reyðarfjarðar eins, heldur til sjávarplássanna a.m.k. frá Neskaupstað í norðri til Stöðvarfjarðar í suðri. Ekki má gleyma uppbyggingunni á Egilsstöðum, en fjölmargir munu búa á Héraði og sækja atvinnu í álverið.

Ekki verður aftur snúið með umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers Fjarðaáls. Kominn er tími til að samgleðjast þeim íbúum Austurlands, sem njóta munu - og eru þegar teknir að njóta - jákvæðra áhrifa framkvæmdanna, og staldra fremur við til að velta fyrir sér áhrifum þeirra framkvæmda, sem fram undan gætu verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

Hvernig í ósköponum kviknaði í fætinum á fallhlífastökkvaranum ???

Heiðdís Ragnarsdóttir, 11.6.2007 kl. 15:34

2 Smámynd: Lutheran Dude

Hann var með eitthvað reykdót löppinni og svo lenti hann næstum því á bíl í staðinn fyrir fótboltavellinum og datt svo kom eldur og svo slokknaði hann. Það voru 5 fallhlífastökkvarar 3 þeirra lentu á vellinum. Hinir tveir voru með reykdæmi á löppinni og lentu á rassinu í moldbrekkunni, ég kenni reyknum um

Lutheran Dude, 11.6.2007 kl. 15:40

3 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

hehe, úps

Heiðdís Ragnarsdóttir, 12.6.2007 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband