Frábært málþing í Skálholti

Lánsöm vorum við, sem nú um helgina fengum tækifæri til að sitja málþing í Skálholti, þar sem hinn heimsþekkti, þýski guðfræðingur, Jurgen Moltmann, hélt erindi og sat fyrir svörum. 

Um fjórir áratugir eru nú liðnir frá því að Moltmann, sem nú er áttræður, gaf út tvær af sínum þekktustu bókum, Hinn krossfesti Guð og Guðfræði vonarinnar. Það vekur hins vegar athygli, að ekki er Moltmann aðeins afar ern, hugsun hans beitt og framsetningin skýr, heldur fylgist hann enn grannt með stefnum og straumum í guðfræðiumræðunni og hefur endurmetið guðfræði sína jafnt og þétt með hliðsjón af þeim. Boðskapur hans er þó í grunninn hinn sami og fyrr, vonarboðskapurinn um Krist, krossfestan og upprisinn Guð, sem ekki aðeins þjáist með manninum heldur veitir honum von um endanlegan sigur og líf. Það er Guð, sem væntir mannsins á hverjum degi í kærleika sínum, og í þeirri væntingu er að finna kraft vonarinnar.

Mér þótti eftirtektarvert, af hve miklu lítillæti og auðmýkt þessi merkismaður kom fram gagnvart áheyrendum sínum og fyrirspyrjendum í Skálholti. Hann hreif viðstadda með sér og vonarboðskap sínum, með eftirminnilegri framkomu sinni og karisma. Innblásturinn frá helginni mun vara lengi.

Á sjómannadaginn ókum við Hlín svo hingað austur á Hérað, þar sem ætlunin er að verja sumrinu við störf í sumarbúðunum hér við Eiðavatn, auk þess sem Hlín hefur þegar hafið störf hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs - já, það er fyrsti vinnudagurinn hennar sem félagsráðgjafa í dag! (Munið að óska henni til hamingju!) Sjálfur ætla ég að reyna að nota sem mest af tíma mínum í skriftir, þ.e. í kjörsviðsritgerð. Meira um það síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband