Kirkjudeildir

"Allt sama kjaftæðið. Hver hefur rétt fyrir sér? Allir."

Ofangreinda athugasemd fékk ég við bloggfærslu hér á dögunum um heimsókn mína í guðsþjónustu hjá söfnuði Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Reykjavík, sem var hluti af námskeiðinu Kirkjudeildafræði. Þessa dagana sit ég við lestur fyrir lokapróf í þessu námskeiði, en í því er fjallað um nokkrar helstu kirkjudeildir kristninnar í sögu og samtíð með sérstakri áherslu á starfandi trúfélög á Íslandi í dag. Setningin hér að ofan kom mér í hug í dag, þegar ég var að velta fyrir mér því, sem við lútherskir menn eigum sameiginlegt og hvað ekki með öðrum kirkjudeildum þegar kemur að kennisetningum.

Nú er hugsanlegt, að athugasemdin hér að ofan hafi verið meint sem háð af hálfu viðkomandi manns, þ.e.: "Hver hefur rétt fyrir sér? Allir" merki: "Enginn hefur rétt fyrir sér" - eða eitthvað í þá veru.

En vísi "allt sama kjaftæðið" til þeirra trúfræðilegu áherslna, sem fram komu í samþykktum kirkjuþinga fornkirkjunnar, er rétt að áhersluatriðin í trúarjátningum á borð við Níkeujátninguna, t.d. þrenningarlærdómurinn, fullur manndómur og guðdómur Jesú, hjálpræðisverk hans og hlutverk Heilags anda, eru vissulega sameiginleg með stærstum hluta þeirra trúfélaga, sem vilja kalla sig "kristin." Þetta á þó vart við t.d. um Votta Jehóva, Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormóna) eða Einingarkirkjuna (moonista). (Spurning er með trúfélagið Krossinn.) Og oft eru það sem betur fer einkum skírnarskilningurinn, bókstaflegur innblástur Biblíunnar, starfsaðferðirnar og eðli tilbeiðslunnar sem kirkjudeildirnar greinir á um. Leiðin til hjálpræðis er ein og hin sama, vegurinn sjálfur, Jesús Kristur.

Eitt af mínum uppáhaldsritningarversum er úr bæn Jesú fyrir handtöku sína og dauða, er hann biður fyrir fylgjendum sínum með þessum orðum: "...allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig" (Jóh. 17.21). Biðjum fyrir einingu kristinna manna "undir eitt höfuð í Kristi" (Efesus 1.10).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband