Sabbat, Keilir og lón

Í tilefni af heimkomu eiginkonunnar til höfuðborgarinnar ákváðum við hjónin að taka okkur sabbatsfrí frá próflestri og verkefnavinnu í gær og bregða okkur aðeins út fyrir borgarmörkin. Þó að vart geti það talist brúðkaupsafmæli í eiginlegri merkingu þess orðs, taldi ég enn fremur vera áfanga til að fagna, að við hefðum í gær verið gift í níu mánuði, enda niðurlæging hjónabandsins orðin allmikil í okkar samfélagi. Það er kannski ástæða til að fagna hverjum degi, sem hjón lafa saman.

Hvað sem því líður var stefnan sett á litla fjallgöngu, þ.e. á fjallið Keili ekki langt frá borgarmörkunum, og þaðan í Bláa lónið. Ekki tókst betur til en svo, að veðrið var með eindæmum leiðinlegt, rigning og hávaðarok, og er þetta reyndar einkenni á þeim göngudögum, sem við skötuhjúin höfum valið okkur saman frá upphafi. Er ég farinn að halda, að okkur sé ekki ætlað að ganga neitt saman, enda gekk ég Fimmvörðuhálsinn í mesta blíðviðri ársins í upphafi síðasta sumars, og var frúin þá einmitt ekki með í för.

Veðrið var þó ekki það eina sem hrelldi okkur í gær, þar sem okkur tókst snemma að villast út af réttum stíg og gengum því alllengi um mosalagðar hraunbreiður, sem greinilega var ekki til ætlast, að yfir væri gengið, enda reyndust þær einkar erfiðar yfirferðar. Svo fór því, að við snerum við áður en einu sinni var komið að Keilisrótum, og komum aftur í bílinn eftir um klukkutíma göngu, köld og blaut. Keilir bíður því betri tíma en hið sama er ekki hægt að segja um Lónið, og var afslöppunin þar einkar vel þegin eftir hrakningarnar.

Hitt er svo annað mál, að þó að ég hafi fyrir þetta sabbatsfrí mitt verið allvel staddur í undirbúningi fyrir prófið í ritskýringu Jóhannesarguðspjalls á miðvikudaginn, er ég nú daginn eftir það orðinn æði þjakaður af samviskubiti yfir frídeginum og reyni að halda vel á spöðunum í lestrinum. Því er ráð að ég hætti vefskrifum og snúi mér aftur að lestri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband