Nei, nú hringi ég í Jón!

Nú er sko nóg komið hjá þessari þjóðkirkju! Þykist vera fyrir alla þjóðina en elskar svo bara suma en ekki alla! Þessir bannsettu, hempuklæddu hálfvitar vilja ekki gifta samkynhneigða! Þeir eru bara fullir af fordómum og þetta er brot á sjálfsögðum mannréttindum samkynhneigðra! Nú fer ég sko og skrái mig úr Þjóðkirkjunni!

-- Æi, nei, þetta var víst bara kaldhæðni... Ég ætlaði alls ekkert að segja um þetta mál en stóðst svo ekki freistinguna að gera aðeins góðlátlegt grín að þeim, sem hafa fundið hjá sér svo mikla þörf fyrir að ræða á Netinu og í blöðum í vikunni höfnun Prestastefnu á tillögu hóps presta og guðfræðinga um að beina því til Alþingis að það leyfi hjónavígslur samkynhneigðra. Mér finnst offorsið hafa verið mikið vegna einnar ályktunar og ummæli fólks ekki alltaf bera vott um málefnalega umfjöllun eða að hafa kynnt sér málin í kjölinn. (Dæmi: Leiðari Fréttablaðsins í dag.) Undantekning frá þessu er þó t.d. hin fræðilega umfjöllun sem hér er að finna.

Það er eins og fólk geri sér ekki alveg grein fyrir því að: 1) Prestastefna er ekki stjórnvald kirkjunnar og enn síður hefur hún löggjafarvald í landinu frekar en nokkur annar fundur kirkjunnar; 2) Það er í höndum Alþingis að setja lög um hjónaband og staðfesta samvist og menn ættu því að beina spjótum þangað, sé þetta þeim kappsmál; 3) Fáar kirkjudeildir í heiminum hafa gengið eins langt og Þjóðkirkjan til að koma til móts við réttindabaráttu samkynhneigðra. (Síðastnefnda atriðið helst í hendur við það, hve sú réttindabarátta er almennt ótrúlega langt á veg komin hér á landi.)

Það er alveg rétt, að kirkjan hefur ekki verið barnanna best við samkynhneigða í gegnum árin. Hún þarf að játa á sig þá synd og það ástleysi. - En lýsir það fordómum í garð samkynhneigðra, að prestar vilji almennt blessa staðfesta samvist þeirra, sbr. tillögu kenningarnefndar, sem samþykkt var? (Ég hef sjálfur kynnt mér hana og líst bara nokkuð vel á, tel hana fullkomlega ásættanlega guðfræðilega.) Eða lýsir það fordómum að vilja, að kenningarnefnd taki til umfjöllunar tillögu um að óska eftir að prestar verði löggiltir vígslumenn staðfestrar samvistar samkynhneigðra - án þess þó að vilja víkja frá aldalangri hefð kirkjunnar í skilningi á hjónabandshugtakinu? Ég lýsi eftir svörum, og einnig við því, hvers vegna það er "mannréttindabrot" að vilja setja spurningarmerki við hjónavígslu samkynhneigðra (en sjá ekkert athugavert við staðfesta samvist þeirra).

En jæja! Kannski er maður bara sjálfur fullur af fordómum úr því maður lætur svona. Hér er þörf á íhugun og bæn:

Drottinn Guð! Ljúk upp augum okkar fyrir sannleikanum í þínu Orði, svo að við fáum skilið, hver þinn vilji sé í öllum málum. Blessa þú samkynhneigða og hjálpa okkur að yfirvinna fordóma í þeirra garð. Fyrirgef okkur öllum þann sársauka, sem við kunnum að hafa valdið þeim með viðhorfum okkar og hleypidómum. Blessa þú íslensku Þjóðkirkjuna og varðveit eininguna í hennar röðum. Í Jesú nafni. Amen.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lutheran Dude

AMEN!

Lutheran Dude, 27.4.2007 kl. 11:06

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk Þorgeir. Þetta er afar málefnalega sett fram hjá þér (en bara af því að þú vísar í mína umfjöllun  ........d.j.ó.k) og sérstaklega falleg bæn í lokin.  Ég held að við ættum öll hvert og eitt að fara með hana og íhuga vel. Með kærri kveðju, Sunna

Sunna Dóra Möller, 28.4.2007 kl. 16:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband