Föstudagur, 27. apríl 2007
Verndum þau!
Þrátt fyrir annir við prófundirbúning í ritskýringu Jóhannesarguðspjalls gaf ég mér tíma nú í kvöld til að sækja þarft og áhugavert námskeið, sem KFUM & KFUK skipulagði fyrir starfsfólk sitt og sjálfboðaliða í starfi með börnum og unglingum. Nefnist námskeiðið "Verndum þau!" og fylgir eftir samnefndri bók tveggja starfsmanna Barnahúss um vanrækslu, líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi gagnvart börnum, hvernig ber að þekkja einkenni þessa, ræða við börn sem vilja segja frá og tilkynna barnaverndaryfirvöldum.
Þó að ekki sé ég hlutlaus dómari um verk KFUM & KFUK, finnst mér það framtak félagsins, að senda allt sitt fólk á þetta námskeið, gefa því bókina með og kynna því skýrar verklagsreglur félagsins í málum er varða ofbeldi gegn börnum, til mikillar fyrirmyndar og sóma fyrir félagið. Það hreyfði vissulega við mönnum á sínum tíma þegar karlmaður, sem tengst hafði starfi KFUM og Vatnaskógar um tíma, var dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn börnum, og nú er unnið mjög markvisst að því innan hreyfingarinnar, að vel sé staðið að þessum málum. Framkvæmdastjóri og fræðslufulltrúi KFUM & KFUK fá hrós dagsins!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.