Sókrates, dauðinn og hjónabandið

Seinasti hausverkur annarinnar í skólanum áður en próflesturinn tekur við í allri sinni dýrð, er að reka smiðshöggið á ritgerð um upprisuna í frumkristnu samhengi, en sú ritgerð er lokapróf í áfanganum "Stef í guðfræði Nýja testamentisins: Dauðinn á milli Jesú og Páls" hjá dr. Jóni Ásgeirssyni, prófessor. Eitt viðfangsefna minna í ritgerðinni er samanburður á kristnum og platónskum hugmyndum um dauðann og framhaldslíf sálarinnar, og því hef ég verið að endurnýja kynnin við gamlan vin úr MR, Síðustu daga Sókratesar eftir Platón, safn þriggja rita frá fjórðu öld f. Kr. sem öll hafa að gera með dauða heimspekingsins Sókratesar. Ég stenst ekki freistinguna að deila með lesendum síðunnar tilvitnun í seinasta ritið, Faídón, þar sem Platón leggur Faídóni nokkrum í munn frásögn af örlögum Sókratesar. Hann hefur, þegar hér er komið sögu, verið handtekinn og dæmdur til dauða, og bíður örlaga sinna:

"Þegar við komum inn, hittum við Sókrates nýleystan úr fjötrunum og Xanþippu - sem þú kannast við - (innsk. Xanþippa var kona Sókratesar) sitjandi hjá honum með son hans í kjöltunni. Þegar Xanþippa sá okkur, hljóðaði hún upp yfir sig og talaði líkt og konum er títt: "Ó, Sókrates! Nú tala vinir þínir við þig í síðasta sinn og þú við þá!" Þá leit Sókrates til Krítóns og mælti: "Krítón, láttu einhvern fara með hana heim." Einhverjir förunautar Krítóns fóru þá burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst."

Segið svo ekki að kvenfrelsisbaráttan hafi engu skilað á 2400 árum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband