Sunnudagur, 22. apríl 2007
Töfrandi helgihald rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar
Líkt og fram hefur komið hér á síðunni, sit ég um þessar mundir námskeiðið Kirkjudeildafræði hjá dr. Pétri Péturssyni, prófessor við guðfræðideild, og einn liður í þeim kúrsi er að heimsækja guðsþjónustur fjögurra utanþjóðkirkjusafnaða og skila um heimsóknirnar örskýrslu. Heimsótti ég með nemendahópnum nú fyrr á misserinu samkomu hjá Hvítasunnusöfnuðinum Fíladelfíu og minningarmáltíð um dauða Jesú í Ríkissal Votta Jehóva. Síðarnefndu vísitasíunni hafa þegar verið gerð skil hér á blogginu. En tvær hinna skipulögðu heimsókna stúdentahópsins með kennaranum komst ég því miður ekki í, til rússneska rétttrúnaðarsafnaðarins, Sólvallagötu 10, og í rómversk-kaþólsku kirkjuna. Er ég að bæta fyrir það nú um helgina, enda ekki seinna vænna að ljúka skyldum námskeiðsins af, nú þegar kennslu á önninni er lokið í guðfræðideild.
Í kvöld heimsótti ég semsagt Söfnuð Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík og var viðstaddur um klukkustundar langan aftansöng (Vesper) að sið orþódoxu kirkjunnar. Var ég að enda við að skrifa örskýrslu mína um þá heimsókn og læt hana fylgja hér með til gamans og fróðleiks:
Rússneski rétttrúnaðarsöfnuðurinn í Reykjavík er með yngri, kristnum trúfélögum landsins. Aðstaða hans til helgihalds er í samliggjandi borðstofu og stofu í heimahúsi við Sólvallagötuna í Reykjavík. Var stúdentinn reyndar óviss um, að hann hefði rambað á réttan stað, þegar hann gekk hikandi inn um ólæstar dyr hússins, sem virtist í fyrstu mannlaust, rétt fyrir klukkan sex á laugardagskvöldi. Á endanum birtust þó prestur safnaðarins, faðir Timofej, aðstoðarmaður hans karlkyns og svo þrjár konur, sem tóku þátt í helgihaldinu auk þeirra og mynduðu n.k. kirkjukór. Stærri varð söfnuðurinn ekki þetta skiptið, en öll voru þau gestinum úr guðfræðideildinni afar elskuleg og vildu, hvert með sinni tungumálakunnáttu, allt gera til að honum liði vel og skildi hvað fram færi í guðsþjónustunni, hvað íkonar kirkjunnar sýndu o.s.frv.Og hér var aldeilis engu myndbanni fyrir að fara! Þrátt fyrir frumstæðar aðstæður til helgihalds hafði fjölmörgum íkonum verið komið fyrir í kirkjuskipinu eða stofunni, þar sem söfnuðurinn hélt til í messunni, stórir stjakar voru fyrir kerti og reykelsi, og ýmsar, trúarlegar myndir skreyttu veggina. Hlið, sem loka mátti með glerdyrum, skildi að kirkjuskipið í stofunni a.v. og hið helga rými í upprunalegu borðstofunni h.v. Þar var bæði háaltari, myndir á veggjum og hliðarborð með efnum kvöldmáltíðarinnar.Þar sem heimsóknin fór fram á laugardagskvöldi var ekki sungin hámessa eða heilög litúrgía með altarissakramenti, líkt og á sunnudögum, heldur einungis sungin kvöldbænaguðsþjónusta eða aftansöngur (Vesper). Athöfnin fór að mestu fram á kirkju-slavnesku, en fyrir hana hafði presturinn afhent gestinum yfirlit yfir liði guðsþjónustunnar bæði á því tungumáli og á ensku, og var það afar hjálplegt. Auk þess söng hann sumar bænir á ensku, eflaust til að auka á skilning nemandans. Samanstóð aftansöngurinn einkum af margvíslegri bænagjörð og litaníu, víxlsöng prests og safnaðar, og var það bænahald brotið upp með sálmasöng safnaðarins. Í upphafi stundar og aftur í seinni hluta hennar gekk prestur um bæði rýmin, hið heilaga og kirkjuskipið, með reykelsisker og dreifði ríkulega af góðilmi þess. Söfnuðurinn stóð alla hina formlegu athöfn, en að henni lokinni settist hann og hlýddi á hugvekju eða örpredikun prestsins út frá þema dagsins í hinu orþódoxa kirkjuári, smurningu kvennanna á líkama Jesú. Tókst föðurnum að flétta saman við þetta og koma þannig á framfæri andstöðu rétttrúnaðarkirkjunnar við samkynhneigð!Það verður að viðurkennast, að stúdentinum þótti litúrgía rússnesku kirkjunnar þessa kvöldstund við Sólvallagötuna með eindæmum falleg og hreifst hann bæði af söng, helgimyndum og reykelsum. Djúp virðing fyrir hinu heilaga og fyrir hefð kirkjunnar einkenndi helgihaldið, sem þrátt fyrir að því er virtist flókna umgjörð rann svo áreynslulaust í meðförum hins fámenna og lítilláta hóps frá Austur-Evrópu, að unun var á að hlýða jafnvel standandi í heila klukkustund!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.