Sumardagurinn frysti

Fyrirsögn þessarar færslu er vísun í óborganlegan brandara sem ég sagði í hlutverki Rebba refs í sunnudagaskólanum síðasta sunnudag. Sem betur fer gátu börnin leiðrétt þennan misskilning Rebba og komið honum í skilning um, að næsti fimmtudagur kallaðist sumardagurinn fyrsti en ekki frysti!

Sá dagur er nú upp runninn og viti menn, það er bara bjart og yndislegt veður hér í höfuðborginni þó að sumar og vetur hafi frosið saman á slóðum eiginkonunnar austur á landi. Dagurinn í dag er jafnan helgaður skátahreyfingunni, sem gjarnan er í fararbroddi fyrir skrúðgöngum og öðrum hátíðahöldum í tilefni sumarkomu. Ein árlegra skátahefða á sumardeginum fyrsta er skátamessa í Hallgrímskirkju, sem útvarpað er á Rás 1. Var ég að enda við að hlýða á þessa fallegu guðsþjónustu, og er þetta indæl hefð.

Það er þó ekki laust við að maður velti fyrir sér eðli predikunarinnar á stundum sem þessum. Venjan er, að skátahöfðingi flytji útvarpspredikun dagsins á þessum degi. Var ræða Margrétar Tryggvadóttur skátahöfðingja ágæt hugvekja um æskulýðsstarf almennt og kynning á starfi skátahreyfingarinnar. Sömu sögu var að segja um þá ræðu, sem flutt var við þetta tilefni fyrir ári síðan. En predikanir eru þetta ekki, enda ekkert minnst í þessum ræðum á Guð eða hans orð. Það er umhugsunarefni, hvort samstarf skáta og kirkju á þessum degi þurfi að þýða, að boðun Orðsins víki fyrir kynningu á skátastarfinu. Getur þetta tvennt ekki haldist í hendur?

Nóg um það, sjálfur er ég á leið upp í Grafarholt þar sem sóknarnefndin hefur frá upphafi staðið fyrir skrúðgöngu og helgistund á sumardaginn fyrsta. Nú hafa margir aðilar bæst í hópinn við þessi hátíðahöld, íþróttafélag hverfisins, ÍTR og fleiri, og er það mjög ánægjulegt. En helgistundin víkur auðvitað ekki - og verður væntanlega fjölsóttasta helgistund ársins í sókninni í ár líkt og fyrir ári síðan, þegar vel á þriðja hundrað manns fylltu sal Ingunnarskóla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband