Páskar

Gleðilega páska!

Á páskadagsmorgun sótti ég árdegismessuna í Langholtskirkju, og var það í fyrsta skipti, sem ég er viðstaddur guðsþjónustu í þeirri kirkju. Þó að ekki sé alltaf gaman að vakna fyrir kl. 7 á páskadagsmorgni, þá er alltaf jafnánægjulegt og ómissandi að fara í kirkju á þessum helgasta morgni ársins. Ekki spillti tónlistin í Langholtskirkju fyrir í gærmorgun. Þar var óvenjufjölmennt í kórnum eða um 40 manns, og gaman að sjá hve margir ungir söngvarar voru þar. Jón Stefánsson lék vitanlega á tignarlegt orgel kirkjunnar og stjórnaði kórnum, sem söng bæði hefðbundna páskasálma og hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar, og í lokin Hallelúja-kórinn úr Messíasi Handels. Það er nú ekki leiðinlegt að byrja páskadaginn á að hlusta á slíka tónlist. Sr. Jón Helgi Þórarinsson messaði af öryggi og söng einnig með kórnum í lokin. Var það skemmtileg sjón að sjá hann stilla sér upp hjá karlaröddunum í fullum skrúða og taka undir þennan volduga söng.

Ekki get ég þó sagt að slegist hafi verið um sætin í kirkjunni, þó að slæðingur af fólki hafi verið þar. Það rifjaðist upp fyrir mér, að þegar ég var að byrja í kirkjukórnum á Seltjarnarnesi voru ævinlega tvær hátíðarguðsþjónustur á páskadag, árdegismessa kl. 8 og svo eftirmiðdagsmessa kl. 14. Nú hefur messan kl. 14 verið felld niður í Seltjarnarneskirkju. Því miður virðist kirkjusókn almennt fara minnkandi á páskum, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki voru heldur mörg börn eða foreldrar í páska-sunnudagaskólanum í Grafarholtinu. Æ fleiri nýta páskahelgina í ferðalög, og gaman væri að vita, hvort prestar á landsbyggðinni veittu því eftirtekt, að ferðafólkið fjölmennti í kirkjur þeirra á páskum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband