Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Hjá Vottum
Bloggdugnaður þessa dagana lýsir löngum setum við ritgerðarskrif. En setutíminn á safninu jafngildir ekki unnum stundum, því skal áfram bloggað.
Síðla á mánudagskvöldið fengum við nokkur úr guðfræðideild, sem sitjum áfangann Kirkjudeildafræði á þessu misseri, tækifæri til að vera viðstödd samkomu í Ríkissal Votta Jehóva. Var þetta hin athyglisverðasta stund, og enn frekar fyrir þær sakir, að þetta var að mér skildist mesta hátíðarsamvera ársins hjá þeim Vottum, minningarhátíð um kvöldmáltíð Jesú með lærisveinum sínum.
Á samveruna mættu hátt í tvö hundruð manns og var samkomusalurinn í Árbænum því svo gott sem fullur af fólki. Samveran hófst og henni lauk á söng úr bókinni "Syngið Jehóva lof," en aðalefni hennar var flutningur biblíutengdrar ræðu. Hafi ég rétt skilið, þá eru slíkir fyrirlestrar meginefni samkomanna almennt hjá Vottum Jehóva. Ræðurnar, sem fluttar eru, eru samdar í höfuðstöðvum alheimshreyfingarinnar í New York, en þýddar á ýmis tungumál. Kom fram á mánudagskvöldið, að ræðan, sem þá var flutt, hafði þegar verið lesin í Afríku og Asíu, en eftir átti að lesa hana í Bandaríkjunum og víða í Evrópu á sambærilegum samkomum.
Vottar Jehóva skilgreina sig sjálfir sem kristið trúfélag, sem byggi á Biblíunni, en víkja allverulega og í fjölmörgum grundvallaratriðum frá hefðbundinni kenningu og biblíutúlkun alheimskirkjunnar, sbr. samkirkjulegar trúarjátningar frá frumkirkjunni á borð við Níkeujátninguna og Postullegu trúarjátninguna, sem ekki eru viðurkenndar. Fjallaði ræðan á mánudaginn um "mesta mikilmenni sögunnar" eins og það var orðað, Jesúm, um áætlun Jehóva guðs með hann og dauða hans, og um þá minningarmáltíð, sem safnast var um þetta kvöld. Þá var rætt um þá 144.000 manna hjörð, sem Vottarnir álíta að hafi verið sérstaklega valin til að komast til himna eftir heimsendi, en hann er í nánd. (Aðrir Vottar munu fá eilíft líf í ríki Jehóva á jörðu eftir þennan atburð.) 144.000 manna hjörðin fylltist að mestu fyrir árið 1935, en þó eru um 8.000 manns núlifandi, sem tilheyra þeim hópi af ýmsum ástæðum. Aðeins þeir mega neyta brauðsins og vínsins í minningarhátíðinni um kvöldmáltíð Jesú, og er enginn úr þeim hópi á Íslandi. Þess vegna gekk brauðið og vínið um salinn á mánudagskvöldið, án þess að nokkur snerti á því.
Samveran var öll hin fróðlegasta. Fannst mér hún, þrátt fyrir söng, bænir og "máltíðina," sem enginn neytti af, fremur líkjast kennslustund en guðsþjónustu. Megináherslan hvíldi á fræðslu um kenningu trúfélagsins, og kom það einnig fram í söngnum. - Verð ég að viðurkenna, að þó að þetta hafi allt verið athyglisvert, hef ég ekki hugsað mér að byrja að venja komur mínar í Ríkissalinn í Hraunbænum - kann betur við bæði kenningu og helgihald í Þjóðkirkjunni!
Athugasemdir
Mikið er ég fegin, því ég hafði ekki hugsað mér að elta þig. Enda ekki fræg fyrir að elta þig nema þangað sem ég vil og helst láta þig elta mig þó það gangi ekki alltaf upp eins og dæmin sanna
Lutheran Dude, 4.4.2007 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.