Þriðjudagur, 3. apríl 2007
Arna og altarið
Ekki gerist það oft að ég hlægi mig máttlausan yfir greinum dagblaðanna. Þetta gerðist nú samt í morgun og er rétt að segja frá því hér.
Í sérblöðum dagblaðanna um páska og fermingar er oft rætt við presta eða aðra kirkjunnar menn. Á dögunum var einmitt rætt við Jón Ómar skólabróður minn og góðvin í fermingablaði Blaðsins. Í dag, þegar ég sá Fréttablaðið og að þar væri sérblað um páska, var ég þess einmitt fullviss, að þar væri rætt við prest. Ekki brást það og viðtalið var við séra Örnu Grétarsdóttur, prest í Seltjarnarneskirkju.
Þetta var áhugavert viðtal og góð myndin af séra Örnu. Gaman var sérstaklega að lesa um messuna, sem hún mun annast í minni gömlu kirkju á skírdagskvöld. Þar bakar hún brauðið sjálf fyrir altarisgönguna, í stað þess að nota hefðbundnar oblátur. Ég hef einu sinni sótt slíka messu hjá henni og þetta er falleg og áhrifarík stund.
Stundinni lýkur með afskrýðingu altarisins, svonefndri Getsemane-stund. Eitthvað hefur nú blaðamaðurinn misskilið það hugtak því að í viðtalinu segir: "Þá tökum við af altarinu og afskrifum það."
Já, ég skellihló þegar ég sá, að ætti að afskrifa altari Seltjarnarneskirkju.
Þú verður að fyrirgefa Arna, þú hefur væntanlega ekki fengið að lesa viðtalið yfir!
Athugasemdir
Ætli það sé afskrifað á kostnaðarverði eða kannski um 10 % árlega eins og um bíl væri að ræða!! Neyðarlegt en fyndið.
Jóhann Þorsteinsson, 3.4.2007 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.