Kyrravika

Þá fer helgasti tími kirkjuársins í hönd. Pálmasunnudagur er að baki og kyrravika eða dymbilvika hafin með upprisugleði páskanna handan við hornið. Ósjálfrátt setur mann hljóðan við það eitt að heyra nöfn þessarar heilögu viku, kyrruviku. Hvers þörfnumst við frekar en kyrrðar?

Það er stórkostlegt að geta kyrrt hugann frammi fyrir Guði og íhugað atburði skírdags og föstudagsins langa, þegar Drottinn dó á krossi okkar vegna. Guð kristinna manna er nefnilega ekki ópersónulegur guð, heldur lifandi og kærleiksríkur frelsari, sem þolir angist og gengur í dauðann vegna barnanna sinna. Guð hefur gefið okkur réttinn til að hvíla í föðurfaðmi hans ástar.

Kyrrð bænadaganna á undir högg að sækja í samfélaginu okkar. Verslanir, skemmtistaðir og kvikmyndahús vilja í æ ríkari mæli hafa starfsemi sína ótruflaða af þessum helgidögum kirkjunnar. Og það er kannski ekki skrýtið, þegar trúin á það, sem þessir dagar standa fyrir, er tekin að dofna, nefnilega trúin á hjálpræðið fyrir krossdauða Krists. Sumum finnst jafnvel kirkjan sjálf með fermingum sínum, ekki síst á skírdag, vinna gegn kyrrð og íhugun píslarsögunnar um bænadagana. Sjálfur sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að bíða með fermingar og umstang þeirra fram yfir páska.

En samt er það nú svo, að eftir stendur þessi þrá hjartans, þrá aldanna, eftir lifandi Guði, eftir fyrirgefningu hans og kærleika. Þeirri þrá verður ekki svalað nema í faðmi lausnarans.

Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.

Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.

Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri' eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér. (H. P.)

Guð gefi okkur öllum sinn frið í dymbilviku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband