Einkennilegt frumvarp sjálfstæðismanna

Enn einu sinni hafa frjálshyggjumenn á þinginu lagt fram hið afleita frumvarp sitt um afnám á einkasölu ríkisins á léttvíni og bjór. Ekki get ég sagt annað en það, að ég vona og bið, að nú í fjórða skipti verði það fellt, og þar með láti þeir sér segjast.

Það eru gömul sannindi og ný, að aukið aðgengi á áfengi hefur í för með sér aukna neyslu, ekki síst meðal yngri aldurshópa. Og þó að ég vilji alls ekki fara aftur til fortíðar og banna bjórsölu (reyndar finnst mér persónulega bjór vera bragðvondur, en það er önnur saga), er það staðreynd, sem vert er að benda á, að áfengisneysla Íslendinga hefur aukist umtalsvert frá því að bjórinn var leyfður. (Viðurkennt skal þó, að fleira kann þar að hafa komið til.) Sí og æ reyna talsmenn áfengissölu í matvöruverslunum að bera okkur Íslendinga í þessum efnum saman við þjóðir sunnar í Evrópu, þar sem vínmenning er allt önnur. Sá samanburður er ómarktækur.

Ég hef ekki orðið var við annað, en að þjónusta Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sé fullnægjandi hvað snertir framboð á léttvíni og bjór, og einnig hvað varðar afgreiðslutíma. Það er ekki hægt að kalla það "mannréttindabrot", þó að menn geti ekki náð sér í vínflösku á öllum tímum sólarhringsins.

Þar við bætist, að ætli matvöruverslanir sér að selja léttvín og bjór, þurfa þær heldur betur að taka til í sínum starfsmannamálum. Ekki veit ég, hvernig þær færu að því, eins og atvinnuástandið er gott í landinu. Hér á ég auðvitað við hinn unga aldur afgreiðslumannanna.

Verslanir standa sig þó misvel í þessum efnum, Krónan sýnu verst finnst mér. Fari ég í Krónuna hér vestur í bæ, sé ég sjaldan eða aldrei lögráða starfsmann. Á dögunum, þegar ég var þar, var opið á þremur afgreiðslukössum. Gat ég ekki séð, að nokkur afgreiðslupiltanna þriggja væri fermdur, svo barnalegir voru þeir að sjá. Með fullri virðingu fyrir þessum drengjum, sem eflaust gera sitt besta, myndi ég ekki treysta því, að þeir færu að banna ungmennum á framhaldsskólaaldri, eða jafnvel enn yngri, að kaupa sér vín eða bjór í Krónunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband