Borgarstjóri "vísiterar" KFUM og KFUK

Það var sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í sameiginlegum fundi aðaldeilda KFUM & KFUK í Reykjavík í gær, en reyndar hef ég ekki verið sérlega duglegur við að mæta á slíka fundi, sem að öllu jöfnu eru kynskiptir. Tilefnið var þó sérstakt í gær þegar borgarstjóri Reykvíkinga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, heimsótti félagshús samtakanna við Holtaveg. Átti hann fyrst fund með forystumönnum KFUM & KFUK á Íslandi og sumarbúða félagsins, og var að því búnu heiðursgestur á samveru aðaldeildanna, sem hátt á annað hundrað manns sótti.

Sr. Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju og fv. formaður KFUM í Reykjavík, stýrði samverunni, og annar fyrrverandi formaður félagsins, frændi minn sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur og sóknarprestur í Hallgrímskirkju, hafði hugvekju. Talaði hann um tengsl hins veraldlega valds, trúarinnar og verslunarinnar og nauðsyn allra sviðanna í samfélaginu, og að þau styrktu hvert annað án þess þó að fara hvert inn á annars verksvið. Íhugunartexti hans var guðspjallsfrásögnin um það, þegar Jesús velti við borðum víxlaranna og tollheimtumannanna í musterinu, og sagði hann nauðsynlegt, að bænahúsin fengju að vera án kaupskaparins og hinnar veraldlegu umsýslu, og hve nauðsynlegt væri einnig að við hefðum öll okkar herbergi til að ganga inn í til bæna - hjarta okkar og kirkju.

Fleira var á dagskránni, Helga Magnúsdóttir söng fallega fyrir okkur við undirleik Bjarna Gunnarssonar og Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir hafði upphafsorðin. Hennar fjölskylda hefur verið mjög áberandi í starfi KFUM & KFUK enda var langafi hennar, Sigurbjörn Þorkelsson í Vísi, í stjórn KFUM í Reykjavík yfir hálfa öld! - Heiðursgestur kvöldsins, borgarstjórinn okkar, hélt fallega tölu um ágæti æskulýðsstarfs KFUM & KFUK og lumaði á frásögn af eigin þátttöku af KFUM-starfi sem drengur. Lofaði hann því jafnframt, að beita sér fyrir því, að borgin léti ekki sitt eftir liggja fjárhagslega til að styðja við bakið á því starfi. Ekki nefndi hann neinar tölur í því samhengi, eins og einhverjir höfðu vonast eftir, en fylgi hugur máli hjá Vilhjálmi þarf félagsskapurinn okkar engu að kvíða. Ekki má gleyma að vitanlega var risið úr sætum og sungið hraustlega á milli atriða. Alltaf finnst mér jafngaman að syngja Áfram, Kristsmenn, krossmenn í svona hópi, þar sem vel er tekið undir, og var einnig gaman að heyra að borgarstjóri reyndist sama sinnis!

Eftir hinn formlega AD-fund afhjúpaði borgarstjóri nýtt merki hins sameinaða félags, KFUM & KFUK á Íslandi. Þó að ég sé sammála gagnrýni frúar minnar á hvernig að þeim málum, þ.e. valinu á merkinu, hefur verið staðið, þykir mér nýja merkið hafa marga kosti og gaman að sjá að það var þegar komið í umferð, t.d. á bolum starfsmanna og á munnþurrkunum, sem notaðar voru í kaffinu eftir fundinn. Hygg ég, að þetta efni komi frá Danmörku líkt og nýja merkið.

Einhverjir telja ámælisvert, að opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög, veiti kristinni æskulýðshreyfingu á borð við KFUM & KFUK á Íslandi styrki til sinnar starfsemi. Það er ekkert launungarmál, að markmið samtakanna er ekki hvað síst að boða börnum og unglingum fagnaðarerindið um frelsarann Jesú Krist. En samtökin okkar hafa mjög breiða skírskotun og vilja stuðla að heilbrigðu líferni barna og unglinga. Allt starf samtakanna miðar að því, að einstaklingurinn sé heilbrigður á líkama, sál og anda og sé heill, bæði gagnvart fagnaðarerindinu og í daglega lífinu. Séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM í Reykjavík 1935-1961, lagði einmitt mikla áherslu á þessi heilindi í boðun sinni til drengjanna í KFUM. Markmið samtakanna er að veita ungu fólki grunn til að byggja á í lífinu, með trúna á hinn krossfesta og upprisna Krist að leiðarljósi, en einnig heilindi í hverju verki, jákvæðni og bjartsýni í hans nafni.

Þúsundir Íslendinga eiga góðar minningar úr sumar- og vetrarstarfi KFUM & KFUK. Vonandi bætast margar þúsundir barna og unglinga enn í þann hóp á ókomnum árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Vá Þorgeir. Takk kærlega fyrir þetta innlegg þitt. Ég gleðst yfir því hve vel þessi fundur var sóttur og eins finnst mér frábært að heyra þína sýn á starf félagsins. Þú veist að aðalfundurinn er í apríl og félagið þarf á mótuðum einstaklingum með skýra sýn á hlutverk KFUM og KFUK í stjórn. Áfram að markinu!

Jóhann Þorsteinsson, 16.3.2007 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband