Mánudagur, 12. mars 2007
Viðburðaríkur sunnudagur
Gærdagurinn var viðburðaríkur. Hvíldardagurinn var þríheilagur hjá mér og þó hvíldist ég lítið.
Þar sem sóknarpresturinn í Grafarholtsprestakalli fer sínar eigin leiðir var æskulýðsdagurinn í Grafarholtssókn haldinn hátíðlegur í gær, viku eftir Æskulýðsdag Þjóðkirkjunnar. Hófst dagurinn því með fjölskyldumessu í Ingunnarskóla kl. 11, þar sem börnin voru í aðalhlutverki, sungu, spiluðu og léku leikrit. Var stundin býsna vel sótt miðað við leiðinlegt veður. Að messu lokinni héldum við Hlín í heimsókn til tengdaforeldra minna, sem búa í Grafarholtinu (og það meira að segja við hina virðulegu Biskupsgötu!). Þá var komið að seinni messu dagsins í Grafarholti, æskulýðsmessu kl. 16, þar sem við höfðum fengið tónlistarhóp frá KSS til að koma og leiða tónlist fyrir unglinga á ýmsum aldri. Krakkar úr unglingastarfinu höfðu málað altaristöflur út frá guðspjalli dagsins og nokkur fermingarbörn lásu úr ritgerðum sínum um það, hvernig þau ímynduðu sér endurkomu Krists.
Var þetta einnig vel heppnuð stund, sem ég þurfti því miður að yfirgefa snemma þar sem ég þurfti að fara með öðrum nemendum úr námskeiðinu Kirkjudeildafræði við guðfræðideild á samkomu hjá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu. Má lesa um þá heimsókn á síðunni hjá Jóni Ómari, bekkjarbróður mínum og stórvini.
Þurfti ég einnig að yfirgefa Fíladelfíu fyrr en aðrir þar sem sunnudagslærið hjá mömmu beið og síðan sýning hjá Íslenska dansflokknum kl. 20, en miða á hana hafði Hlín unnið á árshátíð félagsráðgjafanema á laugardagskvöldinu. Verð ég að viðurkenna, að þetta var í fyrsta skipti, sem ég sótti slíka danssýningu, og hefði ég líklega ekki haft hugmyndaflug til að panta mér miða á hana af sjálfsprottnum áhuga. En þetta reyndist hin merkasta sýning, eða öllu heldur sýningar, því að tvö dansverk voru flutt. Hið fyrra virtist mér lýsa þróun lífveru frá frumveru að mökunardansi, en hið síðara var rammpólitísk ádeila á nýtingu Íslendinga á umhverfisauðlindum sínum. Var það ekki síður athyglisvert verk en hið fyrra, en misnotkun á þjóðsöngnum okkar fór þó fyrir brjóstið á okkur skötuhjúunum.
Í Fréttablaðinu í morgun las ég svo viðtal við bekkjarbróður minn úr grunnskóla, sem gerir það gott þessa dagana sem nuddnemi og tvífari Leonardos Di Caprio. Gaman að því!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.