Prestarnir og þjóðfélagið

Sumir prestar eru afar duglegir við að láta til sín taka í þjóðfélaginu. Í dag heyrði ég í Síðdegisútvarpi Rásar 2 viðtal við sr. Bjarna Karlsson, sem er duglegur prestur við Laugarneskirkju og afar indæll maður. Hann hefur gert sér far um að vera sýnilegur í samfélaginu og láta rödd sína heyrast við ýmis tilefni.

Bjarni var í útvarpinu að segja frá sjálfshjálparhópi, sem hann hefur beitt sér fyrir að stofna í sinni kirkju, fyrir þá sem dvöldu á upptökuheimilum í bernsku og kunna að eiga þaðan óþægilegar minningar. Fram kom að þegar hafa 15 skráð sig í hópinn, og einnig kom fram að hann er starfræktur á forsendum kristinnar sálgæslu, en er ekki hugsaður sem meðferðarúrræði. Sr. Bjarni dvaldi sjálfur á upptökuheimili sem drengur, reyndar sem barn starfsmanna, og er málið því hugleikið. Finnst mér þetta framtak frábært og ekki frekari orða þörf um það. En fleira var rætt í útvarpinu.

Í útvarpsviðtalinu gagnrýndi sr. Bjarni stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í málefnum fórnarlamba úr Byrginu og Breiðuvík. Sérstaklega tiltók hann ummæli nafna síns, Bjarna Össurarsonar, yfirlæknis á vímuefnadeild Landspítalans, þessu tengd, en hann hefur sagt að ekki yrði sérstaklega reynt að hafa upp á viðkomandi einstaklingum, heldur vissu menn hvert bæri að leita, og áhersla væri lögð á að veita þeim þjónustu, sem leituðu þangað af sjálfsdáðum. Röksemdafærsla sr. Bjarna í gagnrýni sinni vakti sérstaka athygli mína, en hún var á forsendum kristins mannskilnings og kærleikshugsjónar. Séra Bjarni taldi ummæli doktors Bjarna til marks um viðhorfið í samfélaginu, þar sem hver yrði að sjá um sjálfan sig. Slíkt viðhorf stangaðist á við kristið siðferði. Að boði Krists ætti að fara og leita að þessu fólki, sem e.t.v. væri svo veikt að það gæti ekki leitað sér hjálpar sjálft.

Ekki veit ég, hvort viðhorfið ég vilji gera að mínu, séra Bjarna eða doktors Bjarna. Ég starfaði á vímuefnadeildinni síðasta sumar og er þess fullviss, að doktor Bjarni og félagar þar starfa af miklum heilindum, þó að alltaf megi eitthvað bæta. En ummæli séra Bjarna fundust mér ekki síður merkileg vegna þess, að þar steig fram á sjónarsviðið prestur með ákveðna sýn á tiltekið hitamál í þjóðfélaginu, og studdi mál sitt með greinargóðum hætti rökum kristinnar trúar. Það var líkt og rödd séra Bjarna væri orðin spámannleg og þá ekki að hætti þeirra, sem þykjast geta séð inn í framtíðina, heldur í þeirri merkingu, sem tengist spámönnum hins forna Ísraels, sem innblásnir af orði Guðs gagnrýndu misskiptingu, skeytingarleysi og ranglæti í þjóðfélagi sínu.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var svo greint í alllöngu máli frá bréfi séra Axels Árnasonar, sóknarprests á Stóra-Núpi í Árnesþingi, þar sem hann gagnrýndi harðlega fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsá. Það er svo sem ekki í frásögur færandi að prestar hafi skoðun á slíku máli og er hver frjáls til þess. Það sem er sérstakt við þessa gerð séra Axels, og reyndar mjög umdeilanlegt, er að hann tekur í bréfinu sérstaklega fram að hann riti það "í nafni embættis síns" og sem "sálnahirðir" sóknarbarna sinna í nágrenni fyrirhugaðra framkvæmda.

Ættu prestar að ganga fram fyrir skjöldu með þeim hætti, sem séra Bjarni og séra Axel hafa gert, og greina frá skoðunum sínum á viðkvæmum og umdeildum þjóðfélagsmálum, jafnvel í nafni embættis síns?

Rök með því gætu t.d. verið þau, að þar með teldu þeir sig vera að fylgja boði Krists og Ritningarinnar, og að kristileg samviska þeirra knýi þá til þess arna.

Rök á móti því gætu t.d. verið þau, að þar með væru þær að skipa sér í flokk í hitamáli, sem líklegt er til að ólíkar skoðanir séu á, einnig innan þeirra safnaðar, og það gæti valdið erfiðleikum í samskiptum sóknarbarna og prests.

Þetta er svona "eintal sálarinnar", vangaveltur mínar en án niðurstöðu! Það væri gaman að heyra, hvaða skoðun menn hafa á þessu máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Björgvin

Þetta er nú líka þessi spennandi spurning hvort að prestur sé bara prestur ef hann segir að nú tali hann sem prestur.

Pétur Björgvin, 8.3.2007 kl. 08:50

2 Smámynd: Lutheran Dude

Mér finnst sjálfsagt að prestar segi sína skoðun á öllu mögulegu. Hins vegar verða þeir að gæta sín á því hvar þeir segja skoðun sína og hvort þeir tali í krafti embættis síns. Hitt er svo hárrétt sem Pétur Björgvin bendir á að prestur er alltaf prestur, og þar af leiðandi getur verið viðkvæmt þegar þeir segja frá sínum skoðunum... en við megum ekki gleyma að prestur er líka manneskja sem hefur rétt á því sama og aðrir.

Varðandi ummæli séra Bjarna verð ég nú að segja að ég hallast nú frekar að skoðun nafna hans. Ég kýs að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og ekki troða hjálpinni upp á fólki, það verður að geta átt frumkvæði.

Lutheran Dude, 8.3.2007 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband