Skemmtileg og óhefðbundin útvarpsmessa

Ég hef sjaldan tækifæri til að hlusta á útvarpsmessur í beinni útsendingu, þar sem sunnudagaskólinn minn í Grafarholtinu á yfirleitt tíma minn allan á sunnudagsmorgnum. En sem betur fer er Ríkisútvarpið orðið svo vel vefvætt að nú geta menn hlustað á útvarpsmessurnar á Netinu, eins og svo margt annað útvarpsefni, þegar manni hentar í svolítinn tíma eftir útsendingu.

Í þessum töluðu orðum er ég að hlusta á útvarpsguðsþjónustu dagsins, sem send var út frá Digraneskirkju. Í tilefni æskulýðsdags Þjóðkirkjunnar var messan með óhefðbundnu sniði, léttri tónlist og mikilli þátttöku barna og unglinga í söfnuðinum. Heyrðist mér æskulýðsfulltrúi kirkjunnar, Anna Arnardóttir, hafa veg og vanda af messunni ásamt sr. Magnúsi Birni Björnssyni. Hún predikaði einnig með aðstoð krakkanna og stjórnaði léttum söng ásamt undirleikurum.

Líklega eru hlustendur útvarpsguðsþjónusta flestir íhaldssamir á messuform og messusöng. Og fyrir mína parta kýs ég auðvitað helst klassíska messugjörð og sálma. En það er líka nauðsynlegt að nýta æskulýðsdaginn eins og sem flest önnur tækifæri til að muna eftir börnum og unglingum í kirkjunni okkar.

Það er ekki lítið fyrirtæki að halda utan um þátttöku svo margra barna og unglinga í útvarpsmessu. Það útheimtir án efa gríðarlega undirbúningsvinnu. En vel tókst til í morgun og vil ég óska Önnu og félögum í Digranessöfnuði til hamingju með þessa líflegu æskulýðsmessu, sem við útvarpshlustendur fengum einnig að njóta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Ég hlustaði á þessa guðsþjónustu [engin altarisganga = engin messa] og ég er nokkuð viss um að Siggi Bjarni var á píanóinu. Hins vegar verð ég að segja að ég hugsaði með mér. Ef svo ólíklega vildi til að ég einhverntímann í framtíðinni neyðist til að flytja á höfuðborgarsvæðið þá myndi mig langa til að búa í Digranessöfnuði. Þetta var lifandi, einlægt og skemmtilegt.

Jóhann Þorsteinsson, 7.3.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband