Kominn

Þá er maður búinn að kynna sér starf sveitaprestsins og heimsækja eiginkonuna í leiðinni. Héraðsdvöl er lokið að sinni og hversdagurinn tekinn við. Það voru ánægjulegir tíu dagar sem ég átti fyrir austan, þó að mér hafi stundum liðið eins og lús á milli tveggja nagla, Hlínar og séra Jóhönnu!

Það er gaman að sjá, hve styrkum fótum kirkjan stendur víða á landsbyggðinni. Sem dæmi um það má nefna, að á sunnudagsmorguninn fórum við á Borgarfjörð eystra (heimaslóðir söngvarans Magna!) og höfðum þar sunnudagaskóla, sem um 90% barna undir fermingaraldri í plássinu sóttu, eða 16 stykki. Og á laugardaginn keyrðum við alla leið norður á Bakkafjörð, þar sem sungin var messa í Skeggjastaðakirkju. Rúmlega 30 manns voru í kirkjunni, og verður það að teljast þokkalegasta kirkjusókn í 100 manna byggðarlagi!

Á sunnudaginn var ekki síður gaman, að lokinni messu í Eiðakirkju, að keyra niður á Fáskrúðsfjörð, um nýju og glæsilegu jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og vera við þjóðahátíð Austfirðinga, sem þar var haldin. Markmið hennar er háleitt, eða að stuðla að umburðarlyndi og sátt meðal innfæddra og aðfluttra Austfirðinga af ýmsum þjóðernum. Það rifjaðist upp fyrir mér verkefni, sem ég vann í Strasbourg fyrir tveimur árum, um þjóðahátíð í einu af úthverfum borgarinnar, sem kaþólska kirkjan í hverfinu hafði haft forgöngu um að halda í safnaðarheimilinu. Kirkjan hefur einnig sitt hlutverk í samskiptum af þessu tagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband