Fyrnd ofbeldisverk, harmleikur og nákvæmar lýsingar

Það hefur verið óhuggulegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla, einkum Sjónvarpsins, undanfarna daga um vistheimilið Breiðuvík á Vestfjörðum, og þá meðferð, sem drengirnir þar máttu þola. Hvert fórnarlambið á fætur öðru hefur gengið fram fyrir skjöldu og lýst dvölinni þar sem lífi í stanslausum ótta við barsmíðar, andlegt ofbeldi, nauðganir og svívirðingar.

Harmur fórnarlambanna er mikill, og verði það einhverjum til hjálpar í úrvinnslu þeirrar sorgar, að greina frá hinni illu vist í fjölmiðlum, þá er til nokkurs unnið. Og vissulega verða mál af þessu tagi að komast í dagsljósið, betra er þar seint en aldrei, því að annars gætu ofbeldismenn nútíðar og framtíðar iðkað álíka athæfi án óttans við, að upp um þá kæmist.

Hitt er annað mál, að lagalega eru brot starfsmanna Breiðuvíkurheimilisins löngu fyrnd, og þeir sjálfir trúlega flestir horfnir undir græna torfu. Kallað hefur verið eftir því, að einhver, já bara einhver, taki á sig ábyrgðina á því, að ekki var fylgst betur með starfsemi heimilisins. Reyndar hafa grafalvarlegar ásakanir verið bornar á borð um það, að barnaverndarnefndarfólk þessa tíma hafi vitað af ástandi mála, en ekkert aðhafst. Ekki skil ég til hlítar, í hverju ábyrgð á málinu ætti að felast 30-40 árum eftir þennan harmleik. Það má heldur ekki blanda hefndarþorsta saman við, að landslögum sé fylgt.

Þá vakti það furðu mína, t.d. í Kastljóssþætti nú fyrr í kvöld, hve harkalega spyrill þáttarins gekk eftir við því við eitt fórnarlambanna úr Breiðuvík, að hann lýsti því ofbeldi, sem hann varð fyrir. Í stað þess að fjalla um afleiðingar ofbeldisins, og hvernig væri hægt að fyrirbyggja, að slíkur harmleikur endurtæki sig, virtist viðkomandi dagskrárgerðarmaður helst vilja heyra sem nákvæmastar lýsingar á bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, og þráspurði viðmælanda sinn í því skyni. Hvaða tilgangi þær lýsingar áttu að þjóna, veit ég ekki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband