Matvælaverð

Fátt, ef nokkuð, kemur heimilunum í landinu jafnvel og lægra verð á matvöru. Það var því fagnaðarefni, þegar ríkisstjórnin tilkynnti á síðasta ári fyrirhugaðar breytingar á sköttum og gjöldum, sem miða áttu að því, að lækka verð á matvælum til neytenda. Að sama skapi er það óþolandi, ef kaupmenn hyggjast nýta sér tækifærið í gróðaskyni og lækka ekki hjá sér matvöruverð, heldur stinga mismuninum í eigin vasa.

Sem betur fer hafa Neytendasamtökin, Samkeppnisstofnun og kannski umfram allt fjölmiðlar brugðist harkalega við meintum áformum kaupmanna um, að lækka ekki matvöruverð í samræmi við lækkanir á matarskatti. Á ríður, að íslenskir neytendur gerist meðvitaðri og virkari í afstöðu sinni til matarinnkaupa, og standi saman í að sniðganga þær vörur, sem hækka munu óeðlilega mikið í verði að raungildi.

Hátt matarverð á Íslandi er mér reyndar nokkur ráðgáta. Þann vetur, sem ég bjó í Strasbourg keypti ég yfirleitt í matinn fyrir aðeins um 15-20 evrur á viku, eða um 1500 krónur! En fylgja verður þeirri sögu, að vitanlega lifði ég spart sem námsmaður, og borðaði nánast daglega í hádeginu í einhverju skólamötuneytanna. Það var hræódýrt, og kostaði heit máltíð með léttum for- og eftirrétti aðeins 2,65 evrur eða um 250 kr., en var afar matarmikil og seðjandi. - Ég minnist þess reyndar ekki að hafa nokkurn mánuð greitt meira en 25.000 kr. samtals fyrir allan mat, húsnæði og strætókort, og oft jafnvel minna en það.

Að sama skapi er einkennilegt, að á kaffistofum Félagsstofnunar stúdenta við Háskóla Íslands skuli eitt rúnnstykki með grænmeti vera dýrara en máltíðin í Strasbourg, en slíkt brauðmeti kostar þar heilar 270 kr. Annað verðlag er eftir því, og telst þó varla hátt í samanburði við einkareknar kaffistofur, svo sem Matstofu Vesturbæjar, sem af undarlegum ástæðum fær að reka starfsemi sína á Þjóðarbókhlöðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband