Laugardagur, 3. febrúar 2007
Ánægjulegur dagur á Sólheimum
Þessum ljúfa laugardegi eyddi ég á Sólheimum í Grímsnesi, en þar héldu ÆSKR og Fræðslusvið Biskupsstofu ásamt KFUM & KFUK námskeið fyrir leiðtoga í kristilegu barna- og æskulýðsstarfi. Slík námskeið eru að öllu jöfnu ánægjuleg og var einnig svo í dag. Fjöldi leiðbeinenda í starfi kirkjunnar okkar hittist og uppbyggist saman til starfa.
Að þessu sinni gátu þátttakendur valið á milli tveggja örnámskeiða, annars um nýja tónlist í kirkjustarfi en hins um kyrrðar- og íhugunarstarf. Valdi ég seinni kostinn og sá ekki eftir því, enda margt að læra í þeim efnum. Á seinni árum hefur orðið hálfgerð vakning innan íslensku kirkjunnar um að kynna fyrir söfnuðunum aðferðir til kristinnar íhugunar. Má þar nefna Jesúbænina, andlegan lestur (lectio divina) og þá íhugun í tónlist, bæn og þögn, sem kennd er við Taizé-þorpið í Frakklandi. Það var mér ekki síst ljúft að hlýða á fræðslu um Taizé-starfið, þar sem upp fyrir mér rifjaðist yndisleg vikudvöl mín á þeim stað fyrir tæpum tveimur árum. - Margar þeirra aðferða til íhugunar, sem við erum nú að kynnast, eru raunar eldfornar, og standa því kyrrðarmenn föstum fótum í hefð alheimskirkjunnar.
Gaman var að sækja heim hið sérstaka samfélag að Sólheimum, þar sem bæði búa fatlaðir og ófatlaðir. Byggir starfið þar að nokkru leyti á kristilegum gildum. Var reisulegasta kirkja vígð á staðnum ekki alls fyrir löngu og þjónar nú prestur í fullu starfi Sólheimum. Sagði hann okkur, að hann héldi m.a. guðsþjónustur annan hvorn sunnudag. Sjaldan kæmu færri en 40 í messu og oft fleiri. Verður það að teljast góð kirkjusókn í samfélagi, þar sem íbúafjöldinn er aðeins rétt yfir hundraðinu!
Lesi einhverjir aðstandenda námskeiðsins í dag þennan pistil, vil ég nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.