Hvítasunnukirkjan og málefni samkynhneigðra

Hvítasunnukirkjan er stórmerkileg og afar virðingarverð kirkja. Hún er á heimsvísu miklu fjölmennari en lútherska kirkjan og í örum vexti. Ég sótti nokkrum sinnum guðsþjónustur og samverur fyrir ungt fólk í hvítasunnukirkjunni í Strasbourg. Þær voru mjög fjölmennar og líflegar, og hygg ég, að hvítasunnuhreyfingin og skyldir söfnuðir séu einu kirkjudeildirnar í Frakklandi, sem fjölgi í. Lútherska og kalvínska kirkjan í landinu eru agnarsmáar og þó að kaþólska kirkjan í Frans hafi sögulega séð verið gríðarstór og áhrifamikil, hefur hún nú um langt skeið átt erfitt uppdráttar. Ekki síst er það prestaskortur, sem hrjáir hana þar, líkt og svo víða annars staðar. Einn góðan veðurdag mun þessi risavaxna kirkja neyðast til að slaka á kröfum sínum um skírlífi presta, í því skyni að tryggja sér nægilegan fjölda klerka.

Það er ánægjulegt, að hvítasunnuhreyfingunni skuli að einhverju leyti hafa tekist það, sem hefðbundnari kirkjudeildir hafa átt erfitt með á seinni árum: að vinna Evrópubúa til fylgis við fagnaðarerindi Jesú Krists. Þó ber að athuga, að líflegar og fjölmennar samkomur segja ekki alla söguna. Mestu varðar hinn kenningarlegi grundvöllur, þ.e. hvað boðað er. Öfugt við t.d. lúthersku kirkjuna leggjast hvítasunnumenn gegn barnaskírn og skíra aðeins fullorðið fólk niðurdýfingarskírn. Þá leggja þeir mikla áherslu á helgun, þ.e. að líf og öll breytni hins kristna manns mótist sem mest af trú hans á Krist. Um síðarnefnda atriðið er ekki nema gott eitt að segja. Hið fyrrnefnda felli ég mig alls ekki við, en ætla ekki að gera það að umtalsefni hér. Niðurdýfingarskírn virðist hafa hentað sumum vel til eflingar á sínu trúarlífi.

Leiðinlegt var, að fylgjast með árásum yfirlæknisins á Vogi á dögunum á starf íslensku hvítasunnuhreyfingarinnar með áfengis- og fíkniefnasjúklingum. Ekki hef ég heyrt annað, en að þar sé unnið gott starf og af heilindum í kærleika Jesú Krists. Í vinnu minni á áfengisdeild Landspítalans síðasta sumar heyrði ég engan sjúkling, sem dvalið hafði á Hlaðgerðarkoti eða notið annarrar þjónustu Samhjálpar, hallmæla því starfi, heldur þvert á móti. Margir voru þakklátir þeim kærleika, sem þeir höfðu fundið hjá hvítasunnumönnunum, og jafnvel höfðu þeir sjálfir komist þar til trúar á frelsarann, þó að vímuefnabölið hafi ekki vikið endanlega frá þeim. En ekki tel ég heldur, að allir sjúklingar á Vogi hafi komið þaðan út vímulausir fyrir lífstíð!

Það er spurning, hvort félagsfræði trúarbragðanna myndi skilgreina hvítasunnusöfnuðina á Íslandi sem sértrúarsöfnuði (e. sects) eða sem kirkjudeildir (e. denominations). Eitt einkenna sértrúarsafnaða samkvæmt þessum kokkabókum er mjög eindregin afstaða gegn og aðgreining frá umheiminum og hegðun hans. Í einu dagblaðanna í gær mátti lesa um guðsmann nokkurn frá Bandaríkjunum, sem hafði hneigst að eigin kyni, en frelsast frá þeim "ólifnaði" með aðstoð trúarinnar. Var maðurinn í frétt blaðsins nefndur "afhommari", en hann var staddur hér á Íslandi í boði eins af íslensku hvítasunnusöfnuðunum, til að aðstoða samkynhneigða Íslendinga við að losna úr viðjum hneigða sinna. - Ég er hræddur um, að koma þessa manns til landsins verði viðkvæmu almenningsáliti á hvítasunnukirkjunni ekki til framdráttar. Með þessum hætti staðfestir hún vilja sinn til að vera sértrúarsöfnuður og lifa í spennu við hið illa samfélag í kringum sig.

Gríðarmargt jákvætt er, við starf hvítasunnukirkjunnar, eins og fram hefur komið. Ég set hins vegar spurningarmerki við þá stefnu, að hyggjast leysa menn úr viðjum ástar á eigin kyni. Í öllu falli myndi ég ekki kæra mig um, að nokkur reyndi að losa mig úr fjötrum ástar á konunni minni! En hitt kann vel að vera, að slík "afhommun" sé einhverjum kærkomin. Vonandi er það þá af þeirra eigin hvötum, en ekki vegna þess, að trúarleiðtogar þeirra hafi innrætt þeim neikvæða afstöðu til eigin tilfinninga.

Þjóðkirkjan hefur reynt að sýna ábyrga afstöðu og fara bil beggja í málefnum samkynhneigðra. Hún hefur leitast við að vera umburðarlynd og opna hommum og lesbíum faðm sinn, t.d. með svonefndum "Regnbogamessum" í samstarfi við Samtökin ´78. - En um hjónaband samkynhneigðra getur ekki verið að ræða, þrátt fyrir að margir íslenskir prestar hafi lýst vilja sínum í þá átt, nú síðast yngsti starfandi sóknarprestur landsins, sr. Hildur Eir Bolladóttir, í viðtali í Dagblaðinu um helgina. Vitanlega eiga íslenskir prestar að blessa sambúð homma og lesbía, og getur sú athöfn líkst mjög brúðkaupi gagnkynhneigðra hvað snertir form, fegurð, bæn og kærleika. En eins og staðan er í dag væri óábyrgt af Þjóðkirkjunni, hvað hjónaband samkynhneigðra snertir, að skera sig svo mjög úr flokki samstarfskirkna sinna annars staðar í heiminum, og gengi gegn grundvallarskilningi alheimskirkjunnar á hjónabandinu. Mestu skiptir, að varðveita eininguna innan Þjóðkirkjunnar, og forða henni frá illdeilum og klofningi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband