Enn um kirkju og skóla

Enn verður Vinaleiðin í Garðabæ tilefni fjölmiðlaumfjöllunar í dag. Rétt eins og í fréttinni í Blaðinu á dögunum um "trúboð" Neskirkju í Melaskóla, stígur nafnlaus móðir fram á sjónarsviðið í Fréttablaðinu í dag. Hún ber aðstandendur Vinaleiðarinnar þungum sökum, þar sem hún segir ósamræmi hafa verið í orðum sr. Jónu Hrannar Bolladóttur, sóknarprests í Garðaprestakalli og forkólfs Vinaleiðarinnar þar í bæ, og í verkum skólaprests Hofsstaðaskóla, sr. Hans Guðbergs Alfreðssonar. Hún heldur því fram, að sr. Jóna Hrönn hafi fullyrt í sjónvarpsviðtali að morgni 9. janúar sl., að aðstandendur Vinaleiðarinnar kæmu ekki inn í bekki grunnskólans, en sr. Hans Guðberg hafi sama dag komið inn í bekk dóttur hennar til að kynna þar Vinaleiðina sem valkost fyrir nemendur.

Orð sr. Jónu Hrannar úr þessu sjónvarpsviðtali eru prentuð í Fréttablaðinu í dag. Ég fæ ekki skilið þau öðruvísi en svo, að í þeim liggi, og það með réttu, að starfsemi Vinaleiðarinnar, þ.e. sálgæsla skólaprests og skóladjákna við nemendur, eigi sér ekki stað innan kennslutíma bekkjanna. Hin eiginlega starfsemi þessara vígðu þjóna er ekki sami hluturinn og að kynna þá sömu starfsemi fyrir nemendum. Nemendur geta reyndar ekki nýtt sér þjónustuna nema vita af henni, eins og liggur í augum uppi! - Auk þessa gagnrýnir hin nafnlausa móðir, að skólapresturinn hafi leyft sér að ræða við nemendurna um "sárin á sálinni," sem kristin sálgæsla gæti hugsanlega átt sinn þátt í að lækna.

Sem betur fer fær sr. Hans Guðberg tækifæri til að skýra málin í Fréttablaðinu í dag. Það gerir hann vel og fagmannlega eins og búast mátti við. Sömuleiðis er birt yfirlýsing frá sr. Jónu Hrönn um málið.

Það er grafalvarlegt mál, að borið sé aðstandendum Vinaleiðarinnar á brýn, að þeir fari með ósannindi, eða starfi af óheilindum. Verst er þó, að slíkt sé gert í skjóli nafnleysis. Eflaust er tilgangur þess, að vernda dóttur konunnar. Það eru gild rök. En ég efast um, að hetjum Íslendingasagnanna hefði þótt sérstaklega drengilegt, að vega úr launsátri.

Garðbæingum er, hygg ég, lítill sómi að því, að nafnlausar mæður í bænum vegi með aðdróttunum að starfsheiðri þeirra, sem taka sér fyrir hendur að aðstoða þau börn, sem eiga um sárt að binda í bænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband