Miðvikudagur, 17. janúar 2007
Engan hrærigraut!
Aftur verður efni á vefnum trú.is mér tilefni bloggskrifa. Að þessu sinni var ég að lesa þennan forvitnilega pistil Péturs Björgvins Þorsteinssonar, djákna í Glerárkirkju á Akureyri. Í pistlinum, sem ber heitið Trú sannfæringunni, fjallar hann um erindi dansks sérfræðings í þvertrúarlegu samtali, Frederiksens nokkurs, í Skálholti fyrir nokkru. Það kann að koma einhverjum á óvart að Daninn telji lykilinn að því, að slíkt samtal verði árangursríkt, alls ekki felast í að menn tileinki sér gagnrýnislaust það, sem þekkilega hljómar úr trúarbrögðum annarra. Þvert á móti er leið gagnkvæms skilnings, umburðarlyndis og virðingar í þessum efnum einmitt sú, að menn séu trúir sannfæringu sinni og þekki sína eigin trúarhefð. Hafragrautur er bragðgóður, en hrærigrautur trúarbragða öllu síðri!
Ég fagna þessari niðurstöðu mjög, enda tel ég bráðnauðsynlegt að kristnir menn, líkt og fylgjendur annarra trúarbragða eða lífsskoðana, leitist við að kynnast sinni eigin trúarhefð og standa styrkum fótum í trú sinni. Fráleitt er að draga samasemmerki milli þröngsýni og þess, að hvika ekki frá sannfæringu sinni. En forsendu slíkrar sannfæringar álít ég vera annars vegar þekkingu á kenningu trúarinnar og hins vegar þjálfun í hinu trúarlega atferli, þ.e. helgihaldinu. Það er því full ástæða til að taka undir upphafsorðin í pistli Péturs Björgvins, þar sem hann vitnar til Frederiksens og segir: "Kirkjan á að koma því skýrt á framfæri hvað kristindómurinn er."
Kirkjan á ekki að vera feimin við fagnaðarerindið og að koma því á framfæri. Hún verður að vita, á hvern hún trúir - þann, sem sjálfur segist "vegurinn, sannleikurinn og lífið" (Jóh. 14.6).
Athugasemdir
"amen, bróðir" segi ég
Grétar (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.