Blessað æskulýðsstarfið!

Það er víst kominn miður janúar og tímabært orðið að æskulýðsstarfið, sem heita á að maður beri ábyrgð á, sé sigið í gang. Unglingadeildin hjá okkur í Grafarholti hittist í fyrsta skipti í dag eftir jólafrí og byrjar hægt en örugglega, sex áhugasamir krakkar mættu. Það má því segja að fámennt hafi verið en góðmennt! Ég er svo lánsamur að vera búinn að krækja í kvenleiðtoga til að starfa með mér í staðinn fyrir Hlín, Maríu Gunnlaugsdóttur úr guðfræðinni, sem er mjög áhugasöm og stendur sig stórvel.

Vitaskuld kemur sú dama þó ekki í stað Hlínar nema aðeins í unglingastarfinu! Og ekki get ég sagt að gaman hafi verið að kveðja eiginkonuna á Reykjavíkurflugvelli í morgun þegar hún sigldi á ný með loftskipinu austur. En fjarbúðin okkar er víst bara tímabundin svo að við látum okkur hafa hana að sinni þó að erfið sé.

Margt er líka til að gleðjast yfir í heiminum. Ég skemmti mér ágætlega við að hlusta á fjölbrautaskólana á Selfossi og í Garðabæ mætast í annarri umferð Gettu betur í útvarpinu nú fyrr í kvöld. Þetta var fyrsta viðureignin, sem ég náði að fylgjast með í ár, og fundust mér spurningar Davíðs Þórs Jónssonar nokkuð sanngjarnar á minn eigin mælikvarða, og mörgu virtust liðin líka geta svarað, þ.m.t. allt of mörgu sem ég ekki vissi. Ég get þó státað af að hafa getað svarað örfáum spurningum sem liðin flöskuðu á, t.d. um merkingu nafnsins Benedikt. Greinilegt var á svörum liðanna að latína er lítið kennd í FSu og enn minna í FG, en latneska orðið benedictus þýðir víst "blessaður". Orðið tilheyrir reyndar latneskum texta hinnar klassísku messu, en í einum af undirbúningsliðum altarisgöngunnar er einmitt sungið: "Benedictus qui venit in nomine Domini" eða: "Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins" (sbr. Lúkas 19.38).

Kannski væri reynandi, næst þegar einhver heilsar manni: "Blessaður", að svara að bragði: "Benedictus!".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband