Mánudagur, 15. janúar 2007
Útsölur, Hlín og Amadeus
Eiginkonan hefur verið í bænum nú um helgina vegna málstofu sem hún þurfti að sækja hér í dag og notuðum við tækifærið til að fara saman á útsölur og endurnýja svolítið í fataskápnum okkar. Ekki þyki ég sjálfur mikill smekkmaður þegar kemur að fatavali og er því gott að hafa góða konu með sér í fatakaupum. Ég var svo lánsamur að gera reyfarakaup í fötum á 70% afslætti, auk þess sem við keyptum okkur eldhússtóla með 80% afslætti á rýmingarsölu IKEA. Gaman að því.
Í gærkvöldi skelltum við skötuhjú okkur í Borgarleikhúsið og nutum góðs af getspeki móður minnar, sem vann tvo miða á verkið Amadeus í getraun leikhússins. Þau pabbi voru hins vegar búin að sjá stykkið og buðu því frumburðinum og tengdadótturinni. Amadeus er magnað leikverk og mjög dramatískt, en þar segir frá hirðtónskáldinu í Vínarborg við lok 18. aldar, Antonio Salieri, sem öfundar snilligáfu hins unga Mozarts og gerir allt sem hann getur, til að bregða fyrir hann fæti og veldur loks með óbeinum hætti dauða hans. Skemmst er frá að segja að Hilmir Snær Guðnason var stórkostlegur í hlutverki Salieris en ungir leikarar, Víðir Guðmundsson og Birgitta Birgisdóttir, stóðu sig einnig afbragðsvel í hinun aðalhlutverkum leiksins tveimur, hlutverkum Mozarts og konu hans.
Í dag hófst svo kennsla í guðfræðideild aftur eftir alllangt jólahlé. Fór misserið reyndar rólega af stað hjá mér þar sem ég er aðeins í tímum í einum áfanga á mánudögum, Kirkjudeildafræði, sem dr. Pétur Pétursson kennir. Hann var einmitt leiðbeinandi minn við BA-ritgerð mína í haust. Líst mér vel á þennan áfanga, en í honum munum við kynnast helstu kirkjudeildum, sem fulltrúa eiga í flóru íslenskra trúfélaga og heimsækja nokkra söfnuði í Reykjavík, þ.á.m. rómversk-kaþólsku kirkjuna og rússnesku rétttrúnaðaarkirkjuna. - Í fyrramálið hefst svo kennsla í tveimur námskeiðum, sem viðbúið er að muni taka dágóðan hluta af tíma mínum á önninni, þ.e. ritskýringu Jóhannesarguðspjalls og stefi í guðfræði Nýja testamentisins. Það er dr. Jón Ma. Ásgeirsson sem kennir bæði þessi námskeið og verða þau vonandi spennandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.