Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Kirkjutónlist á Íslandi
Í gær var ég svo lánsamur að vera boðið á frumsýningu nýrrar heimildamyndar Páls Steingrímssonar, þar sem fjallað er um nokkra þætti í sögu kirkjutónlistar á Íslandi. Var það pabbi "gamli" (46 ára!) sem átti tvo boðsmiða og bauð mér með sér, en meðal aðstandenda myndarinnar var einn af samstarfsmönnum hans. Myndin var tekin upp á alllöngum tíma og var aldur sögumannsins, Kristins Sigmundssonar söngvara, því æði misjafn eftir atriðum, jafnvel svo að virtist skeika um 20 árum! Vakti þetta nokkra kátínu bíógesta.
Skemmst er frá að segja að myndin er hin fróðlegasta og hafði ég ánægju af að horfa og hlusta á hana. Þó fannst mér upphafsatriði myndarinnar harla einkennilegt, en þar er líkt og efni hennar hafi breyst, úr kirkjutónlist í trúarlega tónlist almennt, þar sem þar má sjá Eddu Heiðrúnu Backman í gervi Guðríðar Þorbjarnardóttur syngja ákall til jötna, hrímþursa og annarra heiðinna vætta á Grænlandi. Þótti mér þetta atriði lítt passa inn í samhengi myndarinnar.
Myndin er einföld að gerð en engu að síður dýrmæt heimild, bæði um sögu íslenskrar kirkjutónlistar í gegnum aldirnar og um stöðu þeirra mála við upphaf 21. aldarinnar. Sýndar voru nokkrar svipmyndir frá síðari árum í seinni hluta myndarinnar, m.a. frá Kristnihátíðinni á Þingvöllum árið 2000 og úr kór- og safnaðarsöng í íslenskum kirkjum. Vakti þó furðu mína, að þar sem sýndur var hópur að söng, t.d. söfnuður Hallgrímskirkju, voru einatt sýnd löng myndskeið í nærmynd af fólki, sem alls engan þátt tók í söngnum. Þetta rýrir þó ekki á nokkurn hátt heimildargildi myndarinnar, og ánægjulegt var að kvikmyndagerðarmaðurinn skyldi að sýningu lokinni afhenda biskupi Íslands fyrir hönd Þjóðkirkjunnar frumeintak myndarinnar að gjöf, í þeirri von að hún nýtist sem flestum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.