Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 4. júní 2007
Frábært málþing í Skálholti
Lánsöm vorum við, sem nú um helgina fengum tækifæri til að sitja málþing í Skálholti, þar sem hinn heimsþekkti, þýski guðfræðingur, Jurgen Moltmann, hélt erindi og sat fyrir svörum.
Um fjórir áratugir eru nú liðnir frá því að Moltmann, sem nú er áttræður, gaf út tvær af sínum þekktustu bókum, Hinn krossfesti Guð og Guðfræði vonarinnar. Það vekur hins vegar athygli, að ekki er Moltmann aðeins afar ern, hugsun hans beitt og framsetningin skýr, heldur fylgist hann enn grannt með stefnum og straumum í guðfræðiumræðunni og hefur endurmetið guðfræði sína jafnt og þétt með hliðsjón af þeim. Boðskapur hans er þó í grunninn hinn sami og fyrr, vonarboðskapurinn um Krist, krossfestan og upprisinn Guð, sem ekki aðeins þjáist með manninum heldur veitir honum von um endanlegan sigur og líf. Það er Guð, sem væntir mannsins á hverjum degi í kærleika sínum, og í þeirri væntingu er að finna kraft vonarinnar.
Mér þótti eftirtektarvert, af hve miklu lítillæti og auðmýkt þessi merkismaður kom fram gagnvart áheyrendum sínum og fyrirspyrjendum í Skálholti. Hann hreif viðstadda með sér og vonarboðskap sínum, með eftirminnilegri framkomu sinni og karisma. Innblásturinn frá helginni mun vara lengi.
Á sjómannadaginn ókum við Hlín svo hingað austur á Hérað, þar sem ætlunin er að verja sumrinu við störf í sumarbúðunum hér við Eiðavatn, auk þess sem Hlín hefur þegar hafið störf hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs - já, það er fyrsti vinnudagurinn hennar sem félagsráðgjafa í dag! (Munið að óska henni til hamingju!) Sjálfur ætla ég að reyna að nota sem mest af tíma mínum í skriftir, þ.e. í kjörsviðsritgerð. Meira um það síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. júní 2007
Myndarlegir guðfræðinemar
Pétur Georg Markan er guðfræðideild til sóma þar sem hann snýr tilkynningablöðru um vildarpunkta Glitnis líkt og fótknetti á strætóskýlum borgarinnar. Auglýsingarnar hittu beint í mark hjá mér. Ég fór rakleitt og "kynnti mér kosti Vildarklúbbsins."
Guðfræðinemar virðast reyndar öðrum hópum myndarlegri að dómi auglýsingastofanna. Áður hefur Grétar Halldór Gunnarsson vakið athygli fyrir frækna frammistöðu við að auglýsa fallegar lopapeysur og fleiri öndvegisvörur, og nú fetar Markaninn í fótspor hans. Miðað við fjölda íslenskra guðfræðinema (hvað þá karlkyns) hlýtur hlutfall fyrirsetla í þeim hópi að vekja athygli. Skyldi prestastéttin þegar vera svona myndarleg, eða er þetta ávísun á betri tíð?
Reyndar er ég hálfhissa á, að mér skuli ekki hafa verið boðinn samningur um fyrirsætustörf. Ég þyki nú ansi myndarlegur sjálfur. Það segir Hlín allavega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 29. maí 2007
Á leið inn í sumarið
Sólin skín og sumarið er komið. Við Hlín erum reyndar farin í sumarfrí og komin aftur heim. Tíu daga dvöl í Belgíu og Hollandi var stórgóð í oftast nær ágætu veðri, frænkur mínar í Brusseli tóku á móti okkur með kostum og kynjum. Ég vildi heldur búa í Brusseli en í Amsterdam, í fyrsta lagi vegna þess að ég er skárri í frönsku en í hollensku og í öðru lagi vegna þess, að ef ég væri að skrifa ferðabók um Holland myndi hún hefjast á orðunum:
"What comes to your mind when you think of the Netherlands? Windmills and tulips? Think again! Prostitutes and cannabis would be more appropriate as the slogan for Holland´s capital."
Því verður þó að halda til haga, að þegar ég spurði Hlín, hvað hún vildi skoða í Amsterdam, var hún skjót til svars: Rauða hverfið! - Þó er áhrifaríkasti viðkomustaðurinn í Amsterdam trúlega hús Önnu Frank. Sem betur fer er það fjölsótt, því að það er best að Evrópubúar gæti þess vel, að láta seinna stríðið aldrei líða sér úr minni.
Við heimkomuna beið okkar frágangur og þrif á Eggertsgötunni, sem við skilum af okkur nú um mánaðamótin. Svo er það bara austurferð á sunnudag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. maí 2007
Úr prófum í Brussel
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Bænadagur eftir kjördag
Það er skemmtilegt og að mörgu leyti viðeigandi að svo skuli vilja til í ár, að hinn almenni bænadagur í kirkjuári Þjóðkirkjunnar, sem er fimmti sunnudagur eftir páska, sé í ár daginn eftir kjördag, þ.e. í dag, 13. maí. Þetta er kjörið tækifæri til að biðja fyrir stjórnmálamönnum, og hefur biskup Íslands reyndar beðið presta sína á þessum degi "að sameinast í bæn fyrir þeim fulltrúum sem þjóðin hefur kjörið til setu á alþingi." Það ættum við öll að gera, t.d. með þessum orðum:
Lifandi Drottinn! Lof sé þér og þökk, að við búum í frjálsu landi og eigum kost á að velja okkur stjórnendur. - Vak yfir öllum þeim, sem kjörin voru á þing í gær. Gef þeim visku, kjark og drengskap til að taka farsælar ákvarðanir, landi og þjóð til heilla. - Blessa þú sérstaklega, Drottinn, hverja þá, sem mynda munu nýja ríkisstjórn. Stýr öllum þeirra ráðum til góðs eftir þínum helga vilja. Í Jesú nafni. Amen.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. maí 2007
Mikið á hann Grímur gott!
Það má með sanni segja að sólin brosi við manni þessa dagana. Verst að ég þarf að sitja hér inni og lesa fyrir próf í kirkjudeildafræði hjá kennurum mínum sr. Moon og próf. Pétri Péturssyni. Hef ég setið inni í stofu 222 í aðalbyggingu Háskólans ásamt Þráni og Jóni Ómari sem lítið gera annað en trufla mig. Mikið er nú samt gaman að fræðast um kenningar annarra kirkjudeilda og get ég ekki annað sagt en að ýmsar kirkjudeildir halda upp á kenningar mér áður ókunnar sem mér hugnast. T.a.m. hin rómversk-kaþólska kirkja.
Ég gerði mér hins vegar glaðan dag í hádeginu og fór á hinn margrómaða stað Indó-Kína með öðrum vinum mínum Ómari, Jóni og Þórði Ólafi. Sátum við þar lengi í boði patrons míns uns við héldum áleiðis niður Laugaveginn og fengum okkur kakómalt.
Lítið annað að frétta. Enda próf!
Góðar kveðjur úr stofu 222.
Þorgeir sterki
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 7. maí 2007
Kirkjudeildir
"Allt sama kjaftæðið. Hver hefur rétt fyrir sér? Allir."
Ofangreinda athugasemd fékk ég við bloggfærslu hér á dögunum um heimsókn mína í guðsþjónustu hjá söfnuði Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Reykjavík, sem var hluti af námskeiðinu Kirkjudeildafræði. Þessa dagana sit ég við lestur fyrir lokapróf í þessu námskeiði, en í því er fjallað um nokkrar helstu kirkjudeildir kristninnar í sögu og samtíð með sérstakri áherslu á starfandi trúfélög á Íslandi í dag. Setningin hér að ofan kom mér í hug í dag, þegar ég var að velta fyrir mér því, sem við lútherskir menn eigum sameiginlegt og hvað ekki með öðrum kirkjudeildum þegar kemur að kennisetningum.
Nú er hugsanlegt, að athugasemdin hér að ofan hafi verið meint sem háð af hálfu viðkomandi manns, þ.e.: "Hver hefur rétt fyrir sér? Allir" merki: "Enginn hefur rétt fyrir sér" - eða eitthvað í þá veru.
En vísi "allt sama kjaftæðið" til þeirra trúfræðilegu áherslna, sem fram komu í samþykktum kirkjuþinga fornkirkjunnar, er rétt að áhersluatriðin í trúarjátningum á borð við Níkeujátninguna, t.d. þrenningarlærdómurinn, fullur manndómur og guðdómur Jesú, hjálpræðisverk hans og hlutverk Heilags anda, eru vissulega sameiginleg með stærstum hluta þeirra trúfélaga, sem vilja kalla sig "kristin." Þetta á þó vart við t.d. um Votta Jehóva, Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu (mormóna) eða Einingarkirkjuna (moonista). (Spurning er með trúfélagið Krossinn.) Og oft eru það sem betur fer einkum skírnarskilningurinn, bókstaflegur innblástur Biblíunnar, starfsaðferðirnar og eðli tilbeiðslunnar sem kirkjudeildirnar greinir á um. Leiðin til hjálpræðis er ein og hin sama, vegurinn sjálfur, Jesús Kristur.
Eitt af mínum uppáhaldsritningarversum er úr bæn Jesú fyrir handtöku sína og dauða, er hann biður fyrir fylgjendum sínum með þessum orðum: "...allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig" (Jóh. 17.21). Biðjum fyrir einingu kristinna manna "undir eitt höfuð í Kristi" (Efesus 1.10).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 5. maí 2007
Mont, mont!
Það er nauðsynlegt að setja hér inn litla "mont-færslu" í tilefni af gærdeginum, en þá festum við hjónin kaup á okkar fyrstu íbúð, afar fallegri íbúð í Grafarholtshverfinu nýja, nánar tiltekið í fjölbýlishúsinu nr. 16 við Þórðarsveig. Því miður vorum við ekki svo forsjál að vista myndirnar af íbúðinni þegar þær enn voru á vefnum og því verða áhugasamir að bíða með að sjá herlegheitin fram í september, þegar við flytjum inn.
Margir hafa lýst furðu sinni á því, að Seltirningurinn ég skuli vilja flytja svona í hinn enda borgarinnar. Og ekki hefði ég trúað þeim manni sjálfur, sem hefði sagt mér fyrir nokkrum árum, að þar myndi ég enda - í námunda við Reynisvatnið, sem maður fór í skólaferðalög til í æsku og fannst maður kominn svo gríðarlangt út fyrir borgarmörkin. En allt er breytingum háð, og nú hlakka ég til að flytja í Grafarholtið góða. Kostir þess eru margir, og má t.d. nefna þrjá: a) Íbúðirnar þar eru nýlegar, og því lítil hætta á nauðsyn viðgerða í bráð, en það hentar "handlögnum" mönnum eins og mér vel; b) Nálægðin við náttúruna; c) Það er styttra vestur í bæ en menn halda, sérstaklega á góðri Corsu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Fimmtudagur, 3. maí 2007
Eitt að baki, tvö eftir
Nú standa yfir próf.
Í gær lauk ég síðasta námskeiði mínu í nýjatestamentisfræðum við guðfræðideildina með lokaprófi í ritskýringu Jóhannesarguðspjalls hjá próf. Jóni Ma. Ásgeirssyni. Var það býsna gleðilegur áfangi, enda einingarnar ekki á gjafverði hjá þeim ágæta kennara.
Nú á ég aðeins tvö próf eftir, þar sem þrír af áföngum mínum þessa önnina voru próflausir. Finnst mér reyndar slíkum áföngum fara fjölgandi eftir því sem líður á guðfræðinámið, jafnframt því sem álagið í verkefnavinnu ýmiss konar eykst. Það er alls ekki slæm þróun og gott að hafa jafnvægi í námsmatinu og byggja ekki einvörðungu á lokaprófum.
Næsta próf er reyndar ekki fyrr en á kjördag, 12. maí, og verður í Kirkjudeildafræði hjá próf. Pétri Péturssyni, en síðasti hnykkur vetrarins verður svo prófið í Trúfræði II hjá Arnfríði Guðmundsdóttur dósent þann 15. maí. Gangi mér og öðrum vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Sabbat, Keilir og lón
Í tilefni af heimkomu eiginkonunnar til höfuðborgarinnar ákváðum við hjónin að taka okkur sabbatsfrí frá próflestri og verkefnavinnu í gær og bregða okkur aðeins út fyrir borgarmörkin. Þó að vart geti það talist brúðkaupsafmæli í eiginlegri merkingu þess orðs, taldi ég enn fremur vera áfanga til að fagna, að við hefðum í gær verið gift í níu mánuði, enda niðurlæging hjónabandsins orðin allmikil í okkar samfélagi. Það er kannski ástæða til að fagna hverjum degi, sem hjón lafa saman.
Hvað sem því líður var stefnan sett á litla fjallgöngu, þ.e. á fjallið Keili ekki langt frá borgarmörkunum, og þaðan í Bláa lónið. Ekki tókst betur til en svo, að veðrið var með eindæmum leiðinlegt, rigning og hávaðarok, og er þetta reyndar einkenni á þeim göngudögum, sem við skötuhjúin höfum valið okkur saman frá upphafi. Er ég farinn að halda, að okkur sé ekki ætlað að ganga neitt saman, enda gekk ég Fimmvörðuhálsinn í mesta blíðviðri ársins í upphafi síðasta sumars, og var frúin þá einmitt ekki með í för.
Veðrið var þó ekki það eina sem hrelldi okkur í gær, þar sem okkur tókst snemma að villast út af réttum stíg og gengum því alllengi um mosalagðar hraunbreiður, sem greinilega var ekki til ætlast, að yfir væri gengið, enda reyndust þær einkar erfiðar yfirferðar. Svo fór því, að við snerum við áður en einu sinni var komið að Keilisrótum, og komum aftur í bílinn eftir um klukkutíma göngu, köld og blaut. Keilir bíður því betri tíma en hið sama er ekki hægt að segja um Lónið, og var afslöppunin þar einkar vel þegin eftir hrakningarnar.
Hitt er svo annað mál, að þó að ég hafi fyrir þetta sabbatsfrí mitt verið allvel staddur í undirbúningi fyrir prófið í ritskýringu Jóhannesarguðspjalls á miðvikudaginn, er ég nú daginn eftir það orðinn æði þjakaður af samviskubiti yfir frídeginum og reyni að halda vel á spöðunum í lestrinum. Því er ráð að ég hætti vefskrifum og snúi mér aftur að lestri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)