Tómstundagaman

Það er skemmtilegt tómstundagaman, sem ég hef stundað allt of lítið í gegnum tíðina, að fylgjast með spurningakeppni framhaldsskólanema, Gettu betur, og hneykslast á þátttakendum fyrir að hafa ekki svör á reiðum höndum við þeim fáu spurningum, sem maður getur svarað sjálfur. Ég hef áður minnst á þessa tómstundaiðju hér á síðunni.

Í gærkvöldi fylgdist ég með viðureign Verzlunarskólans og Menntaskólans á Akureyri í átta liða úrslitum spurningakeppninnar, og þóttu mér bæði liðin standa sig býsna vel. Það er þó umhugsunarefni, að enginn keppenda skyldi vita hvaða rit Biblíunnar hefst á orðunum: "Í upphafi var orðið", og sömuleiðis, að enginn þeirra skyldi kannast við eitt merkasta sálmaskáld þjóðarinnar, Valdimar Briem frá Stóra-Núpi. Það voru orð að sönnu, sem Davíð Þór Jónsson, dómari, hafði eftir öðrum, að Sálmabók kirkjunnar væri til lítilla nota án sálma Valdimars, en vel mætti messa, þó að engir sálmar væru í bókinni, aðrir en sálmar Valdimars.

En hvað skyldi fákunnátta í biblíutextum og sálmaskáldum hjá úrvalsliðum annars fjölfróðra framhaldsskólanemenda segja okkur um kennslu í kristnum fræðum í íslenska skólakerfinu?


Samkeppni bankanna

Íslenskir bankar hafa verið í umræðunni að undanförnu vegna þess, sem margir vilja kalla skort á samkeppni þeirra á milli og okurkjör á vöxtum og þjónustugjöldum viðskiptamanna. Sá æðsti stjórnandi eins bankans ástæðu til að lýsa því yfir í dagblaði um daginn, að samkeppnin á milli bankanna væri "hörð og grimm." (Bankann, sem þessi maður stjórnar, tekur því ekki að nafngreina, því að eins og fleiri bankar skiptir hann nánast örar um nafn en forstjórinn um sokka.)

Sjálfur hef ég alla tíð verið með reikning í Sparisjóðnum og yfirleitt verið þokkalega sáttur með viðskiptin þar. Ég efast þó um, að ég sé einn af "ánægðustu viðskiptavinum í bankakerfinu", því að slest hefur upp á viðskipta-vinskapinn af og til. - Nú stendur yfir skemmtileg auglýsingaherferð á strætóskýlum, þar sem líkt er eftir forsíðum Séðs og heyrðs, og myndir birtast af brosandi, ungu fólki með stríðsfyrirsögnum á borð við: "LÉT GAMLA BANKANN HEYRA ÞAÐ!" og "FÓR YFIR Í SPARISJÓÐINN!".

Á dögunum fékk ég símtal frá Landsbankanum, þar sem stúlka lýsti fyrir mér, að þjónustufulltrúi bankans hefði gert frábært tilboð í mín bankaviðskipti - hvort ég væri nú ekki til í að hitta fulltrúann og kynna mér málið. Ekki fannst mér saka að reyna það. Ákefðin í að ná tali af mér var þvílík, að daginn fyrir fundinn með fulltrúanum var hringt aftur til að minna á hann, og loks var sent SMS klukkustund fyrir fund.

Í ljósi þessa ákafa bjóst ég við að reyna "hina hörðu og grimmu samkeppni" bankanna á milli á fundinum, og að þjónustufulltrúinn myndi keppast við að lýsa fyrir mér ágæti Landsbankans, sýna mér hvaða þjónustuleiðir hagstætt væri fyrir mig að nýta mér, dæla í mig bæklingum og helst fá mig til að stofna reikning og taka himinhátt lán á staðnum.

Undrun mín var mikil þegar á staðinn kom. Fulltrúinn reyndist hafa ósköp lítinn áhuga á að ræða við mig og mátti ég byrja á að bíða svolitla stund meðan hún lauk við að svara tölvubréfi. Þó mætti ég tveimur mínútum eftir tilsettan fundartíma. Ræða fulltrúans fólst svo í afar almennum orðum um kosti Landsbankans, hún hafði hvorki tilboð, bæklinga né nokkuð annað tilbúið fyrir mig, og þrátt fyrir að ég reyndi að draga upp úr henni með töngum, af hverju í ósköpunum ég ætti að færa bankaviðskipti mín úr Sparisjóðnum til Landsbankans, hafði ég ekki erindi sem erfiði. Við vorum hvort öðru fegnara þegar ég þakkaði pent fyrir mig og fór. Það er ekki víst, að hluthafar bankans hafi verið jafnfegnir þessari frammistöðu starfsmanns síns, sé miðað við hve "hörð og grimm" samkeppni ríkir á milli bankanna um viðskiptavini. - En reyndar er ég svo latur við lántöku enn sem komið er, að kannski er ég alls ekki eftirsóknarverður viðskiptavinur!


Trúarbragðaréttur

Þessa vikuna er starfsvika guðfræðideildar. Nafngift þeirrar viku er reyndar frekar villandi, líkt og "starfsdagar" í grunnskólum, en bæði heitin gefa til kynna, að ekki sé starfað nema þessa tilteknu daga eða vikur. Í grunnskólum hygg ég því, að farið sé að tala um "starfsdaga kennara án nemenda" eða eitthvað í þá átt - lesi einhver grunnskólakennari þessar línur væri gaman að heyra viðbrögð!

Og í guðfræðideild starfa bæði nemendur og kennarar að öðru jöfnu hvorir án annarra í starfsviku, þar sem regluleg kennsla liggur niðri. En í starfsviku hefur hins vegar oft verið reynt að fá erlenda gestakennara til að koma til landsins og kenna stutt námskeið á sínu sérsviði við deildina. Hef ég í tvígang sótt slík námskeið og í bæði skiptin verið mjög auðgandi. Þessa starfsvikuna sæki ég svo námskeið í trúarbragðarétti hjá dr. Lisbeth Christoffersen, dönskum lögfræðingi, sem m.a. kennir þá grein við Kaupmannahafnarháskóla. Í námskeiðinu er m.a. trúfrelsishugtakið tekið til umfjöllunar og hvaða merkingu það hefur í reynd, t.d. á Norðurlöndunum, þar sem þjóðkirkjuskipulag er, en öllum í stjórnarskrá tryggður réttur til sinnar trúarsannfæringar.

Tengsl ríkis og kirkju hafa verið ofarlega á baugi í samfélaginu á undanförnum misserum og nú hefur Ásatrúarfélagið höfðað dómsmál vegna þess, sem félagið vill meina að sé mismunun ríkisvaldsins á milli trúfélaga, þ.e. ívilnun í garð Þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög. Það er í ljósi þessara og annarra deilumála er tengjast trúfrelsisumræðunni, s.s. Vinaleiðarinnar, sérlega áhugavert að fá tækifæri nú til að sitja námskeið hjá sérfræðingi um efnið. Ekki spillir fyrir að á námskeiðinu sitja auk guðfræðinema m.a. prófessorar við guðfræðideild, prestar, djáknar og lögfræðingur, sem eru óhrædd við að taka til máls og ræða stöðuna á Íslandi út frá sinni kunnáttu og reynslu.


Þjóðkirkja í þúsund ár - einkennilegur sjónvarpsþáttur

Ég var að horfa á Netinu á "fréttaskýringaþátt" Stöðvar 2 frá því á sunnudagskvöldið um stöðu Þjóðkirkjunnar. Þátturinn þótti mér um margt einkennilegur, t.d. að því leytinu til, að engin tilraun var gerð til þess, að skýra skuldbindingar og skyldur Þjóðkirkjunnar við samfélagið. Þær skyldur eru margvíslegar, bæði menningarlegar, og hvað snertir sálgæslu og félagslega þjónustu. Þær skyldur eru í mínum huga grundvallarréttlæting þeirra fjárframlaga, sem Þjóðkirkjan nýtur umfram önnur trúfélög. 

Þá þótti mér framsetning þáttarins gagnrýni verð hvað snertir mynd- og hljóðvinnslu. Vart er hægt að tala um hlutlæga fréttamennsku í svo krítískri umfjöllun á tiltekið trúfélag, sérstaklega þegar aukið er á áhrifin með dramatískri bakgrunnstónlist.

En það er svo sem til lítils að tjá sig um þessi mál. Þó stenst ég ekki mátið að birta hér ein ummæli forstöðumanns Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík, eins helsta gagnrýnanda Þjóðkirkjunnar, úr þættinum:

"Sérhver trúarstofnun, sem telur sig hafa höndlað sannleikann, verður um leið stórhættuleg, ef ekki djöfulleg."

Eru þetta ekkert sérstök ummæli úr munni manns, sem vígður er af biskupi Íslands til þjónustu við þann, sem sjálfur sagðist vera "vegurinn, sannleikurinn og lífið"? Eða gera þau ummæli Jesú Krists fylgjendur hans stórhættulega, ef ekki djöfullega?


Öskudagur

Í dag er öskudagur og þar með fyrsti dagur lönguföstu. Í útvarpinu áðan hlustaði ég á viðtöl við nokkur börn, sem voru að syngja í búningum og safna sér sælgæti í Smáralindinni. Börnin hafa gaman af þessum sið, og það er gott. En mér líkaði ekki græðgin, sem birtist hjá þeim í útvarpinu. Af hverju þurfa krakkarnir svona ofboðslega mikið nammi? Verslunareigendur eru ekki skyldugir til að birgja sig upp af gotteríi til að gefa börnum á þessum degi. Ætti ég verslun gæti ég trúað, að ég hefði hana lokaða á öskudaginn. Ég geri ekki ráð fyrir, að viðskiptin séu hvort sem er neitt sérlega fjörug þá. Í það minnsta hætti ég mér sjálfur ekki í neina verslunarleiðangra í dag.

Kominn

Þá er maður búinn að kynna sér starf sveitaprestsins og heimsækja eiginkonuna í leiðinni. Héraðsdvöl er lokið að sinni og hversdagurinn tekinn við. Það voru ánægjulegir tíu dagar sem ég átti fyrir austan, þó að mér hafi stundum liðið eins og lús á milli tveggja nagla, Hlínar og séra Jóhönnu!

Það er gaman að sjá, hve styrkum fótum kirkjan stendur víða á landsbyggðinni. Sem dæmi um það má nefna, að á sunnudagsmorguninn fórum við á Borgarfjörð eystra (heimaslóðir söngvarans Magna!) og höfðum þar sunnudagaskóla, sem um 90% barna undir fermingaraldri í plássinu sóttu, eða 16 stykki. Og á laugardaginn keyrðum við alla leið norður á Bakkafjörð, þar sem sungin var messa í Skeggjastaðakirkju. Rúmlega 30 manns voru í kirkjunni, og verður það að teljast þokkalegasta kirkjusókn í 100 manna byggðarlagi!

Á sunnudaginn var ekki síður gaman, að lokinni messu í Eiðakirkju, að keyra niður á Fáskrúðsfjörð, um nýju og glæsilegu jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, og vera við þjóðahátíð Austfirðinga, sem þar var haldin. Markmið hennar er háleitt, eða að stuðla að umburðarlyndi og sátt meðal innfæddra og aðfluttra Austfirðinga af ýmsum þjóðernum. Það rifjaðist upp fyrir mér verkefni, sem ég vann í Strasbourg fyrir tveimur árum, um þjóðahátíð í einu af úthverfum borgarinnar, sem kaþólska kirkjan í hverfinu hafði haft forgöngu um að halda í safnaðarheimilinu. Kirkjan hefur einnig sitt hlutverk í samskiptum af þessu tagi.


Á austurleið

Á morgun verð ég svo lánsamur að fá að fljúga austur á Egilsstaði og dvelja á Héraði næstu tíu dagana.

Hvers vegna er það lán, kynni eitthvert borgarbarnið að spyrja?

Vissulega er mannlífið blómlegt og náttúran falleg á Héraði. En aðalástæða þess, að það er mitt lán að fara austur á morgun, er samt sem áður sú, að eiginkona mín dvelur nú þar tímabundið vegna síns starfsnáms. Það má því segja, að frá áramótum höfum við verið í "fjarbúð" á sitt hvorum landshlutanum. - Ekki get ég nú almennt séð mælt með því sambandsformi, en einn kostur fylgir því þó, og það mikill: Samvistirnar verða enn meira tilhlökkunarefni en vanalega.

Meginástæða austurferðar minnar á morgun er þó önnur en heimsókn til Hlínar. Næstu vikuna mun ég nefnilega fá að vera í starfsþjálfun hjá sóknarpresti Eiðaprestakalls, sr. Jóhönnu I. Sigmarsdóttur, prófasti. Það verður dýrmætt tækifæri til að kynnast störfum landsbyggðarprests.

Ekki verður bloggað á Eiðum, en ferðasagan kemur á Netið eftir heimkomuna!


Fyrnd ofbeldisverk, harmleikur og nákvæmar lýsingar

Það hefur verið óhuggulegt að fylgjast með umfjöllun fjölmiðla, einkum Sjónvarpsins, undanfarna daga um vistheimilið Breiðuvík á Vestfjörðum, og þá meðferð, sem drengirnir þar máttu þola. Hvert fórnarlambið á fætur öðru hefur gengið fram fyrir skjöldu og lýst dvölinni þar sem lífi í stanslausum ótta við barsmíðar, andlegt ofbeldi, nauðganir og svívirðingar.

Harmur fórnarlambanna er mikill, og verði það einhverjum til hjálpar í úrvinnslu þeirrar sorgar, að greina frá hinni illu vist í fjölmiðlum, þá er til nokkurs unnið. Og vissulega verða mál af þessu tagi að komast í dagsljósið, betra er þar seint en aldrei, því að annars gætu ofbeldismenn nútíðar og framtíðar iðkað álíka athæfi án óttans við, að upp um þá kæmist.

Hitt er annað mál, að lagalega eru brot starfsmanna Breiðuvíkurheimilisins löngu fyrnd, og þeir sjálfir trúlega flestir horfnir undir græna torfu. Kallað hefur verið eftir því, að einhver, já bara einhver, taki á sig ábyrgðina á því, að ekki var fylgst betur með starfsemi heimilisins. Reyndar hafa grafalvarlegar ásakanir verið bornar á borð um það, að barnaverndarnefndarfólk þessa tíma hafi vitað af ástandi mála, en ekkert aðhafst. Ekki skil ég til hlítar, í hverju ábyrgð á málinu ætti að felast 30-40 árum eftir þennan harmleik. Það má heldur ekki blanda hefndarþorsta saman við, að landslögum sé fylgt.

Þá vakti það furðu mína, t.d. í Kastljóssþætti nú fyrr í kvöld, hve harkalega spyrill þáttarins gekk eftir við því við eitt fórnarlambanna úr Breiðuvík, að hann lýsti því ofbeldi, sem hann varð fyrir. Í stað þess að fjalla um afleiðingar ofbeldisins, og hvernig væri hægt að fyrirbyggja, að slíkur harmleikur endurtæki sig, virtist viðkomandi dagskrárgerðarmaður helst vilja heyra sem nákvæmastar lýsingar á bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, og þráspurði viðmælanda sinn í því skyni. Hvaða tilgangi þær lýsingar áttu að þjóna, veit ég ekki. 


Matvælaverð

Fátt, ef nokkuð, kemur heimilunum í landinu jafnvel og lægra verð á matvöru. Það var því fagnaðarefni, þegar ríkisstjórnin tilkynnti á síðasta ári fyrirhugaðar breytingar á sköttum og gjöldum, sem miða áttu að því, að lækka verð á matvælum til neytenda. Að sama skapi er það óþolandi, ef kaupmenn hyggjast nýta sér tækifærið í gróðaskyni og lækka ekki hjá sér matvöruverð, heldur stinga mismuninum í eigin vasa.

Sem betur fer hafa Neytendasamtökin, Samkeppnisstofnun og kannski umfram allt fjölmiðlar brugðist harkalega við meintum áformum kaupmanna um, að lækka ekki matvöruverð í samræmi við lækkanir á matarskatti. Á ríður, að íslenskir neytendur gerist meðvitaðri og virkari í afstöðu sinni til matarinnkaupa, og standi saman í að sniðganga þær vörur, sem hækka munu óeðlilega mikið í verði að raungildi.

Hátt matarverð á Íslandi er mér reyndar nokkur ráðgáta. Þann vetur, sem ég bjó í Strasbourg keypti ég yfirleitt í matinn fyrir aðeins um 15-20 evrur á viku, eða um 1500 krónur! En fylgja verður þeirri sögu, að vitanlega lifði ég spart sem námsmaður, og borðaði nánast daglega í hádeginu í einhverju skólamötuneytanna. Það var hræódýrt, og kostaði heit máltíð með léttum for- og eftirrétti aðeins 2,65 evrur eða um 250 kr., en var afar matarmikil og seðjandi. - Ég minnist þess reyndar ekki að hafa nokkurn mánuð greitt meira en 25.000 kr. samtals fyrir allan mat, húsnæði og strætókort, og oft jafnvel minna en það.

Að sama skapi er einkennilegt, að á kaffistofum Félagsstofnunar stúdenta við Háskóla Íslands skuli eitt rúnnstykki með grænmeti vera dýrara en máltíðin í Strasbourg, en slíkt brauðmeti kostar þar heilar 270 kr. Annað verðlag er eftir því, og telst þó varla hátt í samanburði við einkareknar kaffistofur, svo sem Matstofu Vesturbæjar, sem af undarlegum ástæðum fær að reka starfsemi sína á Þjóðarbókhlöðu.


Ánægjulegur dagur á Sólheimum

Þessum ljúfa laugardegi eyddi ég á Sólheimum í Grímsnesi, en þar héldu ÆSKR og Fræðslusvið Biskupsstofu ásamt KFUM & KFUK námskeið fyrir leiðtoga í kristilegu barna- og æskulýðsstarfi. Slík námskeið eru að öllu jöfnu ánægjuleg og var einnig svo í dag. Fjöldi leiðbeinenda í starfi kirkjunnar okkar hittist og uppbyggist saman til starfa.

Að þessu sinni gátu þátttakendur valið á milli tveggja örnámskeiða, annars um nýja tónlist í kirkjustarfi en hins um kyrrðar- og íhugunarstarf. Valdi ég seinni kostinn og sá ekki eftir því, enda margt að læra í þeim efnum. Á seinni árum hefur orðið hálfgerð vakning innan íslensku kirkjunnar um að kynna fyrir söfnuðunum aðferðir til kristinnar íhugunar. Má þar nefna Jesúbænina, andlegan lestur (lectio divina) og þá íhugun í tónlist, bæn og þögn, sem kennd er við Taizé-þorpið í Frakklandi. Það var mér ekki síst ljúft að hlýða á fræðslu um Taizé-starfið, þar sem upp fyrir mér rifjaðist yndisleg vikudvöl mín á þeim stað fyrir tæpum tveimur árum. - Margar þeirra aðferða til íhugunar, sem við erum nú að kynnast, eru raunar eldfornar, og standa því kyrrðarmenn föstum fótum í hefð alheimskirkjunnar.

Gaman var að sækja heim hið sérstaka samfélag að Sólheimum, þar sem bæði búa fatlaðir og ófatlaðir. Byggir starfið þar að nokkru leyti á kristilegum gildum. Var reisulegasta kirkja vígð á staðnum ekki alls fyrir löngu og þjónar nú prestur í fullu starfi Sólheimum. Sagði hann okkur, að hann héldi m.a. guðsþjónustur annan hvorn sunnudag. Sjaldan kæmu færri en 40 í messu og oft fleiri. Verður það að teljast góð kirkjusókn í samfélagi, þar sem íbúafjöldinn er aðeins rétt yfir hundraðinu!

Lesi einhverjir aðstandenda námskeiðsins í dag þennan pistil, vil ég nota tækifærið og þakka kærlega fyrir mig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband