Nei, nú hringi ég í Jón!

Nú er sko nóg komið hjá þessari þjóðkirkju! Þykist vera fyrir alla þjóðina en elskar svo bara suma en ekki alla! Þessir bannsettu, hempuklæddu hálfvitar vilja ekki gifta samkynhneigða! Þeir eru bara fullir af fordómum og þetta er brot á sjálfsögðum mannréttindum samkynhneigðra! Nú fer ég sko og skrái mig úr Þjóðkirkjunni!

-- Æi, nei, þetta var víst bara kaldhæðni... Ég ætlaði alls ekkert að segja um þetta mál en stóðst svo ekki freistinguna að gera aðeins góðlátlegt grín að þeim, sem hafa fundið hjá sér svo mikla þörf fyrir að ræða á Netinu og í blöðum í vikunni höfnun Prestastefnu á tillögu hóps presta og guðfræðinga um að beina því til Alþingis að það leyfi hjónavígslur samkynhneigðra. Mér finnst offorsið hafa verið mikið vegna einnar ályktunar og ummæli fólks ekki alltaf bera vott um málefnalega umfjöllun eða að hafa kynnt sér málin í kjölinn. (Dæmi: Leiðari Fréttablaðsins í dag.) Undantekning frá þessu er þó t.d. hin fræðilega umfjöllun sem hér er að finna.

Það er eins og fólk geri sér ekki alveg grein fyrir því að: 1) Prestastefna er ekki stjórnvald kirkjunnar og enn síður hefur hún löggjafarvald í landinu frekar en nokkur annar fundur kirkjunnar; 2) Það er í höndum Alþingis að setja lög um hjónaband og staðfesta samvist og menn ættu því að beina spjótum þangað, sé þetta þeim kappsmál; 3) Fáar kirkjudeildir í heiminum hafa gengið eins langt og Þjóðkirkjan til að koma til móts við réttindabaráttu samkynhneigðra. (Síðastnefnda atriðið helst í hendur við það, hve sú réttindabarátta er almennt ótrúlega langt á veg komin hér á landi.)

Það er alveg rétt, að kirkjan hefur ekki verið barnanna best við samkynhneigða í gegnum árin. Hún þarf að játa á sig þá synd og það ástleysi. - En lýsir það fordómum í garð samkynhneigðra, að prestar vilji almennt blessa staðfesta samvist þeirra, sbr. tillögu kenningarnefndar, sem samþykkt var? (Ég hef sjálfur kynnt mér hana og líst bara nokkuð vel á, tel hana fullkomlega ásættanlega guðfræðilega.) Eða lýsir það fordómum að vilja, að kenningarnefnd taki til umfjöllunar tillögu um að óska eftir að prestar verði löggiltir vígslumenn staðfestrar samvistar samkynhneigðra - án þess þó að vilja víkja frá aldalangri hefð kirkjunnar í skilningi á hjónabandshugtakinu? Ég lýsi eftir svörum, og einnig við því, hvers vegna það er "mannréttindabrot" að vilja setja spurningarmerki við hjónavígslu samkynhneigðra (en sjá ekkert athugavert við staðfesta samvist þeirra).

En jæja! Kannski er maður bara sjálfur fullur af fordómum úr því maður lætur svona. Hér er þörf á íhugun og bæn:

Drottinn Guð! Ljúk upp augum okkar fyrir sannleikanum í þínu Orði, svo að við fáum skilið, hver þinn vilji sé í öllum málum. Blessa þú samkynhneigða og hjálpa okkur að yfirvinna fordóma í þeirra garð. Fyrirgef okkur öllum þann sársauka, sem við kunnum að hafa valdið þeim með viðhorfum okkar og hleypidómum. Blessa þú íslensku Þjóðkirkjuna og varðveit eininguna í hennar röðum. Í Jesú nafni. Amen.


Verndum þau!

Þrátt fyrir annir við prófundirbúning í ritskýringu Jóhannesarguðspjalls gaf ég mér tíma nú í kvöld til að sækja þarft og áhugavert námskeið, sem KFUM & KFUK skipulagði fyrir starfsfólk sitt og sjálfboðaliða í starfi með börnum og unglingum. Nefnist námskeiðið "Verndum þau!" og fylgir eftir samnefndri bók tveggja starfsmanna Barnahúss um vanrækslu, líkamlegt, kynferðislegt og andlegt ofbeldi gagnvart börnum, hvernig ber að þekkja einkenni þessa, ræða við börn sem vilja segja frá og tilkynna barnaverndaryfirvöldum.

Þó að ekki sé ég hlutlaus dómari um verk KFUM & KFUK, finnst mér það framtak félagsins, að senda allt sitt fólk á þetta námskeið, gefa því bókina með og kynna því skýrar verklagsreglur félagsins í málum er varða ofbeldi gegn börnum, til mikillar fyrirmyndar og sóma fyrir félagið. Það hreyfði vissulega við mönnum á sínum tíma þegar karlmaður, sem tengst hafði starfi KFUM og Vatnaskógar um tíma, var dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn börnum, og nú er unnið mjög markvisst að því innan hreyfingarinnar, að vel sé staðið að þessum málum. Framkvæmdastjóri og fræðslufulltrúi KFUM & KFUK fá hrós dagsins!


Hafragrautur góður er

Ég hef brugðið út af vana mínum síðustu tvo morgna og soðið mér hafragraut í morgunmat.

Ég hef komist að því, að til að hafragrauturinn verði verulega bragðgóður - eins og hjá ömmu í sumarbústaðnum í gamla daga - þarf að setja vel af sykri og salti saman við hann, og helst rjómabland út á. (Hef reyndar ekki búið svo vel að eiga rjóma, enda mega línurnar varla við slíkum munaði þessa dagana.)

Hitt er annað mál, að hafragrautsneysla hlýtur að byggja mann vel upp fyrir þá stórgöngu, sem ég stefni að í sumar - Laugavegurinn í ágúst!


Sókrates, dauðinn og hjónabandið

Seinasti hausverkur annarinnar í skólanum áður en próflesturinn tekur við í allri sinni dýrð, er að reka smiðshöggið á ritgerð um upprisuna í frumkristnu samhengi, en sú ritgerð er lokapróf í áfanganum "Stef í guðfræði Nýja testamentisins: Dauðinn á milli Jesú og Páls" hjá dr. Jóni Ásgeirssyni, prófessor. Eitt viðfangsefna minna í ritgerðinni er samanburður á kristnum og platónskum hugmyndum um dauðann og framhaldslíf sálarinnar, og því hef ég verið að endurnýja kynnin við gamlan vin úr MR, Síðustu daga Sókratesar eftir Platón, safn þriggja rita frá fjórðu öld f. Kr. sem öll hafa að gera með dauða heimspekingsins Sókratesar. Ég stenst ekki freistinguna að deila með lesendum síðunnar tilvitnun í seinasta ritið, Faídón, þar sem Platón leggur Faídóni nokkrum í munn frásögn af örlögum Sókratesar. Hann hefur, þegar hér er komið sögu, verið handtekinn og dæmdur til dauða, og bíður örlaga sinna:

"Þegar við komum inn, hittum við Sókrates nýleystan úr fjötrunum og Xanþippu - sem þú kannast við - (innsk. Xanþippa var kona Sókratesar) sitjandi hjá honum með son hans í kjöltunni. Þegar Xanþippa sá okkur, hljóðaði hún upp yfir sig og talaði líkt og konum er títt: "Ó, Sókrates! Nú tala vinir þínir við þig í síðasta sinn og þú við þá!" Þá leit Sókrates til Krítóns og mælti: "Krítón, láttu einhvern fara með hana heim." Einhverjir förunautar Krítóns fóru þá burt með hana, en hún hljóðaði og barði sér á brjóst."

Segið svo ekki að kvenfrelsisbaráttan hafi engu skilað á 2400 árum!


Töfrandi helgihald rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar

Líkt og fram hefur komið hér á síðunni, sit ég um þessar mundir námskeiðið Kirkjudeildafræði hjá dr. Pétri Péturssyni, prófessor við guðfræðideild, og einn liður í þeim kúrsi er að heimsækja guðsþjónustur fjögurra utanþjóðkirkjusafnaða og skila um heimsóknirnar örskýrslu. Heimsótti ég með nemendahópnum nú fyrr á misserinu samkomu hjá Hvítasunnusöfnuðinum Fíladelfíu og minningarmáltíð um dauða Jesú í Ríkissal Votta Jehóva. Síðarnefndu vísitasíunni hafa þegar verið gerð skil hér á blogginu. En tvær hinna skipulögðu heimsókna stúdentahópsins með kennaranum komst ég því miður ekki í, til rússneska rétttrúnaðarsafnaðarins, Sólvallagötu 10, og í rómversk-kaþólsku kirkjuna. Er ég að bæta fyrir það nú um helgina, enda ekki seinna vænna að ljúka skyldum námskeiðsins af, nú þegar kennslu á önninni er lokið í guðfræðideild.

Í kvöld heimsótti ég semsagt Söfnuð Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík og var viðstaddur um klukkustundar langan aftansöng (Vesper) að sið orþódoxu kirkjunnar. Var ég að enda við að skrifa örskýrslu mína um þá heimsókn og læt hana fylgja hér með til gamans og fróðleiks:

Rússneski rétttrúnaðarsöfnuðurinn í Reykjavík er með yngri, kristnum trúfélögum landsins. Aðstaða hans til helgihalds er í samliggjandi borðstofu og stofu í heimahúsi við Sólvallagötuna í Reykjavík. Var stúdentinn reyndar óviss um, að hann hefði rambað á réttan stað, þegar hann gekk hikandi inn um ólæstar dyr hússins, sem virtist í fyrstu mannlaust, rétt fyrir klukkan sex á laugardagskvöldi. Á endanum birtust þó prestur safnaðarins, faðir Timofej, aðstoðarmaður hans karlkyns og svo þrjár konur, sem tóku þátt í helgihaldinu auk þeirra og mynduðu n.k. kirkjukór. Stærri varð söfnuðurinn ekki þetta skiptið, en öll voru þau gestinum úr guðfræðideildinni afar elskuleg og vildu, hvert með sinni tungumálakunnáttu, allt gera til að honum liði vel og skildi hvað fram færi í guðsþjónustunni, hvað íkonar kirkjunnar sýndu o.s.frv.Og hér var aldeilis engu myndbanni fyrir að fara! Þrátt fyrir frumstæðar aðstæður til helgihalds hafði fjölmörgum íkonum verið komið fyrir í „kirkjuskipinu“ eða stofunni, þar sem söfnuðurinn hélt til í messunni, stórir stjakar voru fyrir kerti og reykelsi, og ýmsar, trúarlegar myndir skreyttu veggina. Hlið, sem loka mátti með glerdyrum, skildi að „kirkjuskipið“ í stofunni a.v. og hið helga rými í upprunalegu borðstofunni h.v. Þar var bæði háaltari, myndir á veggjum og hliðarborð með efnum kvöldmáltíðarinnar.Þar sem heimsóknin fór fram á laugardagskvöldi var ekki sungin hámessa eða „heilög litúrgía“ með altarissakramenti, líkt og á sunnudögum, heldur einungis sungin kvöldbænaguðsþjónusta eða aftansöngur (Vesper). Athöfnin fór að mestu fram á kirkju-slavnesku, en fyrir hana hafði presturinn afhent gestinum yfirlit yfir liði guðsþjónustunnar bæði á því tungumáli og á ensku, og var það afar hjálplegt. Auk þess söng hann sumar bænir á ensku, eflaust til að auka á skilning nemandans. Samanstóð aftansöngurinn einkum af margvíslegri bænagjörð og litaníu, víxlsöng prests og safnaðar, og var það bænahald brotið upp með sálmasöng safnaðarins. Í upphafi stundar og aftur í seinni hluta hennar gekk prestur um bæði rýmin, hið heilaga og kirkjuskipið, með reykelsisker og dreifði ríkulega af góðilmi þess. Söfnuðurinn stóð alla hina formlegu athöfn, en að henni lokinni settist hann og hlýddi á hugvekju eða örpredikun prestsins út frá þema dagsins í hinu orþódoxa kirkjuári, smurningu kvennanna á líkama Jesú. Tókst föðurnum að flétta saman við þetta og koma þannig á framfæri andstöðu rétttrúnaðarkirkjunnar við samkynhneigð!Það verður að viðurkennast, að stúdentinum þótti litúrgía rússnesku kirkjunnar þessa kvöldstund við Sólvallagötuna með eindæmum falleg og hreifst hann bæði af söng, helgimyndum og reykelsum. Djúp virðing fyrir hinu heilaga og fyrir hefð kirkjunnar einkenndi helgihaldið, sem þrátt fyrir að því er virtist flókna umgjörð rann svo áreynslulaust í meðförum hins fámenna og lítilláta hóps frá Austur-Evrópu, að unun var á að hlýða – jafnvel standandi í heila klukkustund!

 


Lokapredikanir við guðfræðideild

Þegar líður að lokum embættisnáms í guðfræði við Háskóla Íslands er einn síðasti áfanginn í náminu flutningur opinberrar lokapredikunar í kapellu Háskólans. Nú er lokapredikanatíð í guðfræðideild, fyrir viku síðan fluttu Ásta Pétursdóttir og S. Hrönn Sigurðardóttir sínar ræður og í dag var komið að þeim Ninnu Sif Svavarsdóttur og Sunnu Dóru Möller. Í maí flytja svo lokapredikanir Sigrún Birgisdóttir og Grétar Halldór Gunnarsson.

Það er ánægjulegt að vera viðstaddur þennan lokaáfanga í námi samnemenda sinna, sem útskrifast í vor eða haust. Ninnu og Sunnu tókst báðum prýðisvel upp nú áðan og mega vera stoltar af sínum predikunum. Óska ég þeim til hamingju og einnig Hrönn og Ástu. Eiga eflaust allar eftir að standa oft í predikunarstól í framtíðinni með góðum árangri.

Ekki spilltu kaffiveitingarnar að athöfn lokinni nú áðan fyrir, en kirkjukaffi er góður siður og nauðsynlegt að byrja að leggja stund á hann strax í guðfræðináminu!


Sumardagurinn frysti

Fyrirsögn þessarar færslu er vísun í óborganlegan brandara sem ég sagði í hlutverki Rebba refs í sunnudagaskólanum síðasta sunnudag. Sem betur fer gátu börnin leiðrétt þennan misskilning Rebba og komið honum í skilning um, að næsti fimmtudagur kallaðist sumardagurinn fyrsti en ekki frysti!

Sá dagur er nú upp runninn og viti menn, það er bara bjart og yndislegt veður hér í höfuðborginni þó að sumar og vetur hafi frosið saman á slóðum eiginkonunnar austur á landi. Dagurinn í dag er jafnan helgaður skátahreyfingunni, sem gjarnan er í fararbroddi fyrir skrúðgöngum og öðrum hátíðahöldum í tilefni sumarkomu. Ein árlegra skátahefða á sumardeginum fyrsta er skátamessa í Hallgrímskirkju, sem útvarpað er á Rás 1. Var ég að enda við að hlýða á þessa fallegu guðsþjónustu, og er þetta indæl hefð.

Það er þó ekki laust við að maður velti fyrir sér eðli predikunarinnar á stundum sem þessum. Venjan er, að skátahöfðingi flytji útvarpspredikun dagsins á þessum degi. Var ræða Margrétar Tryggvadóttur skátahöfðingja ágæt hugvekja um æskulýðsstarf almennt og kynning á starfi skátahreyfingarinnar. Sömu sögu var að segja um þá ræðu, sem flutt var við þetta tilefni fyrir ári síðan. En predikanir eru þetta ekki, enda ekkert minnst í þessum ræðum á Guð eða hans orð. Það er umhugsunarefni, hvort samstarf skáta og kirkju á þessum degi þurfi að þýða, að boðun Orðsins víki fyrir kynningu á skátastarfinu. Getur þetta tvennt ekki haldist í hendur?

Nóg um það, sjálfur er ég á leið upp í Grafarholt þar sem sóknarnefndin hefur frá upphafi staðið fyrir skrúðgöngu og helgistund á sumardaginn fyrsta. Nú hafa margir aðilar bæst í hópinn við þessi hátíðahöld, íþróttafélag hverfisins, ÍTR og fleiri, og er það mjög ánægjulegt. En helgistundin víkur auðvitað ekki - og verður væntanlega fjölsóttasta helgistund ársins í sókninni í ár líkt og fyrir ári síðan, þegar vel á þriðja hundrað manns fylltu sal Ingunnarskóla.


Magnús og Munk

Á sunnudaginn var ég svo lánsamur, að mér áskotnaðist merkisbók, predikanasafnið "Við Babýlons fljót" frá 1944 eftir danska prestinn og skáldið Kaj Munk í þýðingu Sigurbjarnar Einarssonar biskups. Bókina færði mér að gjöf Sigríður Grafarholtsprestur Guðmarsdóttir, að eigin sögn fyrir gott samstarf í vetur. Upphaflega keypti hún bókina að gamni sínu á fornbókasölu, en ákvað að gefa mér hana þegar úr henni datt bréfmiði sem á var skrifað stutt sendibréf, undirritað "Magnús."

Ég hafði legið svo lengi yfir dagbókum og handrituðum predikunum séra Magnúsar Runólfssonar (d. 1972), prests og framkvæmdastjóra KFUM í Reykjavík um árabil, við undirbúning BA-ritgerðar minnar í guðfræði um hann á síðasta ári, að ég var ekki nema sekúndubrot að staðfesta þann grun séra Sigríðar, að bréfið sem datt út úr bókinni, var skrifað af honum. Bréfið skrifar hann til "Margrétar og Sveinbjargar," trúlega gegnra KFUK-kvenna eða annarra vinkvenna hans, og er aðalefni þess að þakka fyrir gjöf sem þær hafa fært honum, "allt jarðríki og íslenzka fánann blaktandi yfir," eins og hann orðar það - trúlega hnattlíkan! Einkum skrifar þó séra Magnús um það, hve feiminn hann sé við að þiggja gjafir og finnist margir þurfa frekar á slíku að halda en hann. Segir þetta ýmislegt um persónuleika séra Magnúsar!

Gaman væri, ef einhverjir þekktu til umræddra Margrétar og Sveinbjargar, og gætu sagt mér frá þeim og tengslum þeirra við séra Magnús, annaðhvort hér í athugasemdakerfi síðunnar eða persónulega.

Bók Munks sjálf er komin á náttborðið hjá mér og hef ég þegar lesið þær predikanir, sem heyra til páskatímanum og fyrstu sunnudögunum eftir páska. Þetta er góð lesning, skýr boðun fagnaðarerindisins á kjarnyrtu máli. Ekki spillir þýðing séra Sigurbjarnar fyrir. Kaj Munk fæddist laust fyrir aldamótin 1900 og starfaði sem prestur í lítilli sókn í Danmörku frá því að hann lauk guðfræðiprófi og uns hann mátti gjalda fyrir andspyrnu sína gegn nasistum með lífi sínu árið 1944, sama ár og fyrrnefnd bók kom út, og ber hún þessa máls allnokkur merki. Munk var þekktur leikritahöfundur og skáld og misminni mig ekki setti Guðrún Ásmundsdóttir upp leikrit um ævi hans fyrir nokkrum árum hér á Íslandi. (Þeir leiðrétti mig, sem betur vita.)


Sunnudagsbíltúr í fermingarveislu

Tinna Björk Magnúsdóttir, þremenningur við mig, var fermd í morgun af síra Gunnari Björnssyni í Selfosskirkju. Fórum við Hlín ásamt frændgarði mínum í sunnudagsbíltúr austur fyrir fjall eftir hádegið í fermingarveislu hennar, en ekki vorum við nægilega skyld fermingarbarninu til að vilja fara í fermingarmessuna sjálfa, og auk þess stýrði ég vel sóttri lokasamveru sunnudagaskóla Grafarholtssóknar kl. 11 í morgun. Góðan róm heyrði ég hins vegar gerðan að athöfn síra Gunnars.

Veislan var haldin í samkomusalnum Stað á Eyrarbakka, og var vel veitt af keti og kökum eins og minna ágætu, sunnlenska ættmenna var von og vísa. Veður var bjart og gaman að keyra Þrengslin, og ekki síður að koma á Eyrarbakka sjálfan. Það er snyrtilegur bær og nokkuð sjarmerandi, enda töluvert af gömlum húsum þar. Nálægðin við Litla-Hraun myndi alls ekki fæla mig frá að búa þar, ef svo bæri undir. Aksturinn frá höfuðborginni er styttri en margan grunar, vart nema hálftími frá borgarmörkunum. Kirkjan er forn og falleg. Óhætt að mæla með sunnudagsbíltúr á Eyrarbakka.

 


Gott framtak þjóðkirkjupresta gegn óásættanlegum málflutningi

Í fréttum um páskahelgina kom fram, að átta þjóðkirkjuprestar hafa nú tekið sig saman og kært ummæli sr. Hjartar Magna Jóhannssonar, safnaðarprests Fríkirkjunnar í Reykjavík, sem hann viðhafði í fréttaþættinum Kompási á Stöð tvö á dögunum, til Siðanefndar Prestafélags Íslands. Nú í kvöld mætti svo fríkirkjupresturinn einum þjóðkirkjuprestanna átta, sr. Írisi Kristjánsdóttur, sóknarpresti í Hjallakirkju í Kópavogi, í umræðum í Íslandi í dag, einnig á Stöð tvö.

Þykir mér þetta framtak þjóðkirkjuprestanna átta afar ánægjulegt, og má ljóst vera, eins og fram kom í sjónvarpsumræðunum í kvöld, að hin tilteknu ummæli í Kompási hafi aðeins verið dropinn, sem fyllti mælinn, eftir margvíslega og oft á tíðum afar harðorða gagnrýni fríkirkjuprestsins í garð Þjóðkirkjunnar og hennar þjóna. Sú gagnrýni hefur m.a. átt sér stað úr predikunarstóli Fríkirkjunnar í Reykjavík í útvarpsguðsþjónustum.

Það var einkennilegt að horfa upp á sr. Hjört Magna reyna að afsaka þau ummæli sín í Kompási, að "sérhver trúarstofnun, sem telji sig höndla sannleikann, sé samstundis orðin djöfulleg" með því, að þeim hafi ekki verið beint sérstaklega gegn Þjóðkirkjunni. Verður að telja þetta eitt af mörgum dæmum um rangfærslur sr. Hjartar Magna, enda fjallaði sjónvarpsþátturinn sérstaklega um Þjóðkirkjuna og beindu viðmælendur, ekki síst sr. Hjörtur Magni, spjótum sínum að henni. Þá þótti mér ekki síður furðulegt og til marks um sérkennilegan sjálfsskilning sr. Hjartar Magna, þegar hann líkti sjálfum sér við siðbótarmanninn Martein Lúther í gagnrýni sinni á kirkjustofnunina. Það gleymdist reyndar hjá honum í þeim samanburði að minna á, að Lúther ætlaði sér aldrei að kljúfa kaþólsku kirkjuna, heldur vildi gagnrýna hana og siðbæta innan frá. Ég hef hins vegar ekki heyrt sr. Hjört Magna gagnrýna sitt eigið trúfélag, aðeins annað, tiltekið trúfélag, sem er honum ekki í neinu skylt.

Og þó! Ef vel er að gáð er samstarf Þjóðkirkjunnar margvíslegt við evangelísk-lúthersku fríkirkjurnar í landinu. Biskup Íslands vígir t.a.m. presta Fríkirkjunnar í Reykjavík, og hafa reyndar langflestir prestar hennar verið upphaflega vígðir til þjónustu innan Þjóðkirkjunnar, þ.m.t. sr. Hjörtur Magni sjálfur! En sr. Ása Björk Ólafsdóttir, sem vígð var af biskupi Íslands ekki alls fyrir löngu til þjónustu við Fríkirkjusöfnuðinn við hlið sr. Hjartar Magna, er þó undantekning frá þessu. - Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að eiga í svo nánu samstarfi við trúfélag, þar sem forstöðumaðurinn vinnur með markvissum hætti gegn starfi hennar og etur hana auri? Það skil ég varla.

Og ekki skildi ég heldur, hve vel sr. Írisi Kristjánsdóttur tókst að halda ró sinni gegn sr. Hirti Magna í sjónvarpsumræðunum nú í kvöld. Frammistaða hennar þar var aðdáunarverð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband