Miðvikudagur, 22. ágúst 2007
Dýralíf á Eiðum
Ég er nú kominn aftur hingað austur á land til að eyða síðustu dögum sumarsins, fram að skólabyrjun, við Eiðavatn. Kirkjumiðstöðin hér hefur verið aðsetur Hlínar seinustu vikurnar þar sem hún hefur starfað á Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs á Egilsstöðum í sumarafleysingum frá því að sumarbúðastarfinu lauk hér í lok júlí, og reyndar einnig áður en sumarbúðirnar hófust í júní. Sjálfur er ég að leggja lokahönd á kjörsviðsritgerðina mína (lokaritgerðina) við guðfræðideild og er reyndar auk þess að byrja að líta í námsbækur haustsins og huga að upphafi vetrarstarfsins í Grafarholtinu.
Þó að ég sitji einn við á skrifstofu Kirkjumiðstöðvarinnar er ekki hægt að segja að ég sé einn hér á lóðinni. Reyndar er ég eina mannskepnan - svo ég viti til í það minnsta - en dýralíf er heilmikið hér í kringum húsið. Fyrst ber þar að nefna rjúpurnar, sem hafa verið duglegar við að gera sér hreiður í grennd við húsið í sumar. Ég leitaði stundum að hreiðrum með áhugasömum börnum í sumar, og nú er gaman að sjá ungana vera orðna stóra og að reyna að fljúga úr hreiðrinu. Það verður þó að gæta vel að bílferðum á afleggjaranum að húsinu, því að rjúpurnar eru býsna margar, fara ekki allar mjög hratt yfir og eiga það til að þvælast fyrir manni á veginum.
Land Kirkjumiðstöðvarinnar er afgirt og ristarhlið á akvegi, en engu að síður er greinilegt að girðingin er ekki fjárheld, og þyrfti að gera bót á því. Töluvert af sauðfé hefur nefnilega slæðst inn fyrir girðingu í sumar, og myndi ég áætla að nú væru á lóðinni a.m.k. 15-20 rollur. Þær fara þó ekki vitund í taugarnar á mér, og getur jarm fyrir utan gluggann bara verið ósköp notalegt. Þó var sárt að sjá eitt svart lambið á harðaspretti við eldhúsgluggann í morgun, þegar ég var að borða morgunmat, greinilega í leit að mömmu sinni. En ég er hræddur um, að ég hefði gert meira ógagn en gagn, hefði ég reynt að koma því til hjálpar!
Að síðustu má nefna lífríki vatnsins. Það hefur komið mér heilmikið á óvart í sumar, hve mikið börnin gátu veitt í Eiðavatni í sumarbúðadvöl sinni, og eiginlega ættum við Hlín að skella okkur út á bát við tækifæri og reyna að veiða okkur til matar! En í morgun sá ég líka talsvert af álftum niðri við vatnið, og hef ég ekki séð það áður í sumar. Það var falleg sjón, ef ekki fallegri heldur en svanirnir á Tjörninni í Reykjavík, sem máfarnir blessaðir eru víst búnir að hrekja flesta í burtu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Kvennaguðfræði
Er þörf á sérstakri kvennaguðfræði? Já, segja margar konur úr hópi guðfræðinga, þar sem guðfræðin hefur í gegnum tíðina verið skrifuð af körlum, fyrir og um karla. Biblíuna þarf að túlka í ljósi feðraveldishugsunar samtíma hennar með það fyrir augum að gera boðskap hennar aðgengilegan og frelsandi fyrir konur á öllum tímum. - Og þau síðustu fjögur ár, sem ég hef numið guðfræði við Háskóla Íslands, hefur allnokkur tími farið í að kynna sér þessa hlið guðfræðinnar innan hinna sérstöku fræðigreina hennar, þ.e. á hvern hátt femínistar fara höndum um t.d. trúfræði, siðfræði og kirkjusögu. Sitt sýnist auðvitað hverjum um þessa áherslu, eins og gengur.
Á bókasafninu um daginn rakst ég á rit, sem miklu máli skiptir fyrir kvennaguðfræði á Íslandi, og ákvað að renna í gegnum það. Hér er um að ræða bókina Vináttu Guðs eftir séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur. Eins og flestir vita braut séra Auður blað í sögu íslenskrar kirkju árið 1974, er hún vígðist fyrst kvenna hér á landi til prests. Hún hefur rannsakað kvennaguðfræði árum saman, er einn stofnenda Kvennakirkjunnar og prestur hennar seinasta áratuginn, en lét af störfum á þessu ári fyrir aldurs sakir.
Vinátta Guðs er á margan hátt heillandi bók. Hún skýrir sjónarmið kvennaguðfræðinnar með mjög aðgengilegum hætti, og reynir að leiða lesendum fyrir sjónir á hvern hátt tal um "hana Guð," femínísk túlkun á biblíutextum og leit að kvenfyrirmyndum í kirkjusögunni, svo nokkur dæmi séu nefnd, geti auðveldað konum leiðina til einlægrar trúar. Mikilvægast er, að þó að séra Auður Eir hafi ýmislegt sagt og gert sem kann að hafa hneykslað, ekki síst sú aðferð hennar að tala um Guð í kvenkyni, víkur hún aldrei frá postullegri hefð kirkjunnar. Hún stendur föstum fótum í trú sinni á þrenninguna, á skaparann Guð, á frelsunarverk Jesú Krists og á mátt Heilags anda. Hún rífur ekkert niður af klassískri kenningu, en hún dýpkar mjög margt og víkkar. Hún bendir á ýmis trúarbrögð, sem konur hafa leitað til í því skyni að styrkja sjálfsmynd sína, svo sem átrúnað norna, en hún mælir ekki með þeim við lesendur sína, heldur gerir þeim fullkomlega ljóst að hún sjálf sé kristin og sæki sér styrk í kristinn trúararf - og umfram allt í vináttu sinni við Guð. Guð Auðar Eirar er Guð Biblíunnar, Guð sem birtist í Jesú Kristi. Það er hún Guð jafnt sem hann Guð, Guð sem er vinkona og vinur, Guð sem huggar, styrkir, frelsar og er alltaf nálægur, Guð sem lætur sér annt um konur jafnt sem karla.
Það er hvorki rangt né óbiblíulegt að tala um Guð í kvenkyni, ekki frekar en karlkyni, þar sem Guð er auðvitað hvorki kona né karl, heldur andi, líf, ljós, kærleikur - en samt persóna, þríein persóna. Það er heldur ekkert rangt - heldur getur það þvert á móti verið mjög jákvætt - að leita að jákvæðum orðum Krists um konur, leita að kvenfyrirmyndum í Biblíunni og kirkjusögunni, sterkum konum sem kristnar konur og karlar í samtímanum geta litið til. Og enn síður er það rangt að leggja áherslu á nálægð og vináttu Guðs við okkur öll. Það sem helst er hægt að gera athugasemd við í guðfræði Auðar Eirar er að mínum dómi það, að hún gerir fulllítið úr því eðli Guðs að hann sé hátt upp hafinn og heilagur Guð. Að mínu viti er það undur kristindómsins, að hinn hái og helgi Guð sé líka sínálægur í anda sínum, að skapari himins og jarðar hafi gerst maður í Jesú Kristi vegna elsku til mannanna.
Hvað sem því líður er kvennaguðfræði í anda Auðar Eirar fullkomlega ásættanleg og rúmlega það fyrir kirkjuna okkar. Það þýðir alls ekki að hún eigi að vera eina guðfræðin okkar, en hún má gjarnan rúmast þar einnig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9. ágúst 2007
Í strætó
Svo háttar til á höfuðborgarsvæðinu, að byggð er óvenju dreifð, sé tekið mið af öðrum höfuðborgum. Íslendingar kjósa að hafa svolítið rými í kringum sig, búa í rúmgóðu íbúðarhúsnæði, gjarnan með stóra garða við hús sín. Spölur getur verið á milli nærliggjandi íbúðahverfa. Kannski er hér á ferð arfur bændasamfélagsins. Það eru víst ótrúlega fáar aldir síðan ekkert þéttbýli var á Íslandi, nema helst í kringum biskupsstólana, Hóla og Skálholt, og enn styttra er síðan meirihluti Íslendinga bjó í dreifbýli. Kannski er uppbygging Reykjavíkur dæmi um "dreifbýli í þéttbýlinu," ef svo má að orði komast.
Ég er nú að ræða þetta hér til að verja Strætisvagnasamlag höfuðborgarsvæðisins í nokkrum orðum. Það er enginn hægðarleikur að setja upp leiðakerfi og tímaáætlun fyrir almenningssamgöngur á hinu dreifbýla Stór-Reykjavíkursvæði, allra síst ef markmiðið er að koma farþegum á sem skemmstum tíma á milli bæjarhluta. Leiðakerfi Strætós bs. er gjarnan gagnrýnt og eflaust má alltaf reyna að bæta það. Þó tel ég varla að leiðakerfið sjálft verði mikið betra en nú er, meðan aðstæður á höfuðborgarsvæðinu eru með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, þ.e. uns byggð er tekin að þéttast hér allverulega. Það gæti tekið aldir.
Á hinn bóginn má margt gera til að bæta þjónustu við farþegana, annað en að gera breytingar á leiðakerfinu. Skref hefur verið stigið í þá átt að gera leiðakerfið aðgengilegra með því að allar biðstöðvar hafa nú sitt nafn, eins og tíðkast erlendis. Það er ekki síst hjálplegt fyrir erlenda ferðamenn. Enn betra væri fyrir þá - og reyndar okkur Íslendingana líka - að á hverri biðstöð væri tímaáætlun viðkomandi stöðvar, þannig að auðveldara reyndist að finna út, hvenær von væri á næsta vagni. Oft getur tekið dágóðan tíma að átta sig á því, jafnvel fyrir þá, sem kunnugir eru í borginni.
Þá mætti bæta aðstöðu farþega til að greiða fargjöld til muna, t.d. með því, að vagnstjórar gætu gefið til baka af fargjaldi, og með því, að strætókort og afsláttarkort með nokkrum ferðum væru til sölu víðar en nú gerist. Einhvern tíma minnist ég þess, að hafa getað keypt strætómiða í bókabúðinni á Seltjarnarnesi. En því miður er langt síðan, reyndar svo langt, að ef forsvarsmenn Strætós reyndu nú að leita til þessarar búðar um að selja farmiða, gripu þeir heldur en ekki í tómt, þar sem langt er um liðið síðan hún lagði upp laupana. Það var þó ekki alslæmt fyrir Seltirninga, þar sem Bónusverslun hefur til skamms tíma verið, þar sem bókabúðin var áður, en einnig Bónusverslunin virðist nú eiga að hverfa af Hrólfsskálamelnum á Nesinu og víkja fyrir íbúðablokkum. En það er svo sem önnur saga.
Aftur að strætó. Best af öllu væri auðvitað, ef fargjöld væru engin í strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins. Það er reyndar ekki alveg víst, að aðsókn í vagnana myndi aukast til muna, ef svo yrði, þar sem Reykvíkingar eru miklir einkabílsvinir. Það var því afskaplega skynsamlegt af borgaryfirvöldum - og hagstætt fyrir okkur nemendurna - að hafa nú í vetur, í tilraunaskyni, ókeypis í strætó fyrir nemendur framhalds- og háskóla. Ég fagna þessu mjög og mun sjálfur reyna að taka strætó sem oftast í vetur. Reyndar er ég búinn að finna út, að það muni taka okkur Hlín tæp þrjú kortér að ferðast með strætó úr Þórðarsveignum í Háskólann á morgnana, miðað við núverandi tímaáætlun. En það tekur líka sinn tíma að keyra, og sé tekið með í reikninginn, hve bensínverð er orðið hátt, verðum við líklega á þokkalegasta tímakaupi við bensínsparnað í ókeypis strætóferðunum í vetur! Í þokkabót finnst mér alveg drepleiðinlegt að keyra um borgina í mikilli umferð á morgnana, og finnst hreint ekki slæmt að sleppa við það.
Það gæti oltið á viðbrögðum okkar framhalds- og háskólanema við þessari nýjung hjá Strætó í vetur, hvort framhald verður á, og jafnvel, hvort fargjöld yrðu afnumin í vögnunum. Það er þýðingarmikið, að við nemendur sýnum borgaryfirvöldum í verki, að ókeypis almenningssamgöngur séu nýttar af þeim, sem eiga kost á. Takist með tímanum að fjölga farþegum í reykvískum strætisvögnum til verulegra muna, munu umhverfisáhrifin ekki láta á sér standa í formi miklu minni útblásturs- og svifryksmengunar.
Og eitt að lokum til að hæla Strætó bs. Í gær skráði ég mig á vefsíðu fyrirtækisins, til að fá leiðabók strætisvagnanna senda heim. Ekki þurfti ég að bíða lengi. Bókin kom heim til mín í dag, og ekki þurfti ég að borga krónu fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 8. ágúst 2007
Svar við klukki eiginkonunnar
Ekki verður lengur undan því vikist að tína til átta staðreyndir um mig sjálfan, úr því að sjálf eiginkonan er búin að "klukka" mig! Hér koma þær:
1. Ég er kvæntur en bý samt í foreldrahúsum þessa dagana, þar sem Hlín er enn að vinna fyrir austan og við bíðum eftir að fá nýju íbúðina okkar afhenta um mánaðamótin.
2. Ég hef óviðráðanlegan, og að margra dómi afar einkennilegan, áhuga á messunni og helgisiðum kirkjunnar, en reyndar einnig flestu öðru sem tengist guðfræði.
3. Ég er alinn upp í Reykjavík, á Seltjarnarnesi og síðast en ekki síst á Laugum í Reykjadal, Suður-Þingeyjarsýslu.
4. Ég er þó einkum ættaður úr Árnessýslu, úr Flóanum og Hrunamannahreppi, en einnig af Ströndum og úr Reykhólasveitinni.
5. Minn uppáhaldsmatur er íslenskt lambalæri með kartöflum, brúnni sósu, rauðkáli og grænum baunum.
6. Ég bjó einn vetur í Strasbourg, Frakklandi, og gæti vel hugsað mér að búa aftur erlendis, t.d. í Þýskalandi, Frakklandi eða á Norðurlöndunum.
7. Þegar ég var níu ára heimsótti bekkurinn minn Mjólkursamsöluna, og er sú heimsókn mér enn í fersku minni, þó að ekki hafi ég síðar stigið þar inn fæti, né hafi uppi áform um að gerast mjólkurfræðingur.
8. Ég ákvað 17 ára gamall að læra guðfræði og gerast ef til vill einn daginn prestur. Hef ekki séð eftir guðfræðináminu, hvað síðar verður með prestsskapinn á framtíðin eftir að leiða í ljós.
Þá er það komið. Var ekki svo erfitt og reyndar nokkuð skemmtilegt fyrir mig, en eflaust drepleiðinlegt fyrir lesendur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 2. ágúst 2007
Einkennilegar lyfsöluaðferðir
Umfjöllun Blaðsins í síðustu viku um samkeppni, eða öllu heldur fákeppni, á lyfjamarkaðnum, var athyglisverð og á Blaðið þakkir skildar fyrir hana. Þar var það staðfest, sem mig hefur lengi grunað, að fyrirtækin Lyfja annars vegar og Lyf og heilsa hins vegar skipti íslenskum lyfjamarkaði á milli sín, ryðji minni samkeppnisaðilum út úr sínum rekstri og píni svo upp lyfjaverðið.
Tveir lyfsalar af landsbyggðinni sögðu í Blaðinu, að þeir hefðu aðeins átt tvo kosti gagnvart stóru lyfjafyrirtækjunum: að selja þeim rekstur sinn eða eiga á hættu að fara á hausinn í óviðráðanlegri samkeppni, þar sem ýmsum brögðum er beitt. Lyfsalinn á Akranesi sýndi kvittanir, sem sýndu svo ekki verður um villst að annað stóru fyrirtækjanna býður upp á töluvert lægra verð á Akranesi, væntanlega til að ryðja sjálfstæða samkeppnisaðilanum þar út af markaðnum, en í vesturbæ Reykjavíkur.
Lyfsölum er í sjálfsvald sett að haga sér með þessum hætti. En það er líka full ástæða til að reyna að sniðganga fyrirtæki, sem þetta gera. Það er neytendum í sjálfsvald sett. Það er reyndar erfitt að finna apótek á höfuðborgarsvæðinu, sem ekki tilheyrir stóru keðjunum. Eitt slíkt er þó Rima-apótek í Grafarvoginum. Þar er verðið hóflegt og gott úrval lyfja og annarra apóteksvara.
Í vor vantaði mig lyf, sem ég tek reglulega vegna sjúkdóms míns í nýrnahettum. Brá svo við, að ég uppgötvaði skömmu fyrir utanferð, að lyfið myndi klárast í útlöndum, og vantaði mig því nýjan skammt með stuttum fyrirvara. Í Landspítalaapóteki var mér sagt, að lyfið væri ekki til í landinu, en málið yrði þó athugað betur. Ég ákvað þó, að hringja sjálfur í nokkur apótek og athuga málin. Rima-apótek varð fyrst til svara - og jú, lyfið, sem ekki átti að vera til í landinu, var nú reyndar til þar, vandræðalaust!
Ég, Þorgeir Arason, mæli með Rima-apóteki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 15. júlí 2007
Nokkrar línur að austan
Ætli það sé ekki kominn tími á að senda nokkrar línur á netið frá Eiðavatni. Eins og gefur að skilja tekur tölvuletin völdin þegar dvalið er í sumarbúðum. Og ýmislegt hefur verið meira heillandi að gera, svona á milli flokka, en að setjast við tölvuna. Eftir fyrsta flokk nýttum við Hlín dagsfrí til að keyra suður á Djúpavog og taka ferjuna þaðan út í Papey. Þangað var gaman að koma þó að við hefðum akkúrat hitt á fyrsta þokudag sumarsins. Austfjarðaþokan stríddi okkur töluvert þó að létt hefði til þegar leið á heimsóknina í eyjuna. Það er um 45 mínútna sigling út í Papey, og komið við á leiðinni á klettinum Skorbein, þar sem svipast er um eftir selum. Í Papey er gengið um með leiðsögumanni (sem í okkar tilfelli var frá Litháen en talaði góða íslensku), fuglalífið skoðað, einnig kirkjan og umhverfi eyjunnar.
Eftir annan flokk fengum við tveggja daga frí og keyrðum þá alla leið suður í Skaftafell, þar sem við fórum í göngur og nutum lífsins. Skaftafell er fyrirheitna landið hennar Hlínar, þar var hún svo oft með fjölskyldunni sem krakki og vildi ólm komast þangað með mig í sumar. Og gaman var að koma þangað enda fengum við þokkalegasta veður. Náttúran er mjög sérstök á þessum slóðum, jökullinn, hrikalegur sandurinn og svo skógarvinin. Á bakaleiðinni var komið við á Höfn og heilsað upp á hana Tótu, sem þar gegnir læknisstörfum í sumar. Var þetta hin skemmtilegasta ferð.
Nú eftir þriðja flokkinn ákváðum við að taka lífinu með ró en fórum þó enn í bíltúr suður á firði, aðallega til að skoða Steinasafn Petru á Stöðvarfirði. Það verður víst að gera það þegar maður er hér fyrir austan og er það reyndar afar skemmtilegt. Það kemur manni á óvart hve margir steinar eru í safninu og ljóst að gamla konan hefur verið iðin við kolann í steinasöfnuninni. Þá má einnig fullyrða að Suðurfirðir Austfjarða séu sérlega gjöfulir fyrir steinasafnara, því að hið geysistóra safn Petru samanstendur svo til eingöngu af steinum úr hennar nánasta umhverfi, þ.e. úr Stöðvarfirðinum og nærliggjandi fjörðum. Út fyrir landshlutann hefur hún ekki farið til steinatínslu.
Og nú er fjórði flokkur í fullum gangi við Eiðavatn og vel gengur enda rólegur og kátur barnahópur á staðnum. Ég fékk að fara inn í Egilsstaði í morgun og prédika hjá sr. Jóhönnu Sigmars í útimessu í Egilsstaðaskógi, og var það virkilega gaman. Ræðuna á ég víst að flytja aftur í kvöldmessu á Borgarfirði í kvöld og hlakka ég einnig til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Allt á fullu við Eiðavatn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 13. júní 2007
Veðurblíðan nýtt til útivistar, göngu og árangurslausrar selaskoðunar
Það er óhætt að segja að veðrið hafi leikið við okkur Hlín síðan við komum hingað austur á Hérað. Hér hefur verið heiðskírt eða léttskýjað upp á hvern einasta dag, stundum hægur vindur en oftar lygnt og hitinn farið yfir 20 stig.
Veðurblíðuna höfum við reynt að nýta til útivistar þegar tími hefur gefist til. Á sunnudaginn tókum við daginn snemma og skelltum okkur í göngu með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs. Förinni var heitið að eyðibýli skammt norðaustur af Fellabænum, Fjallsseli. Voru það samstarfskonur Hlínar á Félagsþjónustunni sem bentu okkur á þessa ferð og reyndist önnur þeirra svo mikill göngugarpur að hún bar tveggja ára gamlan son sinn á bakinu svo til allan tímann og harðneitaði að fá aðstoð! Fjallselssgangan hafði reyndar verið auglýst sem tveggja tíma ganga, en þegar á hólminn var komið könnuðust forsprakkar göngunnar ekki við þá auglýsingu, reyndust ekki hafa skipulagt gönguleiðina til fulls og tók gangan því að lyktum fjóra tíma! Það var svo sem allt í góðu lagi, gaman að ganga fallega leið í svo góðu veðri. Gallinn var þó sá, að við Hlín vorum ekki nestuð til svo langrar göngu - hafði reyndar ekki dottið í hug að taka annað en vatnsflösku fyrir tveggja tíma göngutúr - og vorum því orðin æðisvöng þegar komið var til byggða. Reyndara ferðafélagsfólkið var hins vegar við öllu búið, vel nestað og fékk sér sumt að borða allt að þrisvar á leiðinni! En við munum bara eftir nestinu í næstu göngu.
Í gær, þriðjudag, var svo förinni heitið eftir vinnu hjá Hlín út í Húsey, en svo nefnist bær, er stendur nærri Héraðsflóa, miðja vegu milli Jökulsár á Brú og Lagarfljótsins. Aftur var það samstarfskona af Féló sem þekkti til og var með í för. Í Húsey er oft töluvert um seli og hafa ábúendur gjarnan tekið að sér umkomulausa kópa. Við höfðum þó ekki heppnina með okkur, enginn kópur var á bænum að þessu sinni og enga sáum við heldur selina þrátt fyrir allmikla göngu um svæðið og niður að sjó. Þetta er þó náttúruparadís engu að síður og hittum við í stað selanna fyrir kjóa, skúm og kríu - og nóg af þeim! Ráðlegt er að hafa með sér prik til að sveifla upp í loft þegar gengið er um þessar slóðir! - Æ, afsakið, við sáum víst einn sel, en hann var hauslaus og dauður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 11. júní 2007
Álvershátíð
Á laugardaginn var för okkar hjóna, líkt og svo margra annarra, sem staddir voru á Austurlandi, að sjálfsögðu heitið á Reyðarfjörð, þar sem "Hátíð í bæ" fór fram til að fagna því, að álframleiðsla er hafin í hinu gríðarstóra álveri Alcoa-Fjarðaáls í firðinum. Ekki ætla ég að gerast svo djarfur að fullyrða að veðurblíðan hafi lýst einhvers konar velþóknun himnaföðurins á stóriðjunni, en víst er, að veðrið lék við hátíðargesti. (Raunar hefur verið einmunablíða hér fyrir austan síðan við komum hingað fyrir viku síðan.)
Mikið var um dýrðir á hátíðinni, leiktæki fyrir börnin, skemmtiatriði um allan bæ með hljóðfæraleik, söng, trúðum etc., ókeypis pylsur, súkkulaðikaka og drykkir eins og hver gat í sig látið. Að sjálfsögðu var álverið nýja kynnt og dásamað. Fékk ég að gjöf glansprentuðu bókina "Álver rís," sem gaman var að lesa, og ekki var síður skemmtilegt að fara í skoðunarferð í rútu um álverslóðina. Ég er ekki viss um, að þeir sem ekki hafa séð með eigin augum nýju mannvirkin í Reyðarfirði, geri sér almennt grein fyrir umfangi þeirra. Kerskálarnir tveir eru meira en kílómetri að lengd hvor um sig, reykháfurinn er nokkrum metrum hærri en Hallgrímskirkjuturn og sílóið sem geymir óunnið súrál er sá alstærsti steypuhlunkur, sem ég hef augum litið!
Hátíðinni lauk með stórtónleikum í nýju Fjarðabyggðarhöllinni á laugardagskvöldið. Þar steig á stokk hver stórstjarnan á fætur annarri og var engu til sparað. Hápunktur kvöldsins þótti mér þó vera atriðið "The Queen Show" þar sem nokkrir hæfileikaríkir piltar frá Norðfirði fluttu lög þessarar vinsælu hljómsveitar. Ég er ekki frá því, að þeir hafi náð að skapa meiri stemmningu í höllinni en stjörnurnar, sem á undan fóru. Tónleikunum lauk með listflugi og fallhlífarstökki, sem gaman var á að horfa. Ekki tókst þó betur til en svo, að við lendingu kviknaði í fæti eins fallhlífarstökkvarans, en sem betur fer var eldurinn fljótt slökktur og virtist hann ekki hafa slasast alvarlega.
Hátíðahöld af þessum toga eru ekki ókeypis og leiða hugann að því gríðarlega fjármagni, sem stórfyrirtæki á borð við Alcoa hafa yfir að ráða. Það er erfitt að giska á kostnaðinn við hátíðina, en ljóst að tónleikarnir einir hafa kostað margar milljónir, jafnvel tugi milljóna. Það má líka endalaust deila um, hvort rétt hafi verið að ráðast í framkvæmdirnar á annað borð. Um það verða menn trúlega seint sáttir. Auðvitað hafa orðið óafturkræf náttúruspjöll af völdum þeirrar raforkuframleiðslu, sem nauðsynleg var fyrir álverið. Engin ástæða er til að draga dul á það. Hér verður þó að hugsa um forgangsröðun. Það er ljóst, að stóriðjan í Reyðarfirði hefur hleypt nýju lífi í byggðarlögin á Austfjörðum, og gefið þúsundum íbúa þeirra nýja von um framtíð landshlutans. Jákvæð áhrif framkvæmdanna hafa náð miklu víðar en til Reyðarfjarðar eins, heldur til sjávarplássanna a.m.k. frá Neskaupstað í norðri til Stöðvarfjarðar í suðri. Ekki má gleyma uppbyggingunni á Egilsstöðum, en fjölmargir munu búa á Héraði og sækja atvinnu í álverið.
Ekki verður aftur snúið með umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar og álvers Fjarðaáls. Kominn er tími til að samgleðjast þeim íbúum Austurlands, sem njóta munu - og eru þegar teknir að njóta - jákvæðra áhrifa framkvæmdanna, og staldra fremur við til að velta fyrir sér áhrifum þeirra framkvæmda, sem fram undan gætu verið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 8. júní 2007
Fyrirmyndir
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ég vilji heldur líkjast Ragnheiði Sigurðardóttur en Hirti Magna Jóhannssyni.
Ragnheiður Sigurðardóttir er öldruð kona úr Borgarfirðinum, ógift og barnlaus, sem hefur alla sína tíð heklað fallegar flíkur, til að gefa stúlkum í fermingargjöf og konum t.d. í þrítugsafmælisgjöf. Sagt var frá henni í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í gær, en þar var rætt við vinkonu hennar, Margréti Jónsdóttur, sem stendur nú ásamt fleirum fyrir sýningu á verkum hennar. Hér ku vera um dýrgripi að ræða og gamla konan afar listfeng, þó að hún vilji ekkert með það gera. Aldrei hefur hún þegið krónu fyrir þessi verk sín heldur unnið þau að loknum vinnudegi sínum sem verkakona í því skyni einu að gefa öðrum og gleðja. Ragnheiður er heldur ekkert sérstaklega hrifin af þessu uppátæki, að vera látin "monta sig" svona af verkum sínum, en gaf þó útvarpskonu kaffi og vöfflur með rjóma. Þegar hún var spurð hversu margar flíkur hún hefði heklað, sagðist hún ekki segja það! Hún vill líklega ekki vera svo "montin" að upplýsa um fjöldann, sem sennilega er dágóður. En viðtalið við þessa hógværu konu var engu að síður stórskemmtilegt.
Hjörtur Magni Jóhannsson er forstöðumaður og annar safnaðarpresta Fríkirkjunnar í Reykjavík. Hann hefur sem kunnugt er verið kærður af átta þjóðkirkjuprestum til siðanefndar Prestafélags Íslands vegna ýmissa ummæla sinna, sem tengjast Þjóðkirkjunni. Grein hans í Fréttablaðinu á miðvikudag, "Átta ríkisprestar kæra," er dapurleg lesning. Þar slær hann sjálfan sig til riddara, líkir sér við Martein Lúther, segist kærður fyrir að vera talsmaður jafnræðis og mannréttinda og gerir sér far um að niðurlægja ákærendur sína. M.a. gefur hann í skyn að einn úr hópi áttmenninganna, sem svo vill til að þjónar fámennari söfnuði en hann sjálfur, hafi fátt við vinnutíma sinn að gera, annað en að skrifa greinar um persónu hans sjálfs. Launagreiðslur til mannsins séu sóun á almannafé. - Það hlýtur þá að skiljast sem svo, að sjálfur skrifi fríkirkjupresturinn sínar blaðagreinar á nóttunni. Það væri í það minnsta í takt við þá ofurmennismynd, sem hann dregur upp af sjálfum sér í þessum og fyrri skrifum.
Það er eins og það blundi djúpt í manni - trúlega úr uppeldinu - sú hugmynd, að betra sé að temja sér hógværð en sjálfbirgingsskap. Best að setja það á verkefnalista dagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)