Aftur á Netið

Í fyrstu viku nýs kirkjuárs, og í fyrstu viku próflestrar, tók ég þá ákvörðun að snúa aftur á Netið, einkum mér sjálfum til ánægju en e.t.v. einhverjum öðrum í leiðinni. Áður skrifaði ég reyndar á síðuna thorgeir.blogdrive.com, þegar ég dvaldi sem skiptinemi í Frakklandi. Ég hef verið að dunda mér við að lesa þessi rafrænu dagbókarskrif mín frá árinu í Strasbourg og haft verulega gaman af enda vekja þau upp góðar minningar. En í stað þess að deila dagbókarfærslum frá dvöl sem skiptinemi með lesendum Netsins mun ég nú deila hugðarefnum af ýmsum toga.

Þessa dagana sit ég við próflestur, en fram undan eru tvö próf með dags millibili. Siðfræði lífs og dauða á miðvikudag og Ritskýring Gamla testamentisins - Saltarinn (Davíðssálmarnir) á fimmtudag. Af þessum tveimur fögum vekja Sálmarnir mun meiri áhuga hjá mér. Þrátt fyrir próflestur hefur aðventan verið mér ofarlega í huga síðustu daga. Minn eftirlætisaðventusálmur, „Gjör dyrnar breiðar," er einmitt að hluta ortur út af 24. sálmi Saltarans, en í þeim Davíðssálmi segir:

7. Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. 8. Hver er þessi konungur dýrðarinnar? Það er Drottinn, hin volduga hetja, Drottinn, bardagahetjan. 9. Þér hlið, lyftið höfðum yðar, hefjið yður, þér öldnu dyr, að konungur dýrðarinnar megi inn ganga. 10. Hver er þessi konungur dýrðarinnar? Drottinn hersveitanna, hann er konungur dýrðarinnar.

Í fyrrnefndum aðventusálmi Helga Hálfdánarsonar segir:

Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt.
Þú, Herrans kristni, fagna mátt,
því kóngur dýrðar kemur hér
og kýs að eiga dvöl hjá þér.

---

Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt,
þig, hjarta, prýð sem best þú mátt,
og trúarlampann tendra þinn,
og til þín bjóð þú Jesú inn.

Ég opna hlið míns hjarta þér,
ó, Herra Jesús, bú hjá mér,
að fái hjálparhönd þín sterk
þar heilagt unnið náðarverk.

Ó, kom, minn Jesú, kom sem fyrst,
ó, kom og mér í brjósti gist,
ó, kom þú, segir sála mín,
ó, seg við mig: Ég kem til þín.

Það er gott að gera tvö síðustu erindi þessa sálms að bæn sinni á aðventunni.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband