Séra Friðriks-hátíð á sunnudaginn

Vek athygli allra, sem hér rekast inn, á eftirtöldu: Sunnudaginn 25. maí eru liðin 140 ár síðan sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM og KFUK á Íslandi fæddist.  Í tilefni afmælisins verður sannkölluð hátíðardagskrá á sunnudaginn á vegum félagsins:

kl. 10:00
Blómsveigur lagður við styttu sr. Friðriks í Lækjargötu kl. 10:00.
Hátíðardagskráin þann 25. maí hefst með stuttri athöfn kl. 10:00 við styttu sr. Friðriks í Lækjargötu þar sem lagður verður blómsveigur til minningar um stofnandann og æskulýðsleiðtogann.  Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, flytur bæn og blessun.  Félagsfólk er hvatt til að mæta og taka þátt í athöfninni.

kl. 11:00
Guðsþjónusta í Hallgrímskirkju tileinkuð minningu sr. Friðriks
Að morgni sunnudagsins 25. maí kl. 11 verða minningu sr. Friðriks gerð skil í guðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur og fyrrum formaður KFUM mun þjóna fyrir altari ásamt sr. Guðna Má Harðarsyni. Sr Sigurður Pálsson sem einnig er fyrrum formaður KFUM mun predika með áherslu á líf og starf sr. Friðriks. Í messunni verða sungnir sálmar með textum sr. Friðriks. Félagsfólk í KFUM og KFUK tekur þátt í guðsþjónustunni.

kl. 20:00
Hátíðarsamkoma kl. 20:00, biskup Íslands Hr. Karl Sigurbjörnsson predikar.
Í tilefni þess að þann 25. maí næstkomandi eru 140 ár liðin frá fæðingu sr. Friðriks Friðrikssonar boðar stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til hátíðarsamkomu þennan sunnudag kl. 20:00 í húsi félagsins á Holtavegi 28. Þar mun biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson flytja hugvekju og Kristín Möller, heiðursfélagi KFUM og KFUK hefur upphafsorð. Þórarinn Björnsson mun vera með sögulegt innlegg og Rannveig Káradóttir sér um tónlistaratriði. Stjórnun samkomunnar er í höndum formannsins, Tómasar Torfasonar og undirleik annast Bjarni Gunnarsson. Á samkomunni verða heiðraðir tveir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi fyrir störf sín í þágu félagsins, en það eru þau Sverrir Axelsson og Vilborg Jóhannesdóttir. Eftir samkomuna verður boðið upp á kaffi og veitingar. Þá verður einnig hægt að skoða minningarherbergi sr. Friðriks á Holtaveginum sem hefur meðal annars að geyma orgelið hans, persónulega muni og bókasafn.

Fjölmennum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband