Á Héraði

Nú er ég búinn að fá nóg af að hlusta á þessar stanslausu bankafréttir í sjónvarpinu (skrýtin tilfinning að vera orðinn viðskiptavinur ríkisbanka!) og ætli sé ekki best að skrifa nokkur orð hér inn á bloggið eftir býsna langt hlé. Svona að kvitta fyrir að maður sé enn á lífi.

Raunar er ég við hestaheilsu og frúin einnig. Við fluttum búferlum hingað austur á Hérað í byrjun júlí þó að ekki sé hægt að segja að við höfum haft hér fasta búsetu fyrr en við hófum okkar störf hér um miðjan ágúst, heim komin úr sumarbúðum og útlandaþvælingi. Það er best að svara þeim spurningum í eitt skipti fyrir öll sem við höfum fengið að heyra svo ótaloft á síðustu vikum:

Hvernig líkar okkur að búa á Egilsstöðum? Mjög vel.

Ætlum við að búa hér til frambúðar? Við vitum það ekki.

Auðvitað eru ýmis lífsgæði sem skerðast við að búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægast er auðvitað að þar eru fjölskyldur okkar beggja og vinirnir allir með tölu - nema Heiðdís og Stefán Bogi, sem við vorum svo heppin að fluttu austur um leið og við. (Fyrir utan félagsskapinn sem er mjög vel þeginn var einkar praktískt að geta fengið einn sendibíl saman!) - Og hér skreppur maður ekki eins auðveldlega eftir því sem vantar eða mann langar í. Svo dæmi sé tekið þarf ég að keyra yfir Lagarfljótið í Fellabakarí eftir volgum rúnnstykkjum á laugardagsmorgni. En hér er bæði ágætis Bónusbúð og Kaupfélag með fínu úrvali, þrjár vídeóleigur, nokkrar hárgreiðslustofur, Subway, fatabúðir, heilsugæsla, apótek, ritfangaverslun og íþróttahús, svo sitthvað sé nefnt af því sem við hjón nýtum okkur hér. Að ógleymdri félagsþjónustu og prófastsdæmi til að vinna fyrir.

Og að sumu leyti eru það aukin lífsgæði að búa úti á landi. Biðröðin í Bónusi er talsvert styttri á Egilsstöðum en í Spönginni. Umferðarteppur á leið til vinnu eru engar og vegalengdir innanbæjar stuttar. Takturinn í samfélaginu er hægari en í bænum, sem hentar mér ágætlega Smile Og svo er hægt að leigja aðeins stærri íbúð fyrir sama pening og minni íbúð á höfuðborgarsvæðinu (þó að munurinn sé reyndar furðulítill eftir allan uppganginn hér eystra) og hægt um vik að fá gesti. Vinir, kunningjar og vandamenn eru velkomnir í heimsókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

Það er hægt að eignast fleiri vini....verst með fjölskylduna !!

Heiðdís Ragnarsdóttir, 30.9.2008 kl. 10:32

2 identicon

Frábært að fá aftur blogg !!! Gaman að heyra að það gengur vel hjá ykkur. Kær kveðja Arndís

Arndís G. Bernhardsdóttir Linn (IP-tala skráð) 2.10.2008 kl. 21:24

3 identicon

Blessaður Þorgeir - vildi bara kvitta fyrir komuna, mjög gaman að fylgjast með blogginu þínu. Vonandi hafið þið það gott á Austurlandi!

Soffía Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 8.10.2008 kl. 00:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband