Um kristin fræði og/ eða trúarbragðafræði

Ég tók á dögunum saman það helsta í grein Gunnars J. Gunnarssonar, lektors í KHÍ, um stöðu og horfur í kennslu kristinna fræða og trúarbragðafræða í íslenskum grunnskólum (upphaflega erindi, flutt á málþingi kirkjunnar um fjölmenningu og trúarbrögð). Tilefni samantektar minnar var netverkefni í áfanganum Kennslu samfélagsgreina. Því er nú lokið, en grein Gunnars er gott og þarft innlegg í þá umræðu, sem verið hefur í vetur um þessi mál. Því vil ég leyfa mér að birta hér hluta umfjöllunar minnar:

... Segja má að greinin skiptist í fimm hluta. Í fyrsta hlutanum nefnir Gunnar þrjú ólík viðhorf til trúarbragðakennslu í grunnskólum: Í fyrsta lagi að henni eigi algjörlega að sleppa til að gæta trúfrelsis; í öðru lagi að kenna eigi aðeins almenn trúarbragðafræði þar sem allar trúar- og lífsskoðanir fái jafnmikið vægi; í þriðja lagi að leggja eigi mesta áherslu á kristnu fræðin vegna stöðu þeirra í samfélaginu en jafnframt að fjalla um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf. Í öðrum hluta greinarinnar fjallar Gunnar um stöðu greinarinnar samkvæmt núgildandi íslenskum lögum og námskrá og kemst að þeirri niðurstöðu að þriðja viðhorfið hér að ofan sé ríkjandi þar en greinin fái þó mjög lítið vægi í kennslutíma. Í þriðja hlutanum nefnir Gunnar þau rök sem nefnd eru í Aðalnámskrá fyrir kennslu greinarinnar og flokkar þau í samfélagsrök, menningarrök, þroskarök, uppeldisrök og þekkingarrök.  Í fjórða hlutanum nefnir höfundur tvenn mótrök gegn núverandi kennslu greinarinnar, trúfrelsisrök og samfélagsrök (fjölmenningarrök) en kveður þau jafnskjótt í kútinn sjálfur. Í lok greinarinnar er svo fjallað um þann vanda sem blasir við námsgreininni: misjafnar forsendur og þekking kennara, lítill kennslutími og umfram allt hve viðkvæmt viðfangsefnið er og greinin vandasöm í kennslu þegar búast má við að nemendur kynnist ólíkum trúar- og lífsviðhorfum heima fyrir. Niðurstaða höfundar er sú, að grunnskólinn eigi að sinna vel fræðslu um trúarbrögð með vissri áherslu á kristin fræði, en umburðarlyndishugtakið þurfi að vera „í brennidepli“ í slíkri kennslu...

Persónulega virðist mér höfundur hafa margt til síns máls og auðvelt að koma auga á rökin fyrir því að framfylgja eigi núgildandi námskrá í kristnum fræðum og trúarbragðafræðum. Nemendur í grunn- og framhaldsskólum þurfa svo sannarlega að kynnast helstu trúarbrögðum heimsins til að geta skilið ólíka menningu og lífsviðhorf, ekki aðeins hjá því fólki sem byggir fjarlægar álfur, heldur e.t.v.bara hjá fjölskyldunni í næstu íbúð í blokkinni heima í Grafarvogi! Og það er ekki erfitt að gera orð Gunnars J. Gunnarssonar að sínum, þegar hann segir (bls. 49): „Umhugsunarefni er að í framhaldsskólum hér á landi er víðast hvar lítil sem engin kennsla í trúarbragðafræðum og hlýtur það að teljast gat í menntun þjóðarinnar“.

En hvað þá með kristnu fræðin og sérstöðu þeirra? Jú, það vill nú svo til að hvað sem trúarviðhorfum einstaklinganna sem þjóðina byggja í upphafi 21. aldar líður – og enn eru yfir 90% landsmanna í kristnum trúfélögum þó að hlutfallslega fækki í Þjóðkirkjunni – þá er ekki aðeins íslensk menning heldur að nokkru leyti vestræn menning í heild byggð á kristnum hugsjónum og manngildi, auk hugmynda Upplýsingarinnar um t.d. mannréttindi og lýðræði....

Ekki held ég að neinum nemanda í dag sé greiði gerður með því að svipta hann tengslunum við biblíuleg minni og kristna hefð. Og umfram allt á kennsla í greininni, líkt og annað skólastarf, að fara fram á forsendum skólans sem fræðslustofnunar.

Höfundur bendir réttilega á, hve vandmeðfarið það er, að ræða trúmál í (e.t.v.) fjölmenningarlegum bekkjum... Einkennist framkoma kennarans í kristnum fræðum og/eða trúarbragðafræðum af virðingu fyrir umfjöllunarefninu og fyrir ólíkum viðhorfum nemenda, ætti hann að mínum dómi óhræddur að geta kennt greinina. Jafnvel gæti hann gert grein fyrir eigin trúarafstöðu, kjósi hann það, en jafnframt gert nemendum grein fyrir að sú sé alls ekki skoðun allra, e.t.v. ekki þeirra sjálfra eða foreldra þeirra, og ekkert sé athugavert við ólíkar skoðanir. Lærist ekki umburðarlyndi einmitt þannig: Með því að sjá og heyra skoðanir sínar og annarra, ræða þær af virðingu og heiðarleika, en ekki með því að fela þær?

Grein Gunnars má lesa í Kirkjuritinu 2006, 72 (1), s. 46-49.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband