Færsluflokkur: Bloggar

Séra Friðriks-hátíð á sunnudaginn

Vek athygli allra, sem hér rekast inn, á eftirtöldu: Sunnudaginn 25. maí eru liðin 140 ár síðan sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM og KFUK á Íslandi fæddist.  Í tilefni afmælisins verður sannkölluð hátíðardagskrá á sunnudaginn á vegum félagsins:

kl. 10:00
Blómsveigur lagður við styttu sr. Friðriks í Lækjargötu kl. 10:00.
Hátíðardagskráin þann 25. maí hefst með stuttri athöfn kl. 10:00 við styttu sr. Friðriks í Lækjargötu þar sem lagður verður blómsveigur til minningar um stofnandann og æskulýðsleiðtogann.  Dr. Sigurbjörn Einarsson, biskup, flytur bæn og blessun.  Félagsfólk er hvatt til að mæta og taka þátt í athöfninni.

kl. 11:00
Guðsþjónusta í Hallgrímskirkju tileinkuð minningu sr. Friðriks
Að morgni sunnudagsins 25. maí kl. 11 verða minningu sr. Friðriks gerð skil í guðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur og fyrrum formaður KFUM mun þjóna fyrir altari ásamt sr. Guðna Má Harðarsyni. Sr Sigurður Pálsson sem einnig er fyrrum formaður KFUM mun predika með áherslu á líf og starf sr. Friðriks. Í messunni verða sungnir sálmar með textum sr. Friðriks. Félagsfólk í KFUM og KFUK tekur þátt í guðsþjónustunni.

kl. 20:00
Hátíðarsamkoma kl. 20:00, biskup Íslands Hr. Karl Sigurbjörnsson predikar.
Í tilefni þess að þann 25. maí næstkomandi eru 140 ár liðin frá fæðingu sr. Friðriks Friðrikssonar boðar stjórn KFUM og KFUK á Íslandi til hátíðarsamkomu þennan sunnudag kl. 20:00 í húsi félagsins á Holtavegi 28. Þar mun biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson flytja hugvekju og Kristín Möller, heiðursfélagi KFUM og KFUK hefur upphafsorð. Þórarinn Björnsson mun vera með sögulegt innlegg og Rannveig Káradóttir sér um tónlistaratriði. Stjórnun samkomunnar er í höndum formannsins, Tómasar Torfasonar og undirleik annast Bjarni Gunnarsson. Á samkomunni verða heiðraðir tveir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi fyrir störf sín í þágu félagsins, en það eru þau Sverrir Axelsson og Vilborg Jóhannesdóttir. Eftir samkomuna verður boðið upp á kaffi og veitingar. Þá verður einnig hægt að skoða minningarherbergi sr. Friðriks á Holtaveginum sem hefur meðal annars að geyma orgelið hans, persónulega muni og bókasafn.

Fjölmennum!


Lokapredikanir

Mánudagurinn var merkisdagur. Þá fluttum við Stefán Einar lokapredikanirnar okkar við guðfræðideild og var þetta alsíðasti liðurinn í embættisnámi okkar. Gekk bara skammlaust, held ég.

Amma mætti með myndavélina.


Ljúft er maíkvöld í Grafarholti

Foreldrar mínir eiga bók, sem ég hef ekki enn orðið af að lesa, sem ber þann seiðandi titil Ljúf er sumarnótt í Færeyjum. Höfundarnafnið man ég því miður ekki. En þessi bókartitill kom upp í hugann nú í kvöld, þegar maíkvöldið í Grafarholti var einfaldlega þannig, að það togaði mann bókstaflega út til sín í kvöldgöngu. Það fara líka að verða síðustu forvöð að njóta gönguferða í Grafarholti fyrir okkur Austurlandsfarana. Rakst á labbi mínu á nokkra drengi, sem ég gerði heiðarlega tilraun í vetur til að kenna um grundvallaratriði kristindómsins. Maíkvöldið hafði einnig lokkað nýfermda töffarana út til sín, og breytt þeim í börn að leik. Það var gott að sjá.

Það verður líka að segjast einkennileg tilfinning - og einkar ljúf - að upplifa próflausan maímánuð, þó að vissulega hafi það kostað mikið basl í verkefnum í apríl. Ég leyfði mér m.a.s. að vera alla síðustu viku í útlöndum, daga í apríl og maí sem vanalega eru undirlagðir af próflestri. Tilefnið var mjög ánægjulegt eða aðalfundur Evrópusambands KFUM í Litomysl í Tékklandi. Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í fundarstörfum í fyrsta skipti, og kynnast starfi bæði Evrópuhreyfingarinnar og því fjölbreytta verksviði, sem KFUM-félögin í álfunni fást við. Víkkar út sjóndeildarhringinn. Og allra best voru þau forréttindi að vera fulltrúi ungs fólks í KFUM & KFUK á Íslandi á stofnfundi ungmennaráðs KFUM, hinum svonefnda YES-hópi (YMCA European Spectrum), sem ég hlakka til að taka áfram þátt í.

Annars skilaði ég síðasta verkefni annarinnar í dag og er þar með búinn með mínar skyldur í Háskólanum þessa önnina, að undanskilinni lokaprédikuninni minni 19. maí næst komandi. Ykkur er öllum boðið í Háskólakapelluna kl. 15 þann dag að hlýða á okkur Stefán Einar flytja ódauðlegar prédikanir, svo er kaffi á eftir í boði okkar (og mæðra okkar og amma...). Verkefnaskilunum fagnaði ég með því að hlýða á vanmáttugar tilraunir borgarstjórans blessaðs í Kastljósi til að verja sig í vandræðalegu ráðningarmáli. Heyrði að fundur stuðningsmanna borgarstjóra til sjávar og sveita hefði verið boðaður í T-stofu Menntaskólans í Reykjavík nú í kvöld, í skjóli nætur Wink


Á Búðum

Liðinni helgi (þ.e. frá laugardegi til sunnudags) eyddum við Hlín í faðmi móðurfjölskyldu minnar á Búðum á Snæfellsnesi, en þangað var allri familíunni stefnt til að halda upp á áttræðisafmæli ömmu minnar, Elínar Ingólfsdóttur, á Hótel Búðum, en hún fyllti 80 árin sl. fimmtudag. (Þessi dönskusletta var vel við hæfi, "hun fyldte 80 aaren," þar sem Ella amma mín var dönskukennari alla sína starfsævi.) Var þetta hin skemmtilegasta ferð í alla staði og ánægjuleg samvera með ömmu og allri fjölskyldunni, enda hefði gamla konan helst viljað dvelja lengur á Búðum og gildir það líklega um fleiri. Maturinn á Búðum meig í munni, helst að skammtarnir væru full-mínimaliskir fyrir minn smekk...

Fagurt var um að litast á Snæfellsnesinu þó að ekki hafi verið farið að grænka að ráði. Við notuðum tækifærið til að keyra yfir Fróðárheiðina og kynna okkur sjoppumenningu í Ólafsvík. Stuttar vegalengdir finnast mér á milli staða og vegir góðir, þó að ekki ætli ég að fullyrða um færð á vetrum. Ég reyndi að komast inn í þrjár kirkjur, sem allar reyndust harðlæstar - mikið ofbeldi að þurfa alltaf að hafa kirkjurnar úti á landi læstar, einstaka eru reyndar hafðar opnar og er þetta happdrætti hjá mér að kanna hvort svo sé um kirkjur sem ég rekst á á ferð um landið. 

Kirkjurnar sem ég guðaði á gluggann á voru Búðakirkja, Ólafsvíkurkirkja og Ingjaldshólskirkja. Að þeirri síðastnefndu hygg ég að íbúar Hellissands og Rifs eigi kirkjusókn, en þar er bæði sérstakt og skemmtilegt, að það er líkt og safnaðarheimili þessarar ævagömlu kirkju (las á túristaskilti að hún væri jafnvel talin elsta steinsteypta kirkja heims!), sé grafið inn í hæðina, sem hún stendur upp á. Segið svo að notagildi og klassík geti ekki farið saman.


Rosa gaman að drukkna í brúðkaupum

Þegar við Hlín vorum að undirbúa brúðkaupið okkar fyrir réttum tveimur árum, hittum við að máli prestinn sem við báðum um að gifta okkur, séra Önnu Sigríði Pálsdóttur, þá prest í Grafarvogskirkju, nú í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún spjallaði við okkur um eitt og annað sem tengdist hjónabandinu og brúðkaupsundirbúningnum. Eitt af því, sem kom fram hjá henni (og kannski skaut hún þessu að þar sem brúðguminn var prestlingur), var að hún sagðist hafa það sem vinnureglu að gifta aldrei oftar en tvisvar sama daginn, til að geta einbeitt sér að fullu að hverri athöfn.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í biðröðinni á kassanum hjá vinum mínum Baugsfeðgunum í dag, þegar ég rak augun í Séð og heyrt (ætli þeir eigi það ekki líka orðið?). Á forsíðunni brosti fríkirkjupresturinn Hjörtur Magni við lesendum undir yfirskriftinni: "Er að drukkna í brúðkaupum" - "Tískuprestur!" Ekki stóðst ég freistinguna að líta í blaðið, þar sem fram kom að brúðkaupstæknirinn við Tjörnina væri bókaður langt fram í tímann og sumir þyrftu að gifta sig um morgun eða kvöld til að komast að hjá rétta prestinum. Var reyndar rætt um að einmitt Baugsbrúðkaupið í Fríkirkjunni í fyrra hefði orðið mörgum pörum fyrirmynd. Gaman að því.

Ekki ætla ég að fullyrða um það, hve vel Hirti Magna tekst til með athafnirnar sínar fjölmörgu. Ég hef nú bara aldrei verið í athöfn hjá honum, svo að ekki hef ég forsendur til að meta það. En ósköp var ég samt feginn að vita, að brúðkaupið okkar Hlínar var ekki tíunda athöfn prestsins okkar þá helgina, enda gaf hún sig heila og óskipta í stundina og hafði undirbúið ræðu sína af kostgæfni. Og ekki langar mig heldur að verða í framtíðinni tískupresturinn, sem er "að drukkna í brúðkaupum!" Held ég reyni frekar að temja mér reglur Önnu Sigríðar. Og hið sama hlýtur að gilda um útfarirnar. (Reyndar held ég að sé lítil hætta á að ég komist í tísku, a.m.k. er ég fulllangorður til þess að sögn eiginkonunnar...)

Sú spurning vaknar líka, hvaða tilgangi það þjónar, að sami presturinn annist svo margar athafnir. Er það í öllum tilfellum nauðsynlegt að koma til móts við óskir fólksins, sem biður um athöfnina, um prest? Nú starfa yfir 150 prestar á Íslandi - reyndar bara einn þeirra í Fríkirkjunni í Reykjavík, en kirkjan er til allrar hamingju ennþá lánuð þjóðkirkjuprestum eftir þörfum. Flestir þeirra gætu létt hér undir. Er það ekki voðalega slítandi fyrir fríkirkjuprestinn að standa í öllum þessum brúðkaupum? Eða gefur það honum svo mikið með einhverju móti, að hann vilji engri athöfn sleppa?

Óska að lokum Hirti Magna alls hins besta í brúðkaupsönnum sumarsins og öllum hans brúðhjónum bjartrar framtíðar!


Vor

Vorið:

Dymbilvikan og páskarnir. - Búnir í ár, óvenjusnemma. Ég hlustaði í fyrsta skipti á alla Passíusálmana í beit hér í Grafarholtinu. Það er n.k. andlegt ferðalag að taka þátt í slíkum lestri, fylgja frásögninni frá Getsemane til Golgata - og síðan í framhaldinu að tómu gröfinni og lífsþrótti páskamorguns.

Birtan eykst og það hlýnar í veðri. - Eða hvað? Jörð var alhvít þegar ég vaknaði í morgun, en úr rættist er leið á daginn. Veturinn finnst mér hafa verið óvenjuerfiður, napur og snjóþungur. Mál er að linni. Í öllu falli fjölgar birtustundunum og það gleður mig. Nýfengið æði fyrir kvöldgöngum í Grafarholtinu með aukinni birtu er hjálplegt kroppnum og sálinni.

Lokasprettur skólaársins. - Að þessu sinni er ég í tómum próflausum áföngum, sem merkir mikla gleði í maí en að sama skapi mikinn hamagang í verkefnaskilum nú í apríl. Þó er sjálfsaginn ekki í fullu samræmi við nauðsyn þegar kemur að verkefnavinnu. Kannski er það merki um útskriftartilhlökkun og þrá eftir skólahvíld. Samt get ég varla slitið mig frá skólanum. Skrýtið.

Lokasprettur barnastarfsins í vetur. - Krakkarnir í KFUM og KFUK fóru í vorferðalögin sín um síðustu helgi og á laugardaginn er vorferð barnakórs, sunnudagaskóla og sex ára starfs hér í Grafarholti. Gaman að því, og síðustu samverurnar eru nú í apríl. Þetta er mánuður uppskerugleði eftir veturinn en um leið saknaðar, því að starfi mínu fyrir söfnuðinn er að ljúka. Nýir tímar taka við.


Sófus

Einu sinni var ég í ritnefnd skólablaðsins í Valhúsaskóla, unglingaskólans á Seltjarnarnesi. Blaðið, sem kom út 1-2 sinnum á vetri, hét reyndar Ásbjörn, en við vorum um tíma að reyna að koma líka á fót snepli með fréttum úr félagslífinu, og átti hann að heita Sófus. Hvers vegna man ég ekki.

En nafnið Sófus er nú komið með áþreifanlegum hætti inn í líf mitt. Sófus er nefnilega köttur foreldra minna og systkina. Reyndar er hann bara kettlingur ennþá, kom í heiminn í nóvemberlok, en er heittelskaður á Látraströndinni. Það er von, því hann er bæði ósköp sætur, lítill og vitlaus.

Sófus er nú kominn í pössun í Þórðarsveignum. Mitt fólk á leið til Belgíu um páskana og kisi kominn til vikudvalar hjá kattavinunum í Grafarholtinu. Við erum reyndar orðin nokkuð vön kattapössun, kannski við förum að stunda þetta. Einu sinni pössuðum við bæði hús og kött fyrir frænku mína í Vesturbænum, og svo höfðum við líka kött Eiðaklerks hjá okkur í Kirkjumiðstöðinni um tíma. En hann átti reyndar að vera á músaveiðum þar, en nennti þeim ómögulega!

Ég hugsa að Sófus myndi reyna að veiða mýs ef hann fengi tækifæri til þess. En hann má ekki fara út. Hann er of lítill til þess. Hann má eiginlega ekki gera neitt nema skottast um gólfin hérna, kúra í sófanum eða körfunni sinni og klóra í klóruprikið sitt. Þó held ég að honum sé farið að líka þetta ágætlega. Hann var svo sem ekki sáttur í búrinu á leiðinni hingað í gærkvöldi, mjálmaði hálfa leiðina. En var fljótur að ná sér á strik þegar hann uppgötvaði að hann fengi bæði mat og stað til að kúra á hérna. Svona er kattalífið.


Námshelgi í Skálholti

Var svo heppinn að eyða helginni í einkar góðum hópi samnemenda og kennara úr guðfræðideild í Skálholti, en fræðslu- og kyrrðarhelgi þar á staðnum var einn hluti námskeiðsins Framsetning kristins boðskapar í nútímasamfélagi, lokakúrsins míns í kandídatsnáminu. Gott samfélag myndaðist í sjö manna hópi nemenda og kennara, en auk okkar voru kyrrðardagagestir á staðnum. Var okkar dagskrá nokkurs konar sambland af fræðslu- og íhugunarstundum undir handleiðslu rektors og vígslubiskups í Skálholti auk prófessorsins okkar, Péturs Péturssonar.

Ekki er hægt að segja annað en að við höfum verið heppin með veður í Skálholti. Jörðin mjallhvít, himinninn heiður, lygnt og fallegt. Það var því gott að geta notið útivistar einnig, t.d. var farið í bænagöngu að Þorlákshver við dagrenningu á sunnudagsmorgninum. Og svo var eldaður og snæddur góður matur, dýrindiskjötsúpa og fleira þjóðlegt!

Þegar í bæinn kom tók við undirbúningur fyrir síðasta tíma æfingakennslunnar minnar í Hamrahlíðinni, en hann fór fram í dag, og er þá starfsþjálfun minni í kennsluréttindanáminu um það bil lokið, þó að skýrsluskil og tveir fundir séu eftir. Það hefur verið ánægjuleg reynsla að fá að spreyta sig á kennslu - en þó um leið erfið, krefjandi og mjög tímafrek, ekki síst hvað snertir undirbúning kennslunnar - því gleðst ég yfir að þessu ferli sé lokið. En nemendurnir í MH verða mér minnisstæðir fyrir hve prúðir og vinnusamir þeir voru. Agavandamál var ekki um að ræða í æfingakennslunni. Kannski voru krakkarnir svona ægilega góðir við kennaranemann Smile


Vorvindar?

Ég þurfti nánast að minna mig á það nú áðan, að ennþá væri þorri og alls ekki komið vor. Ástæðurnar voru tvær.

Í fyrsta lagi er byrjað að hlýna allverulega og komnar miklar leysingar, eins og á vori. Reyndar hafa slíkar leysingar ekki fylgt íslenskum vorum árum saman vegna lítilla snjóa, en engu að síður finnst manni þessar leysingar eftir langa kulda- og snjóatíð býsna vorlegar og í öllu falli kærkomnar. Þær minna á "betri tíð með blóm í haga/ bjarta langa sumardaga." Og það gerir líka dagsbirtan, sem ryður sér lengri og lengri leið á kostnað vetrarmyrkursins með hverjum deginum sem líður. Þetta eru góðir dagar.

Í öðru lagi fannst mér vorlegt nú áðan vegna þess, að ég var að ganga út úr eina prófinu mínu á þessu misseri. Svo undarlega vill til, að allir mínir áfangar nema einn eru próflausir á þessu misseri - svona er kennslufræðin! Og þessi eini prófáfangi minn, Gerð námskrár og námsefnis, er skipulagður þannig, að hann skiptist í tvo hluta: Í fyrri hlutanum felst námsmatið í hópverkefni og prófi (sem fór fram nú í morgun), en í seinni hlutanum í verkefnum, einkum í stóru lokaverkefni þar sem við eigum að glíma við að búa til okkar eigin námsefni til kennslu á okkar sérsviði. Er ég að hugsa um að vinna dálítið námsefni fyrir fermingarbörn, og hlakka til að takast á við það verkefni.

Svo mætti kannski bæta við þessar vorhugrenningar, að fastan er hafin fyrir viku síðan, óvenjusnemma á ferðinni að þessu sinni, og þar með nálgast páskarnir og gleði upprisu og nýs lífs að vori.


Um kristin fræði og/ eða trúarbragðafræði

Ég tók á dögunum saman það helsta í grein Gunnars J. Gunnarssonar, lektors í KHÍ, um stöðu og horfur í kennslu kristinna fræða og trúarbragðafræða í íslenskum grunnskólum (upphaflega erindi, flutt á málþingi kirkjunnar um fjölmenningu og trúarbrögð). Tilefni samantektar minnar var netverkefni í áfanganum Kennslu samfélagsgreina. Því er nú lokið, en grein Gunnars er gott og þarft innlegg í þá umræðu, sem verið hefur í vetur um þessi mál. Því vil ég leyfa mér að birta hér hluta umfjöllunar minnar:

... Segja má að greinin skiptist í fimm hluta. Í fyrsta hlutanum nefnir Gunnar þrjú ólík viðhorf til trúarbragðakennslu í grunnskólum: Í fyrsta lagi að henni eigi algjörlega að sleppa til að gæta trúfrelsis; í öðru lagi að kenna eigi aðeins almenn trúarbragðafræði þar sem allar trúar- og lífsskoðanir fái jafnmikið vægi; í þriðja lagi að leggja eigi mesta áherslu á kristnu fræðin vegna stöðu þeirra í samfélaginu en jafnframt að fjalla um önnur trúarbrögð og lífsviðhorf. Í öðrum hluta greinarinnar fjallar Gunnar um stöðu greinarinnar samkvæmt núgildandi íslenskum lögum og námskrá og kemst að þeirri niðurstöðu að þriðja viðhorfið hér að ofan sé ríkjandi þar en greinin fái þó mjög lítið vægi í kennslutíma. Í þriðja hlutanum nefnir Gunnar þau rök sem nefnd eru í Aðalnámskrá fyrir kennslu greinarinnar og flokkar þau í samfélagsrök, menningarrök, þroskarök, uppeldisrök og þekkingarrök.  Í fjórða hlutanum nefnir höfundur tvenn mótrök gegn núverandi kennslu greinarinnar, trúfrelsisrök og samfélagsrök (fjölmenningarrök) en kveður þau jafnskjótt í kútinn sjálfur. Í lok greinarinnar er svo fjallað um þann vanda sem blasir við námsgreininni: misjafnar forsendur og þekking kennara, lítill kennslutími og umfram allt hve viðkvæmt viðfangsefnið er og greinin vandasöm í kennslu þegar búast má við að nemendur kynnist ólíkum trúar- og lífsviðhorfum heima fyrir. Niðurstaða höfundar er sú, að grunnskólinn eigi að sinna vel fræðslu um trúarbrögð með vissri áherslu á kristin fræði, en umburðarlyndishugtakið þurfi að vera „í brennidepli“ í slíkri kennslu...

Persónulega virðist mér höfundur hafa margt til síns máls og auðvelt að koma auga á rökin fyrir því að framfylgja eigi núgildandi námskrá í kristnum fræðum og trúarbragðafræðum. Nemendur í grunn- og framhaldsskólum þurfa svo sannarlega að kynnast helstu trúarbrögðum heimsins til að geta skilið ólíka menningu og lífsviðhorf, ekki aðeins hjá því fólki sem byggir fjarlægar álfur, heldur e.t.v.bara hjá fjölskyldunni í næstu íbúð í blokkinni heima í Grafarvogi! Og það er ekki erfitt að gera orð Gunnars J. Gunnarssonar að sínum, þegar hann segir (bls. 49): „Umhugsunarefni er að í framhaldsskólum hér á landi er víðast hvar lítil sem engin kennsla í trúarbragðafræðum og hlýtur það að teljast gat í menntun þjóðarinnar“.

En hvað þá með kristnu fræðin og sérstöðu þeirra? Jú, það vill nú svo til að hvað sem trúarviðhorfum einstaklinganna sem þjóðina byggja í upphafi 21. aldar líður – og enn eru yfir 90% landsmanna í kristnum trúfélögum þó að hlutfallslega fækki í Þjóðkirkjunni – þá er ekki aðeins íslensk menning heldur að nokkru leyti vestræn menning í heild byggð á kristnum hugsjónum og manngildi, auk hugmynda Upplýsingarinnar um t.d. mannréttindi og lýðræði....

Ekki held ég að neinum nemanda í dag sé greiði gerður með því að svipta hann tengslunum við biblíuleg minni og kristna hefð. Og umfram allt á kennsla í greininni, líkt og annað skólastarf, að fara fram á forsendum skólans sem fræðslustofnunar.

Höfundur bendir réttilega á, hve vandmeðfarið það er, að ræða trúmál í (e.t.v.) fjölmenningarlegum bekkjum... Einkennist framkoma kennarans í kristnum fræðum og/eða trúarbragðafræðum af virðingu fyrir umfjöllunarefninu og fyrir ólíkum viðhorfum nemenda, ætti hann að mínum dómi óhræddur að geta kennt greinina. Jafnvel gæti hann gert grein fyrir eigin trúarafstöðu, kjósi hann það, en jafnframt gert nemendum grein fyrir að sú sé alls ekki skoðun allra, e.t.v. ekki þeirra sjálfra eða foreldra þeirra, og ekkert sé athugavert við ólíkar skoðanir. Lærist ekki umburðarlyndi einmitt þannig: Með því að sjá og heyra skoðanir sínar og annarra, ræða þær af virðingu og heiðarleika, en ekki með því að fela þær?

Grein Gunnars má lesa í Kirkjuritinu 2006, 72 (1), s. 46-49.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband